miðvikudagur, september 27, 2006

Nú gekk vel á varaorkuforðann hjá mér í kvöld. Var að æfa Carmina burana í kirkjunni með öllum nema slagverki og drengjakór. Kórinn er í hörkustuði! Hljómar mjög vel. Það var bara einn staður sem var ekki tilbúinn en hann hreinsaðist upp í kvöld og verður eflaust flottasta og eftirminnilegasta atriðið. Og karlakórinn er barasta mjög flottur. Nú mega Fóstbræður fara að vara sig. Það lítur út að það komi ansi margir á sunnudaginn, fáir miðar eftir. En ég er búinn að redda mínu fólki og kominn með alla miða í hendurnar.

Hljómeykistónleikarnir gengu líka mjög vel, sérstaklega í gærkvöldi. Frumraun mín sem stjórnandi kórsins byrjaði vel eða hittó því þegar ég hneigði mig á sviðinu á Eiðum í upphafi tónleikanna hrundu allar nóturnar úr möppunni, af sviðinu og niður á gólf. Ég þurfti að príla niður af sviðinu og tína þær upp á meðan kórinn og áheyrendur biðu. En svo gekk þetta mjög vel fyrir utan örfáa staði. Leigutenórinn stóð sig mjög vel, var að lesa þetta allt beint af blaði fyrir utan fjögur verk. En tónleikarnir í gær gengu alveg hnökralaust fyrir sig og voru á köflum alveg æðislegir. Hljómurinn í kórnum var líka virkilega góður. Ég hafði mestar áhyggjur af því þegar ég tók við í haust því þá var intónasjónin ekki nógu góð. Svo er barasta fullt af spennandi verkefnum framundan, raunar í báðum kórunum mínum.

6 ummæli:

Hildigunnur sagði...

Það á ekki að vera vandamál með intónasjónina hjá þessu liði, það kemur fljótt til. Ég er mjög ánægð með samhljóminn í kórnum, hann var ekki alveg nógu góður í fyrravetur, við tókum okkur rosalega vel í gegn í sumar með það. Eigum að geta staðið á sporði hvers sem er með þennan mannskap...

Hildigunnur sagði...

já og þetta með slysabyrjunina létti nú bara ákveðinni pressu af tónleikunum. Byrjuðu á einhverju fyndnu og enduðu á sama :-D

Maggi sagði...

Jú jú. Það er um að gera að gera gott úr þessu.

Syngibjörg sagði...

Til hamingju með þetta. Hlakka til að heyra í ykkur og sjá á sunnudaginn.

Nafnlaus sagði...

til lukku med tonleikana!

Endilega kiktu a heimasidu norska Hakons Waage. Linkurinn er a blogginu minu.
Alveg med eindaemum fyndid!

Nafnlaus sagði...

Stjórnandamömmunni fannst rosalega gaman á tónleikunum á þriðjudaginn. Frábær kór, lagaval , og stjórnandinn kitlaði stoltu taugar mömmunnar. Verð að ítreka hversu ánægjulegt var að heyra lög kórfélaga, hvert öðru skemmtilegra.