laugardagur, nóvember 26, 2005

Við byrjum öll símtöl með að segja: "Það er ekkert að gerast" til að vekja ekki falskar vonir. Í vinnunni horfa allir forvitnir á mig þegar ég svara í símann. Við sendum sms til Mömmu og tengdapabba um daginn og þau svöruðu bæði á innan við mínútu. Það er greinilega fylgst vel með. Við sáum fyrir okkur að Mamma væri búin að banna öllum að hafa kveikt á farsímanum sínum í kringum hana til að það færi ekkert á milli mála þegar hennar hringdi eða pípti.
En það er sem sagt ekkert að gerast. Við erum bara að setja upp jólaskraut, baka piparkökur og hlusta á jólalög. Á morgun kemur Habbidu með mér í messuna til að syngja þessi hefðbundnu aðventulög. Það verður bæði kirkjukórinn minn og kammerkór staðarins, voða gaman.

Ég á bara viku eftir í fullu starfi í vinnunni en svo held ég áfram með kórana og tek tvær messur auk jólatónleika. Ég ákvað bara að vera harður og segja nei við öllum beiðnum um að vinna umfram það, sem er eins gott því það er búið að spurja mig ansi oft undanfarna daga. Svo eru endalausar kveðjuathafnir. Um daginn var starfsfólkið með kveðjuhóf fyrir mig og Ingrid sem hefur unnið í móttökunni í 19 ár. Unglingakórinn ætlar á Jesus Christ Superstar eftir messuna 11 des. og kirkjukórinn verður með kveðjuhóf eftir jólatónleikana. Svo var mér sagt að ég yrði kvaddur af sóknarnefndinni á jólahlaðborðinu sem verður 14 des. en þá hafði ég ekki ætlað að koma í vinnuna og hafði ekkert heyrt um það fyrr en núna um daginn og sagðist ekki muna koma og þá var settur upp fýlusvipur. En ég stóð fastur á mínu. Ég á að vera í fríi í desember og vil verja tíma mínum með fjölskyldunni og finnst þetta satt að segja ein kveðjuathöfn of mikið. Ég stakk bara upp á að sóknarnefndin gæti mætt í messu í staðinn... til tilbreytingar.

Eins og ég hef sagt áður eru oft teknar svo skrítnar ákvarðanir í vinnunni. Af einhverjum furðulegum ástæðum fæ ég ekki að vera með í atvinnuviðtölunum fyrir organistastöðuna. Þau fara þannig fram að fyrst hittir umsækjandinn fulltrúa úr sóknarráðinu ásamt sóknarprestinum og skrifstofustjóranum og klukkutíma síðar hittir hann alla aðra úr starfsliðinu. Fyrir það fyrsta þá skil ég ekki af hverju hann getur ekki hitt alla í einu og svo finnst mér skrítið að það eiga helst allir að hitta hann en ég er sá eini sem fæ ekki að vera með. Þetta er ekkert persónulegt. Þetta hefur verið svona lengi að sá sem gegnir starfinu fær ekki að vera með í atvinnuviðtalinu. En ég hef aldrei fengið að vita af hverju þetta er svona. Mér hefði verið sama ef það ættu bara nokkrir að vera með. Í fyrra þegar ég sótti um þá voru tónlistarmennirnir með á hinum tveimur stöðunum og það var bara eitt viðtal.
Það hafa fjórir komið í viðtal og eftir viðtölin tvö hef ég sýnt þeim skrifstofuna og hljóðfærin og sagt þeim frá starfinu og um leið reynt að pumpa þau dálítið þannig að þetta hefur dálítið virkað eins og þriðja viðtalið í röð. Svo hafa eiginlega allir í vinnunni spurt mig hvað mér finnst.

Engin ummæli: