Ég er fórnarlamb betlara, skoðanakannanafólks og góðgerðarstofnanasafnara. Ég er alltaf stoppaður niðri í bæ. Fólk eltir mig út um allt. Hvað skoðanakannanir varðar þá passa ég oftast ekki inn í markhópinn. Ég er annað hvort of ungur, of gamall, án vinnu eða þá að ég drekk ekki kaffi. Í dag kom kona hlaupandi á eftir mér þegar ég var niðri í bæ (það var nota bene nokkur hundruð manns þarna) og þessi kona var alveg eins og óframfærna, mjóróma vinkona hennar Dörmu í þáttunum um Dörmu og Greg. Hún spurði hvaða morgunblöð ég les og við sögðum upp Göteborgsposten í haust og lesum helst netið og þá passaði ég ekki inn í könnunina. Svo er ég alltaf spurður til vegar. Líka í útlöndum þó svo ég sé nýkominn til borgarinnar. Það finnst mér reyndar allt í lagi. Gaman að maður lýtur ekki út fyrir að vera túristi.
Áðan var Júróvsjónþáttur í sjónvarpinu. Það voru sýnd 11 lög sem munu keppa í Istanbúl og það voru dómarar frá öllum Norðurlöndunum sem spáðu um gengi lagsins í keppninni. Frá Íslandi var Eiríkur Hauksson. Okkur Hrafnhildi fannst eins og þetta væri Laddi að herma eftir Eiríki Haukssyni. En hann var ansi góður. Talar svona fína norsku. Svo var Hrafnhildur svo ánægð að hann skyldi hafa losað sig við permanentið.
Nú er ég að fást við hljómsveitarverk eftir Brahms: Variasjónir yfir stef eftir Haydn. Eftir að hafa fengist við Bartok og fyrst og fremst Stravinski þá virkar þetta frekar einfalt. Stravinski er með svo flókinn rytma og mikið að gerast. En fyrir vikið þá gat kennarinn minn leyft sér að vera mjög smámunasamur. Það er svipað með hann og suma aðra kennara sem ég hef haft að hann verður á stundum dáldið þreyttur á mér vegna þess að ég hef svo ákveðnar skoðanir hvað varðar túlkun og það kemur æ oftar fyrir að ég er ósammála honum. Það er sama sagan með þá orgelkennara sem ég hef haft. Ég fæ stundum þennan svip: Æ, geturðu ekki bara spilað eins og ég!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli