þriðjudagur, október 28, 2008

Fleiri tónleikar

Á laugardaginn kl. 17.00 kem ég fram á Tónlistardögum Dómkirkjunnar þar sem ég mun leika orgelverk eftir J.S.Bach, Buxtehude, Gunnar Reyni Sveinsson, Oskar Lindberg, Percy E. Fletcher og Jehan Alain. Þetta er fjölbreytt og metnaðarfullt prógramm þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Sérstaklega er ég hrifin af verkinu eftir Alain og á í mesta basli við að fara ekki að gráta þegar ég spila það. Það er svo áhrifaríkt!
Á sunnudaginn kl. 14.00 flytur Kór Áskirkju Requiem eftir Gabriel Fauré í Langholtskirkju undir minni stjórn. Einsöngvarar eru Elma Atladóttir og Skúli Hakim Mechiat og Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel. Séra Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ásprestakalli prédikar og þjónar fyrir altari við messuna ásamt Margréti Svarsdóttur djákna Áskirkju.
Til stóð að flytja messuna í Áskirkju á hefðbundnum messutíma, en vegna undirbúnings að uppsetningu steinds kórglugga í kirkjunni sem nú stendur yfir, var ákveðið að leita húsaskjóls hjá grannsöfnuðinum í Langholtskirkju.
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir til þessarrar messu Ássafnaðar í Langholtskirkju á sunnudaginn kemur.

Engin ummæli: