þriðjudagur, apríl 27, 2004

Á kóræfingunni í gær kom skoskur bassabásúnuleikari úr sinfóníunni til að kenna okkur framburðinn í verki eftir James McMillan við ljóð eftir Robert Burns. Hann komst í svo mikinn ham og fór að lesa fleiri ljóð eftir Robbie Beeeerns og hann las þau á SKOSKU (nota bene ekki geilísku heldur skosku). Maður skildi ekki orð. Svo tók ég eftir að það litu voða margir á mig. Þegar hann var búinn þá sögðu margir að þetta væri nú bara alveg eins og íslenska og spurðu hvort ég skildi þetta. Ég náði einu orði.... held ég... hann sagði einhvern tímann "september" en að öðru leiti.....hmmm. Þegar ég vann á Hótel Sögu áttum við öll erfiðast með að skilja Skotana af öllum þjóðernum, þó svo þeir töluðu ensku.
"Swewanfurdanæ"
"Sorry, Could you repeat that sir."
"Sewanfurdínæn"
"Once again sir."
"Sewanfurtínæn."
"????....uhm... Oh... Seven forty nine. Of course sir. Here you are"
"(That's what I've been saying.... you....)"
Hvað er með þetta fólk. Nennir það ekki að hreyfa munninn. Ég skil ekki hvernig þú ferð að því að búa þarna Torfi.
En fólki fannst þetta svona líkt íslensku. Það var eitthvað sem minnti á ð og þ hljóðin og svoleiðis. Ég kenndi nebblega kórnum íslensku síðustu jól þegar ég stjórnaði verki eftir Báru Grímsdóttur á jólatónleikunum.
Svo átti ég að sjá um karlana aftur í heilar 40 mínútur og átti bara að æfa eitt stykki. Ég sá ekki fram á að það myndi endast í svo langan tíma en svo var alveg nóg að gera og þeir sungu þetta svo undurfallega í lokin. Svo vildu þeir syngja "skógarvatnslagið" aftur því þeir sögðust ekki hafa hlegið svona vel og innilega í mörg ár. En það gafst því miður ekki tími til þess.

Engin ummæli: