Úff. Hvernig er hægt að borða svona mikið. Ég er ennþá ekki búinn að jafna mig eftir allt súkkulaðið, svínabóginn og ég veit ekki hvað. Eyjó kom til okkar og kenndi mér að hanna vefsíðu. Hann vildi meina að þetta væri ekkert mál en það þarf að gera ansi mikið bara til að birta eina setningu. Þetta venst ábyggilega. Ég byrjaði aðeins að kynna mér þetta í gær og þetta er voða spennandi. Málið er bara að fikta nógu mikið og þannig lærir maður best. Það er ágætt að kunna þetta upp á framtíðina að gera.
Ég þurfti að fara í skólann í dag. Var í söngtíma. Söngkennarinn minn lifir fyrir kennsluna nú þegar hann er hættur að syngja opinberlega og fannst alveg ómögulegt að sleppa úr kennslu þessa vikuna (því ég á að vera í söngtímum á mánudögum). Svo þegar Lars (organistinn í Oscar Fredriks kirkjunni) hringdi í mig og bað mig um að leysa sig af í messu í dag fannst honum það frekar léleg afsökun að ég þyrfti að vera í söngtíma. Ég ætti kannski að útvega vottvorð frá söngkennaranum og sýna Lars.
Mér tókst líka að æfa mig alveg heilmikið á orgelið í dag. Ég hafði samband við Hallgrímskirkju um daginn og fæ að spila á tónleikaröðinni þar í lok júlí og Erla Elín sem sér um þetta vildi helst að maður spilaði eitthvað íslenskt. Þannig að ég fór í gegnum þær íslensku orgelnótur sem ég er með en verð nú bara að segja það að þar var ósköp lítið sem höfðaði til mín. Gunnar Reynir Sveinsson er nú reyndar fínn. Ég hef spilað eitt verk eftir hann (Tilbrigði við Jesú mín morgunstjarna) og svo fann ég í dag Tilbrigði við Nú vil ég enn í nafni þínu og það var bara fínt. En hin verkin voru annað hvort frekar ómerkileg, augljósar kópíeringar af einhverju öðru eða framúrstefnu tilraunastíll (sami tónn spilaður 32 sinnum og svoleiðis). Ég hugsaði með mér að ég gæti sennilega gert betur sjálfur og þá hugsaði ég aftur: "Já, ég get ábyggilega gert betur sjálfur." Þannig að ég ætla að reyna það. Semja sjálfur fyrir þessa tónleika. Það flokkast náttúrlega undir íslenska tónlist. Ég var að hugsa um að nota hollenska sálminn "Þú mikli Guð" að einhverju leyti sem ég hef alltaf haldið upp á.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli