Ég byrjaði daginn á því að horfa á myndband af talfærunum. Það var læknir sem stakk þræði með myndavél á endanum upp í nefið á sér þannig að maður gat séð raddböndin í aksjón. Mjög áhugavert. Ég hét því að ræskja mig aldrei framar eftir að hafa séð hvernig þetta afmyndast allt saman við þá athöfn.
Ég fór líka á hádegistónleika með orgelkennaranum mínum. Hún spilaði í tónleikaröð sem er búin að vera í allan vetur með tónlist Bachs í nýju ljósi. Hún improviseraði í kringum fjóra orgelkórala úr Orgelbuchlein ásamt slagverksleikara. Ég verð nú bara að viðurkenna það að þetta voru óvenjulegastu orgeltónleikar sem ég hef sótt. Stundum var þetta voða spennandi og flott og stundum ekki og stundum alls ekki. Í fjórða og síðasta verkinu þá stóð einn gamall maður upp, greip skjalatöskuna sína og strunsaði út um leið og hann hristi hausinn. Mér þótti það bara tilheyra sérstaklega af því að í gær sagði kennarinn mér að hún hefði spilað verk eftir Ligeti sem byggir á því að organistinn spilar stóra hljóma eftir nótunum og registrantinn impróviserar á tökkunum, t.d. hálfútdregnir takkar, engir takka o.s.frv. (ég hef einu sinni registrerað fyrir hana í þessu sama verki). En á þessum tónleikum kom gamall maður til hennar eftir á og sagði hvað honum þætti þetta frábært og samtímis var annar gamall maður sem hundskammaði prestinn fyrir að leyfa að þetta væri spilað í kirkjunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli