föstudagur, febrúar 17, 2006

Ég held ég myndi ekki vilja vera tónlistarkennari til frambúðar. Mér finnst þetta ágætt eins og er, sérstaklega af því að ég veit ég mun bara gera þetta fram á vor. Stundum dugir ekki tíminn fyrir nemandann og stundum er ég í vandræðum með að halda sumum í fullar 30 mínútur, sérstaklega sjö og átta ára krökkunum. Maður má helst ekki hleypa þeim fyrr úr tímanum því þá gætu foreldrarnir kvartað og heimtað afslátt (það hefur víst gerst). En það er voða gaman þegar maður nær vel til þeirra.
Ég er með eina gelgju sem finnst allt ómögulegt og fannst "geht hallærislegt" að þurfa að spila utanbókar á tónleikunum og skildi ómögulega afhverju þess þurfti. Svo er hún að æfa Tyrkneska marsinn eftir Mozart og var búin að læra hann utanbókar að eigin frumkvæði og þá gat ég stoltur bent henni að hún hafði fundið sjálf hjá sér þörf til þess læra þetta utanað. Ég hef líka sagt sumum nemendum að semja lag og nota niðurlagshljóma sem þau kunna sem undirspil. Það kemur angistarsvipur hjá nánast öllum þegar ég minnist á þetta fyrst en svo hefur gengið mjög vel. Einn 9 ára gutti tók sig til og samdi tvö lög á nokkrum dögum (yfirleitt eru þetta bara nokkrir taktar) en hann hafði skrifað þau niður á blað og fékk pabba sinn til að hanna fyrir sig nótnablað. Hann sat líka límdur einn morguninn við tónsmíðarnar og mamma hans ætlaði aldrei að geta slitið hann frá píanóinu til að fara í skólann. Vinur hans var að æfa lag sem heitir Boogie og páfagaukurinn hans fílaði það svo vel að hann fór alltaf að dansa með á ákveðnum stað í laginu.

2 ummæli:

Syngibjörg sagði...

Meira svona. Las á einu bloggi um nemendatónleika þar sem allir krakkarnir spiluðu frumsamin lög.
Finnst það frábært:)

Maggi sagði...

Ég hefði einmitt óskað þess að mér hefði verið ýtt út í þetta þegar sem barn.