sunnudagur, ágúst 21, 2005

Nú er búið að laga allt sem var að... nema netið. Síminn var sem sagt tengdur á fimmtudaginn en við komumst ekki á netið og þegar ég hringdi á föstudaginn var mér sagt að ég hafi aldrei pantað flutning á netinu. Ég þrætti á móti því ég hringdi í byrjun ágúst en þá kom í ljós að ég þurfti að láta vita hvenær síminn yrði tengdur. Þannig að nú þurfum við að bíða í allt að níu daga eftir netinu. Hrafnhildur er hálf feimin við að hanga í tölvunni í einkaerindum í vinnunni sinni því yfirmennirnir eru alltaf að vara við því að það sé fylgst með þeim og því hefur hún ekkert bloggað síðan við komum aftur út. Ég hika hins vegar ekkert við það að fullnægja mínum internetsþörfum. Um daginn kom ég í vinnuna og hékk lengi lengi á netinu en sá svo pappíra sem ég þurfti að fylla út og senda og akkúrat sem ég var að gera þetta kom sóknarpresturinn inn og sagði: "Það er alltaf sama dugnaðarlyktin inni hjá þér." Ég lét náttúrlega eins og ég hefði ekki gert neitt annað allan morguninn.
Í morgun var guðsþjónusta við höfnina fyrir alla fimm söfnuðina í bænum, þ.e. Sænsku þjóðkirkjuna, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnusöfnuðinn og tvær fríkirkjur. Þetta hefur verið gert einn sunnudag á sumrin síðustu 10 ár en menn flaska alltaf á því að skipuleggja þetta almennilega en svo reddast þetta alltaf einhvern veginn. Ég var alla vega beðinn um að sjá um tónlistina og stjórna sameiginlegum kór og það gekk reyndar mjög vel.

Maginn á Hrafnhildi stækkar með hverjum degi og þegar ég sá hana í gær gáttaði ég mig á því hvernig hún héldi eiginlega jafnvægi því þetta leggst bara framan á hana. Að öðru leyti er hún algjörlega óbreytt útlitslega séð, þ.e. alltaf jafn sæt! Við eigum von á mjög fjörugu barni því það spriklar alveg svakalega mikið. Við förum til ljósmóðurinnar á þriðjudaginn og svo verða settar inn óléttumyndir um leið og netið verður tengt.

Allir að syngja afmælissönginn fyrir Indru í dag!

Engin ummæli: