þriðjudagur, maí 13, 2008

Ég fór að hlusta á Náttsöngvana í Hallgrímskirkju í gær. Ég er ekki sáttur við að titlinum Vesper skyldi vera haldið á lofti. Það er rangnefni. Það var mjög gaman að hlýða á þetta. Mótettukórinn var í hörkuformi og kunni sitt mjög vel. Sérstaklega fannst mér altröddin hljóma sannfærandi. Ég tróð mér bak við súlu á öðrum bekk og þar hljómaði þetta mjög vel. Svo var Hljómeykisæfing beint á eftir og það voru eiginlega allir á sömu skoðun. Kórinn kom mjög vel út en ekki sólistarnir. Alt sólistinn var reyndar ágætur en ekki tenórinn. Það var eins og maðurinn vissi ekki um hvað hann var að syngja sem var þó skrítið því hann ku víst kunna rússnesku. Svo var fenginn hörku rússneskur bassi sem náði niður fyrir Almannagjá. Hann var með gott hljóðfæri en hreif mig ekki. Það truflaði mig líka að hann söng sig ekki inn í kórhljóminn. Hann heyrðist alltaf í gegn. Sumt í túlkuninni var mér að skapi, annað ekki eins og gengur og gerist enda býður þetta verk upp á mjög mismunandi túlkun. Það sem stuðaði mig mest var að það skyldi stoppað á eftir hverjum einasta kafla og gefið tóninn og að rússneski bassinn var stundum fenginn til að syngja tónles á milli kaflanna. Þá steig hann fram fyrir kórinn, söng, og fór svo aftur á sinn stað. Það hefði farið betur á því að syngja þetta úr kórnum.
Annars naut ég tónleikanna í botn og það var líka svo gaman hvað myndaðist mikil stemmning í troðfullri Hallgrímskirkju. Nú er vonandi að það mæti jafn margir Móttetukórsmeðlimir í Skálholt fimmtudagskvöldið 10. júlí þegar Hljómeyki flytur verkið í annað sinn. Það væri líka óskandi að Hörður og hinir kollegar mínir væru jafn duglegir að mæta á tónleika hjá mér eins og ég mæti hjá þeim!

Engin ummæli: