föstudagur, september 30, 2005

Ég fékk lánaðan steinbor frá kirkjugarðinum til að geta sett upp króka í loftið hjá okkur fyrir loftljós. Ég boraði og boraði þegar ég kom heim á miðvikudagskvöldið en það gekk alveg bölvanlega og ég var alveg að drepast í höndunum, mjólkursýrurnar alveg að drepa mig. Eftir ca. tuttugu mínútur þegar ég var að bora á þriðja staðnum kom ein kona með smábarn og bað okkur að hætta þessu því þau bjuggu beint fyrir ofan okkur og voru með nokkur börn. Klukkan var þá bara hálf níu og ég held að maður megi hafa svona hávaða fram til klukkan tíu. Það er reyndar ógeðslega leiðinlegur hávaða frá svona steinbor. Ég var farinn að nota eyrnatappa. Ég ákvað alla vega að halda áfram í morgun og þá komu heldur engar kvartanir en ég tók líka eftir einum takka með ör á og prufaði að ýta honum inn og viti menn.... það gekk svona líka miklu betur. Ég hafði sem sagt verið að bora í vitlausa átt um daginn. Ég er reyndar alveg hissa hvað ég gat borað langt þá.

fimmtudagur, september 29, 2005

Við fengum þennan líka fína barnavagn í morgun frá vinnufélaga Hrafnhildar. Ég sótti hann á skrifstofuna hennar og keyrði með hann út í bíl. Voða stoltur. En það voru ansi margir sem gengu á móti mér og horfðu ofan í vagninn og urðu frekar hissa að sjá ekkert barn í honum. Svo fæ ég lánaðan barnabílstól frá samstarfskonu minni því barnabarn hennar er orðið 8 mánaða og vaxið upp úr honum. Það bíður nefnilega eftir okkur einn stóll á Íslandi og því væri asnalegt að kaupa annan hérna úti í Svíþjóð bara fyrir nokkrar vikur.

miðvikudagur, september 28, 2005

Ég vann á föstudaginn og kom aftur að vinna í dag og hef því ekki komist á netið síðan þá og þegar ég skoða fréttirnar frá Íslandi get ég ekki sagt neitt annað en: Ja hérna! Þetta er nú meiri sápuóperan. Nú hljóta höfundar Skaupsins að hoppa hæð sína.

Hrafnhildur átti afmæli á mánudaginn og við fórum út að borða á sunnudagskvöldið í bæ sem heitir Trosa (Nærbuxa í íslenskri þýðingu) og það var mjög huggulegt nema hvað við fundum ekki staðinn sem Hrafnhildur vildi fara á en við völdum annan huggulegan en maturinn var bara ekkert sérstakur. Við erum dálítið óheppin að þessu leyti því þegar við héldum upp á brúðkaupsafmælið um daginn fórum við til Uppsala og urðum líka fyrir vonbrigðum með matinn þar. Báðir veitingastaðirnir liggja reyndar við á þannig að það gæti kannski verið ástæðan. En afmælisbarnið spurði hvort það væri til óáfengt vín en það reyndist ekki vera þannig að ég keypti rautt og hvítt áfengislaust á mánudaginn sem við gætum drukkið með matnum heima um kvöldið. Rauða vínið var alveg ferlega vont! Alveg ótrúlega óspennandi og var því hellt niður eftir bara einn sopa. Hvíta reyndist vera freyðivín og það kitlar Hrafnhildi í tunguna þannig að þetta var allt saman ferlega misheppnað. En kjúklingurinn var góður og svo steikti ég pönnukökur og þær bregðast aldrei.

Upptökurnar um helgina gengu mjög vel og við náðum að taka upp bæði verkin og vorum búin korter yfir fimm á sunnudaginn en áttum að vera búin kl. fimm. Það sem mér þótti skrítið var að við mættum klukkan þrjú á laugardaginn en byrjuðum ekki að taka upp fyrr en hálf átta því að tæknimaðurinn var upptekinn á tónleikum. Annars voru allir þarna, meira að segja upptökustjórinn. Var virkilega ekki hægt að redda öðrum tæknimanni? En þetta var voða gaman og ég er spenntur að heyra diskinn. Eftir tvær vikur verður það Dixit Dominus eftir Händel með barrokkhljómsveit og eftir æfinguna í gær er ljóst að þetta verða þrusutónleikar.

Fyrir þá sem misstu af því um daginn þá erum við búin að fá nýtt símanúmer: 0046 8550 18299

föstudagur, september 23, 2005

Þetta er ekki einleikið

Nú virkar síminn......... en ekki netið....!!!!!!???????
Netið er sem sagt ennþá á gamla símanúmerinu og það tekur allt að 10 virka daga að tengja það á nýja númerið. Þ.e. tvær vikur í viðbót. Maður hefði haldið að það væri einfaldara og öruggara að hafa bæði símann og internetið hjá sama fyrirtækinu, þ.e. Telia, en nei....
Ég hringdi áðan og talaði við sex mismunandi manneskjur og þurfti alltaf að útskýra allt frá byrjun og þegar átti að senda mig til sjöunda starfsmanninn þá slitnaði samtalið og ég settist niður og skrifaði kvörtunarbréf. Ég er orðinn ansi fær í því. Ég sé alveg fyrir mér að ég verð gamall kall með fullt af köttum sem rífst í símann og skrifa skammarbréf hingað og þangað.

Svo er skrifstofukonan í vinnunni hjá mér búin að segja upp störfum því hún fékk annað 50% starf sem er ekki eins langt frá heimilinu hennar. Ég samgleðst henni og verð að viðurkenna að þetta er líka miklu betra fyrir okkur hin því hún sinnir sínu starfi alls ekki nógu vel og mörg okkar höfum tekið að okkur ýmis verkefni sem hún á að sinna. Hún mun hins vegar ekki hætta fyrr en í byrjun desember þannig að ég mun ekki njóta góðs af nýjum starfskrafti.

Nú um helgina verða þriðju upptökurnar í ár með Mikaeli. Það á að taka upp Misa Criola og aðra mjög skemmtilega Mångfaldighets mässa eftir suður amerískan Svía sem heitir Pontivik. Hann var með okkur á þriðjudaginn með hörku band, bæði svíar og spænskumælandi músikantar, sem er voða flínkir en það var dálitið skondið að sjá þá vinna saman með kórstjóranum sem er mjög nákvæmur og þeir lesa engar nótur og eiga erfitt með að skilja þegar hann reynir að slá þá inn. Kórstjórinn var óvenju óöruggur með sig og fór að kvæsa á okkur í kórnum og verða óvenju smámunasamur. Málið með svona tónlist er að hún þarf að vera mátulega kærulaus. Svo fór hann að spurja bandið hversu marga takta millispilið ætti að vera og þeir svöruðu að það ætti að vera impróvisasjón. "Nákvæmlega hversu margir tóna spilar panflautan þar?" spurði hann þá. Bandið ranghvolfdi augunum.

þriðjudagur, september 20, 2005

Ég og sóknarpresturinn settum saman auglýsingu fyrir stöðuna mína á föstudaginn sem við sendum inn á föstudaginn. Hún á ekki að birtast í organistablaðinu fyrr en eftir 3 vikur en ég sagði að það væri mikilvægt að hún birtist á heimasíðunni líka og viti menn, það hringdi einn organistinn í mig í dag og spurði um stöðuna og ég samkjaftaði ekki í korter og mælti eindregið með henni. En svo eftir að við höfðum talað sama heillengi þá kom í ljós að hann var ekkert að sækjast eftir stöðunni heldur var þetta bara einhver orgelprófessor sem vildi vita afhverju ég væri að hætta. Hann hafði áhyggjur af kirkjunni þar sem þetta er þriðja árið í röð sem staðan er auglýst. Gat hann ekki sagt það í byrjun samtalsins?

mánudagur, september 19, 2005

Nú er skólinn byrjaður í alvöru. Við erum 7 í bekknum, þar af 3 útlendingar. Nei annars. Einn Svíinn dró sig reyndar úr í dag þannig að helmingurinn er útlendingar, þ.e. fyrir utan mig er ein lettnesk sem var orgelkennari við tónlistaháskólann í Riga, einn þýskur sellisti, og eins og alltaf næ ég góðu sambandi við þjóðverjana. Svo er Kalle sem er með mér í kórnum og hann er ágætur en svo eru tvær konur aðeins eldri en ég, önnur er kantor og hin veit ég ekki hvað er en hún er ekkert sérstaklega klár. Mér sýnist ég kunna ansi mikið miðað við hin sem er voða gaman og gott fyrir egóið en ég verð að passa mig að ég fari ekki að slaka á. Það sem við höfum lært hingað til er mest upprifjun og prófessorinn virðist hafa áhyggjur af að þetta sé ekki nógu krefjandi fyrir mig. En við stjórnuðum nemendakórnum í dag og hann gat bent mér á ýmislegt sem mátti betur fara.

Þjóðverjinn er líka í stjórnendanámi í Örebro. Mér var sent bréf um þetta nám í vor en ákvað að sækja ekki um þar sem ég nennti ekki að flytja þangað og fannst of mikið mál að fara með lestinni nokkrum sinnum í viku. En hann sagði að þó svo þetta sé 100% nám þá er maður bara þarna einn til tvo daga í viku og fær oft að stjórna alvöru hljómsveitum. Þannig að núna sé ég mjög eftir að hafa ekki sótt um þetta nám. Þá hefðum við reyndar ekki flutt heim fyrr en næsta sumar.

Í dag vorum við í kúrs um gregorssöng, þetta er í þriðja skiptið sem ég fer í gegnum svona kúrs og held maður sé ágætlega að sér í þessum efnum núna þó svo ég geri ekki ráð fyrir að ég eigi eftir að fást mikið við gregorssöng í framtíðinni. Það er orðið þannig að mér finnst betra glósa á sænsku en á íslensku og í raun er ég feginn að við skulum ætla að flytja heim því mér finnst ég vera að tapa smá íslenskunni.

sunnudagur, september 18, 2005

Andinn kom allt í einu yfir mig á föstudagskvöldið og ég fór að semja kórverk og hætti ekki fyrr en klukkan hálf tvö um nóttina. Þetta er reyndar verk sem ég ætlaði að semja fyrir tveimur árum en þá strandaði ég á einum kafla sem ég vissi ekki hvernig ég gæti gert. En við erum að æfa Dixit Dominus eftir Handel í Mikaeli kammerkórnum og þegar við sungum einn kaflann á þriðjudaginn var þá sá ég hvernig ég gæti gert þetta. Þannig að ég byrjaði bara að semja eftir kvöldmat á föstudaginn og þorði ekki að hætta fyrst maður var í stuði. Erfiðast finnt mér eiginlega að koma textanum að. Þetta er sem sagt biblíutexti sem er ansi óreglulegur. Svo er hægt að pæla í einum takti lengi lengi og þá getur maður misst heildarsýnina. Ég er sem sagt búinn að gera beinagrindina og á bara eftir að fínpússa sem ég vonast til að hafa tíma til seinna í vikunni.

Í gær fórum við í IKEA að kaupa nokkra lampa og kíkja á barnadót- og húsgögn en við ákváðum að reyna að kaupa það frekar notað á netinu. Svo komu nokkrar konur frá Nynäshamn í mat og Skrámur naut sín þvílíkt og prófaði að kúra hjá þeim öllum.

miðvikudagur, september 14, 2005

Nöldur!

Ef þið heyrið fréttir um mann sem gekk berserksgang í Svíþjóð og hrópaði níðyrði um símafyrirtæki þá gæti það verið ég. Þetta bévítans hálfvita fyrirtæki sem við höfum verið með símaáskriftina hjá hefur ekkert komið til móts við okkur þó svo við höfum verið 6 vikur án síma og þurfum þrátt fyrir það að borga mánaðaráskrift fyrir þessar vikur. Þau vildu ekki sleppa okkur undan bindningstímanum sem rennur ekki út fyrr en eftir eitt og hálft ár þrátt fyrir að þeir viðurkenna að það var frekar erfitt að heyra símasölumanninn taka fram að það væri 24 mán. bindningstíma (eða hvað heitir það aftur á íslensku) þegar við hlustuðum á upptökuna þegar ég átti að hafa samþykkt þetta. Ingibjörg er svo elskuleg því hún ætlar að taka yfir áskriftina en samt þurfum við að borga ca. 200 sænskar fyrir að flytja það yfir til hennar (why???) og við þurfum að borga mánaðaráskriftina fram í október því þeir voru búnir að senda reikninginn út og vildu ekki afturkalla hann. Við sendum pappírana inn fyrir tveimur vikum og þeir gera ekkert í því fyrr en núna á föstudaginn og þá hefur Ingibjörg verið símalaus í eina og hálfa viku því hún sagði upp gömlu áskriftinni 4. sept. Og þó svo við höfum talað við þá fjórum sinnum þá voru þeir ekki búnir að átta sig á því að hún bjó á öðrum stað og sögðu að fyrst þyrfti að panta flutning og svo gæti maður flutt yfir samninginn.
Netið virkaði náttúrlega ekki þegar við vorum símalaus og komst ekki í gang fyrr en tæpum tveimur vikum eftir að síminn var tengdur. Það virkaði vel í nokkra daga en svo fóru hin og þessi windows prógröm að haga sér skringilega (komumst t.a.m. ekki á msn) og það var ekki í fyrsta skipti sem það gerist hjá okkur (ohhh hvað ég sakna Makkans). Eftir að hafa leitað í nokkra klukkutíma fann ég loksins grein á netinu hvernig átti að laga þetta prógram. Svo hætti netið að virka á miðvikudaginn var og við hringdum í Telia sem sagði að það tæki 3 virka daga að senda mann til að tékka á þessu en þegar Habbidu hringdi í gær þá hafði gleymst að senda beiðni. En sem betur fer gat mín manneskja reddað þessu því snúran sat ekki almennilega í símaúttakinu.
Nú virkar netið en við erum hins vegar símalaus þar sem kúkalabbafyrirtækið aftengdi síman okkar í morgun þó svo hann verði ekki tengdur til Ingibjargar fyrr en á föstudaginn. Ég hringdi í Telia til að panta nýjan síma og það kostar tæplega 10 þús íslenskar..... nei takk!!!! Þannig að ég valdi breiðbandssíma sem kostar miklu minna að tengja en verður ekki kominn í gagnið fyrr en við fáum eitthvað tæki sem kemur vonandi á mánudaginn! En við fáum líka nýtt símanúmer sem er 00468 550 18299. Og nú gekk ég kyrfilega úr skugga um að við erum ekki bundin þar of lengi. Það er að vísu 3 mánuðir en það passar ágætlega.
Í morgun fór ég í líkamsrækt og fékk að vita að jú, ég gæti notað kortið mitt frá Haninge þangað til það rennur út í október en þá verð ég að borga 70 sænskar í hvert skipti sem ég kem því fyrir sundlaugina því maður notar sömu búningsklefa og gengur fram hjá lauginni til að fara í ræktina.
Og svo keyrði ég í vinnuna og það var frekar lítið bensín eftir en ég náði á bensínsstöðina en hafði þá gleymt veskinu heima. Fékk lánað 300 sænskar frá vinnufélaga en sjálfsalinn gleypti peningana án þess að ég fékk neitt bensín.
GAAAAAAAARRRRRRRGGGGGHHHHHHHWWWWWWWW. Best að ná í byssuna.
Ég hringdi í neytendasímann og fæ peningana endurgreidda síðar. Þá er bara að herja á fleiri vinnufélaga til að slá lán í einn dag.
Svo þurfti ég að rífast við einn leiðinda djasspíanista sem sendi reikning út af sumartónleikaröðinni og hann var dálítið hærri en við höfðum talað um. En í þetta skipti vann ég.

fimmtudagur, september 08, 2005

Ég er á lífi

Það er búið að vera svo mikið um að vera undanfarið. Það eru nótur út um allt. Ég er að velja tónlist fyrir kirkjukórinn, unglingakórinn, vokalensemblið mitt, velja sólósöngva fyrir allar messurnar, það eru tónleikar með sópransöngkonu eftir tæpan mánuð og það eru ansi margir erfiðir söngvar þar auk þess sem ég og Ingibjörg ætlum að spila saman nokkur lög eftir Mahler og svo er ég að skoða verk fyrir Fílharmóníuna. Ég held ég sé búinn að finna tvö fín verk, annað eftir Haydn og hitt Mozart, því hann á 250 ára afmæli á næsta ári.

Til hamingju Bjartur og Jóhanna með litla strákinn og einnig Íris og Pétur sem eignuðust einnig strák um daginn. Fyrir vikið finnst mér auknar líkur á því að við fáum stelpu. Nú er mánuður þangað til Indra á að eiga og Krulli stækkar óðum því í gær fann ég greinilega fyrir útlim þegar ég setti höndina á maga Hrafnhildar.

Ég byrjaði í skólanum í síðustu viku og þá kom í ljós að stundataflan lítur allt öðruvísi út en ég bjóst við. Þetta verður fyrst og fremst á mánudögum í stað fimmtudaga sem þýðir að ég þarf að vera á þessum blessuðu starfsmannafundum hér sem geta verið svo óeffektívir og gert mig svo pirraðan. En skólinn byrjaði ekkert allt of vel því prófessorinn var ekki mættur fyrsta daginn því hann var með Radíókórinn í útlöndum og því sá einhver kona um okkur sem vissi ekki neitt. Hún var að sýna okkur bygginguna en ég sem var bara þarna í annað skiptið rataði betur heldur en hún. Svo þegar við mættum á mánudaginn þá var prófessorinn heldur ekki mættur því hann var með syni sínum á spítala og kom ekki fyrr en kl. fjögur í stað tíu um morguninn. Sem þýddi að við þurftum að hanga þarna í fimm klukkutíma. Það var reyndar mjög fínt veður og ég sat voða lengi á bryggju við ána innan um hina stúdentana og las, hlustaði á ipodinn og leysti Sudoko gátur. Svo þegar við hittum prófessorinn sýndist mér hann hafa dálitlar áhyggjur af mér upp á það að þetta yrði ekki nógu avanserað fyrir mig. Ég ætla bara að reyna að fá það mesta út úr honum en það var mjög gaman að því að eitt af verkunum sem við eigum að kljást við í vetur er einmitt verkið eftir Mozart sem ég var að pæla í fyrir Fílharmóníuna.