mánudagur, nóvember 03, 2008

Mikið er nú gott að þessi helgi sé liðin

Það gerist alltaf í kringum þetta leyti að það verður rosalega mikið um að vera hjá mér. Í fyrra var það viku seinna. Þá hugsa ég: Mikið hlakka ég til þegar sunnudagurinn er búinn. Þá er ég alla vega búinn að þessu öllu saman.
Mesta stressið var í kringum orgeltónleikana. Þó svo ég hafi leikið á orgel á ýmsum tónleikum undanfarin misseri þá hef ég ekki haldið heila orgeltónleika frá því ég starfaði í Nynäshamn. Svo er það böl organistans að maður getur ekki æft sig hvenær sem er á það hljóðfæri sem maður ætlar að leika á. En tónleikarnir gengu vel. Ég varð dálítið kaldur í höndunum í fyrstu verkunum og gerði nokkur mistök sem ég var alls ekki vanur að gera. Það hefur verið stressið. En svo hitnaði ég í þriðja verkinu. Aðsóknin var þokkaleg miðað við orgeltónleika, ca. 20-30 manns og þeir virtust frekar ánægðir.
Á laugardagskvöldið var mjög huggulegt matarkvöld Fílunnar, í gærmorgun var guðsþjónusta á Hrafnistu og svo fluttum við Requiem eftir Fauré í messu í Langholtskirkju. Ég hef haft þessa hugmynd í kollinum frá því ég bjó í Gautaborg og upplifði svona messu í Örgryte nya kyrka. Þetta heppnaðist mjög vel, tók um 70 mínútur og féll í mjög góðan jarðveg frá þeim sem ég heyrði. Kórinn hljómaði líka alveg ótrúlega vel. Rosalega þéttur og flottur hljómur. Svo höfðum við 20 mínútur til að bruna upp í Fossvog og flytja verkið aftur þar en slepptum að vísu 2. og 3. kaflanum því við höfðum ekki færi á að æfa þetta með orgelinu þar, auk þess sem kórinn stóð niðri á gólfi en Steini hetja spilaði uppi á orgellofti.
Í kvöld byrjar Hljómeyki að æfa Dixit dominus og fleiri verk eftir Händel og Kór Áskirkju undirbýr útgáfutónleika jóladiskins sem kemur vonandi út fyrir aðventuna... ef Guð lofar!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta voru alveg ótrúlega flottir orgeltónleikar. Til hamingju :)