Ég kom heim frá Póllandi aðfararnótt þriðjudags og er búinn að vera slappur síðan. Bæði búinn að vera með hita og núna að drepast í hálsinum. Ég var að koma frá lækni sem setti mig á pensilín þar sem ég er með streptokokka sýkingu. VEI! Hrafnhildur var með í Póllandi og hélt áfram til Svíþjóðar og Danmerkur og kemur heim annað kvöld. Eins og það var nú gaman að sjá Ísak og hann ánægður að fá mig aftur þá hefur verið erfitt að vera með hann einn þegar það er svona óþægilegt að tala. En við erum búnir að kúra saman og horfa á Mary Poppins og Kalla og sælgætisgerðina og svo er hann búinn að lesa nokkrar bækur fyrir mig, m.a. Geiturnar þrjár.
Þessi langþráða ferð Fílharmóníunnar til útlanda heppnaðist mjög vel. Wroclaw og Kraká eru mjög fallegar borgir. Hópurinn fékk sitt hvort hótelið rétt hjá aðaltorginu í Wroclaw og því gat fólk labbað um allt að vild. Æfingarnar gengu líka alveg ótrúlega vel. Í fyrsta lagi þá kunni kórinn verkið rosalega vel og söng það alltaf betur og betur. Í öðru lagi var hljómburðurinn í tónleikasalnum virkilega góður... eins og salurinn var ljótur! Í þriðja lagi var hljómsveitin mjög góð! Ég tók eftir því að hljóðfæraleikarar í eldri kantinum töluðu eiginlega bara pólsku, kannski einhverja þýsku, en eiginlega enga ensku. Yngra liðið var nokkuð sleipt í ensku. En ég þakkaði Guði fyrir þessi ítölsku tónlistarorð sem allir skilja. Aðalvandamálið var að fá alla til að byrja á ákveðnum takti í miðjum kafla. Ég kallaði taktnúmerið á ensku, þýsku, bað um að það yrði þýtt á pólsku og sýndi stundum tölu með puttunum en ég þurfti samt að byrja tvisvar, þrisvar á sama staðnum þar til allir voru búnir að fatta hvar við vorum.
Flestir hljóðfæraleikarnir voru mjög almennilegir en sumir, sérstaklega í eldri kantinum, voru nokkuð brúnaþungir framan af. Svo tóku þeir mig alltaf betur í sátt og voru farnir að klappa fyrir mér í lok æfinga og á tónleikunum. Mér var boðið að koma aftur og ég væri svo sannarlega til í það. Tónleikarnir heppnuðust líka ekkert smá vel. Hulda Björk og Ágúst Ólafs sungu með okkur og voru alveg frábær. Kórinn hafði aldrei sungið verkið betur og hljómsveitin fylgdi mér fullkomlega. Það hafa verið nokkur hundruð manns í salnum og við vorum kölluð fjórum sinnum inn og staðið upp fyrir okkur. Að lokum dró ég konsertmeistarann með mér út af sviðinu.
Nú hef ég fengið að stjórna þessu stórbrotna verki og náð að uppfylla drauminn sbr. þessa bloggfærslu fyrir rúmum tveimur árum. Nú er Fílann komin í rúmlega fjögurrra mánaða frí og í vikunni lauk upptökum hjá Kór Áskirkju þannig að það hægist allverulega á hjá mér sem er mjög kærkomið. Meira er hægt að lesa um Póllandsförina á moggablogginu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Velkominn heim :)
Þannig að það verður bara hvíslað á kóræfingu í kvöld?
Skrifa ummæli