miðvikudagur, maí 05, 2004

Ég fylgist spenntur með þessu fjölmiðlamáli á Íslandi og leita uppi allt sem hefur verið skrifað um þetta. Hér í Svíþjóð er ansi gott ríkissjónvarp sem sinnir menningarlegu og uppbyggilegu hlutverki og virkar vel með einkareknu sjónvarpsstöðvunum sem sýna mest megnis afþreyingarefni. Það sýnir oft mjög góðar heimildarmyndir og í fyrra sá ég meðal annars mynd um ástandið á Ítalíu þar sem Berlusconi ræður yfir nánast öllum einkareknum fjölmiðlunum og hefur beitt áhrifum sínum sem forsætisráðherra á ríkissjónvarpið þar. Það voru nefnd dæmi um að í Íraksstríðinu mætti ekki nota ákveðin neikvæð orð um stuðning ríkisstjórnarinnar við stríðið og einum fréttamanninum sem hafði unnið þarna í marga áratugi, var sagt upp störfum eftir að hafa fengið mann í viðtal sem gagnrýndi aðgerðir Berlusconi. Á Ítalíu eru í gildi fjölmiðlalög sem koma í veg fyrir að einn aðili geti átt of mikið í fjölmiðlunum en honum hefur tekist að brjóta gegn þessu og þrátt fyrir ítrekaðar áminningar dómstóla hefur ekkert gerst.

Eftir að hafa séð þennan þátt fannst mér ástæða til að setja lög um fjölmiðla á Íslandi en mér þætti alveg svakalega sorglegt ef það verður gert með þeim hætti sem Davíð vill gera nú. Þetta frumvarp er svo asnalegt að maður bara trúir því ekki. Svo hefur umræðan verið ofboðslega ómálefnaleg. Mér fannst ansi gott sem Gunnar Smári skrifaði í fréttablaðið í gær (þriðjudag):
Ef það er svo að fjölmiðlar ganga erinda eigenda sinna eins og Davíð og fleiri vilja meina þá tekur þetta frumvarp ekkert á því. Það er ekkert fjallað um innri starfsreglur og ekkert kemur í veg fyrir að einn og sami aðili geti átt alla einkarekna fjölmiðlana svo framarlega sem hann er ekki markaðsráðandi. Og ekkert sagt um dagblöð (þ.e. að markaðsráðandi aðilar mega áfram eiga hlut í Morgunblaðinu).

Ég var einnig gáttaður á því hvernig fjölmiðlar í Bandaríkjunum brugðust við pyntingarmálinu þegar það kom upp í síðustu viku. Fréttin kom fyrst fram í 60 mínútum en þeir höfðu beðið með að senda handa út í 2 vikur vegna þrýstings frá Pentagon. Og eftir það fjölluðu nær allir vestrænir fjölmiðilar um þetta nema Bandarískir. Tveir prófessorar í fjölmiðlafræði (sænskur og bandarískur) sögðu ástæðurnar vera tvær. Önnur sú að stjórnvöld hefðu það mikil áhrif á fjölmiðlana. Ef þeir birtu fréttina gætu þeir búist við stirðari samskiptum við stjórnvöld og misst af "scoop" frá þeim og þar af leiðandi misst áhorf. Hin ástæðan er sú að áhorfendur eru flestir svo þjóðernissinnaðir að svona neikvæðar fréttir um stríð sem er í gangi falla ekki í góðan jarðveg: áhorf minnkar, fyrirtæki draga úr stuðningi og draga auglýsingar til baka.
Svo er alltaf verið að tala um að Bandaríkin séu svo frjáls og lýðræðisleg!

Engin ummæli: