föstudagur, janúar 25, 2008

Ég skrifaði svo langt svar á kommentakerfi Óttars að ég ákvað að birta það líka hér.

Kæri vinur.

Sem borgarbúi hef ég afskaplega lítil áhrif á stjórn borgarinnar. Ég get kosið á fjögurra ára fresti og á óljósan hátt raðast 15 fulltrúar í borgarstjórn. Átta þeirra geta myndað meirihluta en einn þeirra getur sltið samstarfinu og starfað með hinum sjö. Þetta hefur nú gerst í tvígang á kjörtímabilinu. Best finnst manni að sama stjórn sitji í fjögur ár en maður ætlast til þess að ef einhver einn ætlar að hlaupast undan merkjum þá hafi hann ríka ástæðu til og láti reyna á samstarfið til þrautar. Þegar Björn Ingi gerði þetta í haust var það mjög vafasamt. Þegar Ólafur F. gerði þetta í byrjun vikunnar var það fyrirvara- og ástæðulaust. Hann hafði ekki lagt sig fram við að láta samstarfið virka heldur setti allt í uppnám af því að það hentaði honum persónulega. Hann sveik og laug að samstarfsfólki sínu og setti stjórnkerfi borgarinnar í uppnám þegar það var varla búið að jafna sig eftir síðustu meirihlutaskipti. Nú er þessi maður orðinn borgarstjóri! Hann á ekki skilið að fá þetta embætti og það er alveg greinilegt á framkomu hans þessa viku að hann veldur því ekki!

Eftir síðustu kosningar var talað um að nú væri komið nýtt og ferskt fólk í borgarstjórn en mér finnst að allir borgarfulltrúarnir 15 ættu að skammast sín! Þeir hafa brugðist trausti borgarbúa og misnotað vald sitt. Björn Ingi hefndi sín á Sjálfstæðisflokknum í haust með aðstoð Don Alfredo og Sjálfstæðismenn hefndu sín á hinum með því að lokka og jafnvel blekkja veikasta hlekkinn með því að veifa borgarstjórastólnum fyrir framan hann og gera þetta embætti að skiptimynt. Þetta eru eins og leikskólakrakkar og eru búnir að draga pólitíkina niður í svaðið! Nú verða allir stjórnmálamenn svo paranoid því það er ekki hægt að treysta neinum. Ef þeir ætla að haga sér eins og leikskólakrakkar þá kemur almenningur fram við þá í samræmi við það. Ef þeir ætla að sýna lýðræðinu þvílíka vanvirðingu þá eru orð þeirra einskis virði þegar þeir saka aðra um ólýðræðislega framkomu.

Hvað getur maður gert þegar manni blöskrar svona. Það er hægt að ræða við aðra, skrifa um þetta á netinu og skrifa nafn sitt á mótmælalista sem er samt það ófullkominn að hver sem er getur skrifað hvern sem er á listann (meira að segja Jesús) en maður veit að þetta hefur lítil sem engin áhrif því stjórnmálamenn treysta á að flestir gleymi þessu í næstu kosningum og þessir tveir verðandi borgarstjórar hafa ekki manndóm í sér að taka við mótmælalistunum. En maður getur reynt að láta í ljós óánægju sína beint fyrir framan þá sem eru ábyrgir fyrir þessum ógjörningi. Ég hafði hug á að mæta á borgarstjórnarfundinn en komst ekki þar sem ég var að vinna. Sama á við marga sem ég þekki, þ.á.m. fólk sem hafði alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en gat ekki hugsað sér að gera það aftur. En ég þekkti líka nokkra sem komust og það er mjög ómaklegt að afskrifa þetta fólk sem menntaskólakrakka og meðlimi í ungliðahreyfingum fráfarandi meirihluta. Það kraumar mikil reiði hjá ansi mörgum Reykvíkingum enda eru þrír af hverjum fjórum á móti nýja meirihlutanum samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.

Sjálfstæðisflokkurinn skaut sig svo illilega í fótinn með þessum gjörningi á mánudaginn. Þeir hefðu betur sleppt því og farið í næstu kosningar með nýjan oddvita og þá búnir að hreinsa sig af þessu Rei máli. Villi sýndi það í haust að hann er ekki góður borgarstjóri! Annað hvort er hann svona spilltur (ásamt Binga) að hann færir útvöldum aðilum Orkuveituna á silfurfati eða þá er hann ekki með á nótunum og man virkilega ekki neitt. Hvort tveggja er slæmt. Hann getur beðið afsökunar á þessu og viðurkennt mistök en hann er ekki hæfur sem borgarstjóri. Þessi meirilhlutamyndun er ekki gott dæmi um hæfni þessa manns. Hún er byggð á afskaplega hæpnum grunni enda þarf ekki mikið til að hún falli og þá er allt komið í uppnám enn einu sinni, þökk sé Villa og Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst miður þegar Sjálfstæðismenn geta ekki svarað gagnrýni um eigin misgjörðir á málefnalegan hátt heldur segja: "Sko... hinir eru ekkert betri... þeir gerðu þetta líka!"

Kæri æskuvinur. Ekki stunda þennan leik við mig!

Maggi

p.s. Sjálfstæðismenn eru búnir að búa til nýjan leiðtoga, Dag B. Eggertsson. Hann þótti ekkert spes fyrir síðustu kosningar, stóð sig ágætlega sem borgarstjóri en þegar hann missti það embætti komu alveg ofboðslega margir fram og lýstu yfir hvað hann hefði staðið sig frábærlega. Svo hefur hann svarað mjög vel fyrir sig og komið rosalega sterkur út úr þessu öllu saman. Sjálfstæðisflokkurinn á sennilega eftir að sjá eftir því í marga áratugi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill!

Nafnlaus sagði...

Tek undir það - alveg frábær lestur.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir pistilinn Maggi, við höfum svo sem ekki alltaf verið sammála um pólitík og er það gott og vel.

En ég er enn þeirrar skoðunnar að betra er fyrir flokkinn að vera í stjórn en stjórnarandstöðu borgarbúum öllum til heilla.

Þú talar um REI málið og einhvern vegin get ég ekki lesið öðru vísi úr skrifum þínum en að þú skrifir Vilhjálm eingöngu fyrir þeim mistökum sem áttu sér þar stað, svo er nú aldeilis ekki. Þó svo ég ætli nú ekki að fara rekja þá sögu hér enn og aftur - nema þú viljir það :-)

Rétt er það, eitthvað var um fólk sem komið var yfir 20 af þessum mótmælendum, en líklega hefði mátt telja þá á fingrum annarar handar eða svo, stærsti hópurinn var úr menntaskólunum og meira segja hluti af þeim sem hvorki voru með kosningarrétt né búsettir hér í borginni og það þótti mér svolítið sérstakt svo ég segi nú ekki meir.

Maggi sagði...

Nú gerirðu einmitt það sem ég bað þig um að gera ekki. Þú bendir á að aðrir hafi verið jafnslæmir og Villi í þessu Rei máli. Það skiptir engu máli í umræðu um hæfi hans. Hann bar ábyrgð á þessu, allt saman var borið undir hann og hann samþykkti það. Það hefur allt saman komið í ljós. Ég minntist þar að auki ekkert á að hann hefði verið einn í því máli. Þvert á móti skrifaði ég að Björn Ingi hefði verið með honum í þessu.

Ég heyrði meðal annars frá öðrum kirkjuverðinum mínum sem fór á pallana (og ekki er hann menntaskólanemi né úr ungliðahreyfingu vinstri flokkanna) að þarna var fólk úr öllum áttum. Alveg örugglega fleiri en fimm!

Nafnlaus sagði...

Óttar, kjaftæði, það var mjög lítill hluti fólks undir tvítugu þarna. Flestir milli tvítugs og þrítugs en líka hellingur af fólki á öllum aldri. Ég var þar, ég veit. Ekki á pöllunum en niðri í stiga.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill Maggi, tek undir hvert orð.
þín stolta og elskandi m amma