þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Svíar eru undarlegir. Við hjónin erum löngu búin að segja upp störfum. Hrafnhildur hættir núna á föstudaginn og fer svo í frí og fæðingarorlof. Ég tek út frí og fæðingarorlof í desember og hætti svo formlega 1. janúar. En samt fáum við bæði launahækkun? Ekki nóg með það heldur er hún afturvirk frá apríl. Ég var að reyna þrýsta á um launahækkun í vor og beið með að tilkynna um ólettuna út af því og að ég ætlaði að hætta því annars fannst mér ég í vonlausri samningsstöðu. En svo fáum við samt launahækkun. Þetta er ekki eitthvað svona dæmi þar sem allir fá sömu prósentuna því í mínu tilviki hækka launin t.a.m. um ca. 10.000 íslenskar á mánuði. Ekki það að ég sé ósáttur við þetta en væri ég atvinnurekandi hefði ég bara látið þetta eiga sig.

Robert Sund leysti af í Uppsala í gær og það var skemmtileg tilbreyting. Fyrir þá sem ekki vita er hann kórstjóri Orphei Drängar, eins besta karlakórs í heimi, hefur gert fullt af skemmtilegum útsetningum og tók upp nokkra diska með Garðari Cortés syngjandi dægurlög. Hann var alveg rosalega skemmtilegur og mjög inspírerandi að sjá hann vinna. Hann lagði mikla áherslu á að það væri gaman á kóræfingunum og svo spilaði hann svo skemmtilega á píanóið. Við gerðum nokkrar slagtækniæfingar og hann spilaði undir á meðan og ég gat ekki annað en brosað því þetta minnti mig á morgunleikfimina á Gufunni. Stefan Parkman, aðalkennarinn okkar, er líka mjög góður, en hann er mun alvarlegri. Við fengum að stjórna kórnum hans á æfingu um daginn, þ.e. Uppsala Akademiska Kammarkör, og fengum hvern sinn þátt úr Krýningarmessunni eftir Mozart og það var alveg æðislegt því kórinn sem við vinnum með á mánudögum er bara ekki nógu góður og maður nær sjaldan að fá þau til að músísera eitthvað því þau eru svo lengi að læra nóturnar.

Nú er ég formlega hættur í Mikaeli kammerkórnum en ef ég hef tíma til þá get ég hoppaði inn í jólatónleikana sem eru reyndar sama dag og jólatónleikarnir í kirkjunni minni þannig að ég veit ekki hvort ég hafi orku í það. Um daginn sungum við Requiem og fleiri verk eftir Faure með hljómsveit og ég held svei mér þá að það hafi bara aldrei verið betur flutt, þrátt fyrir að við fengum bara tvær æfingar auk generalprufu samdægurs. Núna á laugardaginn fluttum við svo Missa Criolla og Mångfaldhetsmässa með suðuramerísku bandi og það var líka alveg svaka stuð. Við tókum upp disk um daginn sem var að koma út og hann er mjög fínn. Sérstaklega bandið en kórinn hefur ekki nógu hlýjan hljóm, sérstaklega sópranarnir.

Í kirkjunni er ég búinn að halda tvenna tónleika. Ég spilaði fallega orgeltónlist á allra heilagra messu og það var mjög vel heppnað og mætti fullt af fólki. Í messunni daginn eftir söng Vokalensemblið mitt og stóð sig svaka vel og vakti mikla lukku. Það ásamt unglingakórnum veitir mér mesta gleði í starfinu því annars fæ ekki svo mikið úr því lisrænt séð og þetta skipulagsleysi og óreiða er alveg að gera út af við mig. Það eru margir farnir að velta því fyrir sér hvað nýji presturinn tórir lengi í þessu starfi því hún er betru vön frá fyrra starfinu sínu.
Á sunnudaginn voru svo kórtónleikar með öllum þremur kórunum mínum og mér þótti þeir ganga mjög vel. Ég fékk íslenskan kontrabassaleikara til að spila auk kollega míns sem er svo flinkur jazzpíanisti og þetta voru aðallega kóralmelódíur í ansi skemmtilegum útsetningum.

Engin ummæli: