fimmtudagur, nóvember 20, 2008
Styrktartónleikar
Fram koma Flensborgarkórinn, Kór Flensborgarskólans, Hljómeyki, Söngsveitin Fílharmónía, Kór Öldutúnsskóla, Kvennakór Öldutúnsskóla og Karlakórinn Þrestir.
Miðaverð: 2000 kr.
Forsala miða í Súfistanum Hafnarfirði og Súfistanum Reykjavík (IÐU-húsinu)
Ef fólk kemst ekki á tónleikana er því velkomið að leggja inn á söfnunarreikninginn
Rn 1158-26-1084
Kt.271084-2509
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
föstudagur, nóvember 14, 2008
JÓNSKVÖLD í Iðnó
Ótrúlegt en satt; flutt verða sjö lög eftir hann sem aldrei hafa heyrst opinberlega og að auki nokkur af hans ógleymanlegu lögum og útsetningum. Einnig gefst tónleikagestum færi á að taka undir í frábærum keðjusöngvum hans. Á efnisskrá eru útsetningar og kórlög eftir Jón Ásgeirsson,
m.a. verða frumflutt 3 lög hans við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur.
Heiðursgestir verða Jón Ásgeirsson og Vilborg Dagbjartsdóttir.
Aðgangseyrir kr. 1.500, stúdentar við Háskóla Íslands: kr. 500.-
Kaffihúsastemning við kertaljós og kórsöng!
Flytjendur:
Kvennakór við Háskóla Íslands, stjórnandi Margrét Bóasdóttir, Píanó Sólveig Anna Jónsdóttir.
Hljómeyki, stjórnandi Magnús Ragnarsson.
mánudagur, nóvember 03, 2008
Mikið er nú gott að þessi helgi sé liðin
Mesta stressið var í kringum orgeltónleikana. Þó svo ég hafi leikið á orgel á ýmsum tónleikum undanfarin misseri þá hef ég ekki haldið heila orgeltónleika frá því ég starfaði í Nynäshamn. Svo er það böl organistans að maður getur ekki æft sig hvenær sem er á það hljóðfæri sem maður ætlar að leika á. En tónleikarnir gengu vel. Ég varð dálítið kaldur í höndunum í fyrstu verkunum og gerði nokkur mistök sem ég var alls ekki vanur að gera. Það hefur verið stressið. En svo hitnaði ég í þriðja verkinu. Aðsóknin var þokkaleg miðað við orgeltónleika, ca. 20-30 manns og þeir virtust frekar ánægðir.
Á laugardagskvöldið var mjög huggulegt matarkvöld Fílunnar, í gærmorgun var guðsþjónusta á Hrafnistu og svo fluttum við Requiem eftir Fauré í messu í Langholtskirkju. Ég hef haft þessa hugmynd í kollinum frá því ég bjó í Gautaborg og upplifði svona messu í Örgryte nya kyrka. Þetta heppnaðist mjög vel, tók um 70 mínútur og féll í mjög góðan jarðveg frá þeim sem ég heyrði. Kórinn hljómaði líka alveg ótrúlega vel. Rosalega þéttur og flottur hljómur. Svo höfðum við 20 mínútur til að bruna upp í Fossvog og flytja verkið aftur þar en slepptum að vísu 2. og 3. kaflanum því við höfðum ekki færi á að æfa þetta með orgelinu þar, auk þess sem kórinn stóð niðri á gólfi en Steini hetja spilaði uppi á orgellofti.
Í kvöld byrjar Hljómeyki að æfa Dixit dominus og fleiri verk eftir Händel og Kór Áskirkju undirbýr útgáfutónleika jóladiskins sem kemur vonandi út fyrir aðventuna... ef Guð lofar!
þriðjudagur, október 28, 2008
Fleiri tónleikar
Á sunnudaginn kl. 14.00 flytur Kór Áskirkju Requiem eftir Gabriel Fauré í Langholtskirkju undir minni stjórn. Einsöngvarar eru Elma Atladóttir og Skúli Hakim Mechiat og Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel. Séra Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ásprestakalli prédikar og þjónar fyrir altari við messuna ásamt Margréti Svarsdóttur djákna Áskirkju.
Til stóð að flytja messuna í Áskirkju á hefðbundnum messutíma, en vegna undirbúnings að uppsetningu steinds kórglugga í kirkjunni sem nú stendur yfir, var ákveðið að leita húsaskjóls hjá grannsöfnuðinum í Langholtskirkju.
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir til þessarrar messu Ássafnaðar í Langholtskirkju á sunnudaginn kemur.
fimmtudagur, október 23, 2008
BURT MEÐ ÞÁ!
Eftir viðtal Kastljóssins við Geir Haarde er ég á því að forsætisráðherra eigi líka að víkja. Ég hef sjaldan orðið vitni að þvílíkum aumingjaskap! Ég hef enga trú á þessum manni lengur!
Ég er þar að auki búinn að missa ALLA trú á Sjálfstæðisflokknum. Ég hef ekki kosið hann í áratug og mun ALDREI aftur eyða atkvæði mínu á þann flokk. Hann er búinn að klúðra málunum illilega hér í borginni og nú ber hann ábyrgð á gjaldþroti Íslands. Hann hefur haft forsætis- og fjármálaráðuneytið í 17 ár, hann lagði niður Þjóðhagsstofnun og hann afhenti útvöldum vinum bankana á silfurfati og það hefur nota bene aldrei verið rannsakað.
Mætum öll á Austurvöll á laugardaginn með kröfuspjöld!
Hryðjuverkamenn
Hér fjallar BBC um þetta.
laugardagur, október 18, 2008
Aðrir tónleikar vetrarins
Klezmertónleikarnir með Fílharmóníunni og Gröndal systkinunum ásamt hljómsveit gengu alveg stórkostlega vel. Það var rosa góð stemning og nánast full kirkja í bæði skiptin. Ég man varla eftir öðrum eins viðbrögðum eins og á miðvikudaginn.
Hlómeyki verður með mjög flotta tónleika næstkomandi laugardag kl. 12 í Hásölum í Hafnarfirði, þ.e. salurinn á milli Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólans. Við ætlum að frumflytja fjögur verk
- Utan hringsins eftir Þóru Marteinsdóttur
- Bakkabræður eftir Hildigunni Rúnarsdóttur
- Smiðurinn og bakarinn eftir Ríkarð Örn Pálsson
- These few words eftir Önnu Þorvalds
Ég hvet alla til að mæta. Miðaverð 1000 kr.
mánudagur, október 06, 2008
Klezmertónleikar
Tónleikar með Söngsveitinni Fílharmóníu, Ragnheiði Gröndal og Hauki Gröndal
Sunnudaginn 12. október og miðvikudaginn 15. október nk. heldur Söngsveitin Fílharmónía tónleika þar sem kórinn flytur klezmertónlist, þjóðlagatónlist Gyðinga frá Austur-Evrópu, ásamt systkinunum Ragnheiði og Hauki Gröndal og þjóðlagasveit hans. Magnús Ragnarsson er stjórnandi tónleikanna. Þau systkin Haukur og Ragnheiður hafa átt mikinn þátt í að vekja athygli á þessari litríku og fjörugu tónlist hér á landi, þar sem saman blandast stef úr trúarlegri tónlist gyðinga við dans- og þjóðlagatónlist Evrópu og Miðausturlanda, ekki síst grískri og tyrkneskri alþyðutónlist.
Haukur Gröndal stofnaði íslensk-dönsku klezmer hljómsveitina Schpilkas, sem hefur gefið út tvær hljómplötur, en Ragnheiður söng með hljómsveitinni.
Ragnheiði Gröndal þarf ekki að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum. Hún hefur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna og gefið út fjórar sólóplötur sem allar hafa náð miklum vinsældum og sungið með ýmsum hljómsveitum auk Schpilkas.
Tónleikarnir á sunnudeginum er klukkan 17 en klukkan 20 á miðvikudeginum, í Neskirkju (við Hagatorg). Miðar fást hjá kórfélögum, í versluninni 12 Tónum og við innganginn.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara tónlistar má heyra Hauk Gröndal hér í skemmtilegri klezmer sveiflu, hér má sjá smá videósýnishorn af annarri hljómsveit.
þriðjudagur, september 16, 2008
YEEEEEEEEEEEESSSSSSSSSSSSSSS!
laugardagur, september 13, 2008
fimmtudagur, september 04, 2008
Enn ein sagan af Ísak
Ísak: Ég fékk tvo límmiða í gær. Það er bara nokkuð gott.
Ég: Viltu pissa í klósettið núna og fá fleiri límmiða?
Ísak: Nei, nei. Þetta er orðið gott!
miðvikudagur, september 03, 2008
Fyrsta æfing var í kvöld og hljómurinn var mjög góður. Nú verður hamrað á góðum mætingum og kórmeðlimum gert grein fyrir því að ef þeir standa sig ekki þá er af nógu góðu fólki til að taka inn i kórinn.
föstudagur, ágúst 29, 2008
miðvikudagur, ágúst 20, 2008
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn plummar sig vel. Hann hefur hlotið nafnið Mahler og ber nafn með rentu enda malar hann um leið og maður nálgast hann. Honum og Ísak semur vel að því leyti að sonur minn má gera hvað sem er við hann og kötturinn mótmælir ekki. Ísak vill helst þramma um alla íbúðina haldandi á kettlingnum eins og sést á myndinni og við erum alveg gáttuð á því að sá síðarnefndi láti bjóða sér þetta. Ísak er svona fantagóður við "litla barnið sitt", heldur þéttingsfast utan um hálsinn á honum og strýkur þannig að feldurinn fer næstum af honum.
Það koma ennþá gullkorn frá þeim tveggja ára. Í morgun var hann að tala um Súpermann af einhverjum ástæðum og ég spurði hvað hann gerði. Ísak svaraði: "Býr til súpu!"