Við fórum að sjá Brottnámið í gærkvöldi. Það var ágætis skemmtun. Uppfærslan góð og söngvararnir fínir. Tónlistin fannst mér bara svona lala. Ég reyndi einu sinni að hlusta á þessa óperu og gafst upp og ákvað að það væri ábyggilega skemmtilegra að sjá hana. Svo sá ég hana í sjónvarpinu en ákvað að það væri sennilega skemmtilegra að sjá hana á sviði. En ég held það hafi vantað ansi mikinn kraft í þá sýningu sem við sáum í gærkvöldi. Ég veit að þetta stóð ansi tæpt fyrir frumsyningu og því hefur kannski verið mikill kraftur í sýningunum síðustu helgi. Svo var náttúrlega mjög leitt að önnur söngkonan var veik og söng ekkert. Það kom ekki að sök í fyrsta söngatriðinu hennar sem var dúett á móti Bjarna Thor og hún talaði bara sinn texta. En svo komu nokkur samsöngsatriði þar sem hún þagði bara og það var stundum mjög skrítið því textinn hennar birtist á textavélinni. Og svo vantaði greinilega inní tónlistina á nokkrum stöðum. Eftir á að hyggja voru nokkrir staðir í sýningunni með ansi langri þögn þar sem ekkert var að gerast og ég veit ekki hvort hún átti að vera að syngja um leið eða hvað var í gangi.
Svona lagað getur alltaf komið fyrir og ýmsum kann að þykja ég ansi harður en maður er að borga vel yfir fjögur þúsund krónur fyrir miðann, sem var samt á afslætti því við fórum ansi mörg úr Fílharmóníunni, og þá á maður erfiðara með að fyrirgefa svona hluti. Þetta hefur tæplega komið mjög skyndilega upp á. Var ekki hægt að fá einhverja úr kórnum til að syngja hlut hennar eftir nótum frá hliðarlínunni? Nóg er til af fínum sóprönum í kórnum.
En það sem gerði sýninguna þess virði að sjá var þessi stórkostlega sópransöngkona sem söng Konstönsu. Þvílíkt og annað eins!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Það dettur aldrei neinum í hug að þeir sem eru í kórnum geti neitt.
kv. Elma
Hrafnhildur sendi bréf og kvartaði og fékk mjög skjót svör þar sem okkur voru boðnir 2 frímiðar eða endurgreiðsla. Við erum ánægð með það.
Skrifa ummæli