föstudagur, apríl 30, 2004

Í dag er Valborgsmässa. Ég veit ekki alveg af hverju eða hvers vegna en dagurinn virkar eins og sumardagurinn fyrsti. Það fara allir út og hlusta á kóra syngja, setja upp stúdentshúfurnar sínar og ungmennin detta í það. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég stjórna ekki kórnum mínum sem ég hafði þangað til síðasta vor. Hins vegar var ég beðinn um að syngja með í karlakór sem var settur saman af nemendum skólans og við sungum af svölunum yfir kaffiteríunni. Nokkur dæmigerð karlakórsvorlög sem við æfðum tíu mínútum áður en við sungum. Sumt þekkti ég vel en annað hafði ég aldrei heyrt þó svo að þetta væri alveg klassískt. Svo var ég beðinn um að stjórna sem var dálítil kúnst þar sem maður þurfti að syngja um leið og lesa annan tenór prima vista og taka með allar fermötur, ritardandó, bindiboga og andanir sem eru orðnar hefð en standa ekki í nótunum. En kvenpeningnum í skólanum þótti þetta náttúrlega æðislegt enda ekki amalegar raddir.
Fyrir fyrstu Valborgsmässuna mína var talað um í kórnum hvort allir ættu ekki að hafa "studentmössa" sem ég vissi ekki alveg hvað var. Hélt helst að það væri svunta af einhverjum ástæðum. Þótti það frekar skrítið að maður skyldi hafa stúdentssvuntu. Mér datt kannski í hug að þetta væri eitthvað í sambandi við húsmæðraskóla en kórinn minn tilheyrði Verslunarháskólanum þannig að þetta meikaði engan sens. En svo kom í ljós að þetta þýðir stúdentshúfa. Þær eru mjög fjölbreyttar í útliti, oft með einhvern dúsk og ansi litríkar. Í fyrra gat ég verið með mína og þótti hún nokkuð merkileg. Sérstaklega þetta með að taka þetta hvíta af eftir eitt ár og svo er hún svona svört og drungaleg eftir það.

Engin ummæli: