sunnudagur, maí 06, 2007

Þá eru þessir langþráðu Hljómeykistónleikar búnir. Vonandi getum við endurtekið þá. Þetta var alveg æðislegt!!! Þvílíkt kikk! Heppnaðist best í dag. Kórinn var alveg æðislegur og hljóðfæraleikararnir spiluðu æðislega vel, sérstaklega Sigurður Halldórsson á selló.
Ísak mætti á tónleikana og sumir létu það fara í taugarnar á sér. Mér fannst hann hins vegar algjört æði, sérstaklega þegar hann sagði "vá!" eftir eitt sóló hjá Sverri Guðjóns. Hann klappaði á milli þátta og sagði í byrjun "Babba lalala og sveiflaði höndunum". Hvernig er hægt að láta svona fara í taugarnar á sér?

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jamm, þetta tókst fínt. Nú þarf bara að hjóla í framhaldið. Best að vera nú samt ekkert að opinbera plönin alveg strax.

En með strákinn, sko, það er auðvitað mjög skiljanlegt að ykkur þyki bara gaman að heyra hann segja: Pabbi stjórna, og að hann hafi gaman af þessu, en aðrir eru náttúrlega kannski ekki alveg eins upprifnir. Það er svo mikið af áhrifamiklum þögnum í Óttusöngvunum, maður vill helst ekki heyra saumnál detta, þannig að glatt barn er kannski ekkert mikið betra en grátandi, truflunin er sú sama. Það minntust nærri allir á þetta við mig...

Nafnlaus sagði...

Þetta finnst mér vera snobb! Eru þetta skilaboðin sem kórinn vill senda frá sér, að þið viljið velja ykkur áheyrendur!? Eru semsagt ekki allir velkomnir á tónleika hjá ykkur? Hvað með manneskjur sem ráða ekki við sig öllum stundum, tourette, þroskaheftir, spastískir... Hvað ef einhver fær spassmakast í miðri áhrifamikilli þögn í óttusöngvunum. Er hann þá ekki velkominn aftur? Ég held að flytjendur þurfi aðeins að hugsa sinn gang varðandi hvaða skilaboð þið viljið senda.
Ps. Greinilegt að þú átt ekki barn Hildigunnur ef þér finnst "glatt barn ekkert mikið betra en grátandi."

Maggi sagði...

Ég veit nú reyndar að Hildigunnur á börn og elskar þau mjög mikið, öll þrjú. En ég er alveg sammála að þetta virkar eins og snobb. Þetta er eins og að fara áratugi aftur í tímann þegar fólk var að kvarta yfir að tónleikagestir voru ekki almennilega klæddir.

Nafnlaus sagði...

jiii....mér fannst Ísak alveg ferlega mikið krútt á tónleikunum. Og það er aldrei þörf á því að vera dónalegur hvort sem að eitthvað fari í taugarnar á manni eða ekki.

kv
Þóra Marteins

Nafnlaus sagði...

Hjalti og Vala, kærar þakkir.

Ég er algerlega ósammála því að þetta sé snobb. Og ekki dettur mér í hug að ásaka barnið, eins og ég sagði var drengurinn sjálfur yndislegur. En þetta truflaði ánægjuna hjá mér og hjá ansi mörgum sem ég þekki. Þetta truflaði mig ekkert svo mikið að ég hætti að einbeita mér að flutningnum, eins og Maggi segir í færslunni fyrir ofan verður maður að geta haldið áfram. En ánægjuna, jú, svolítið.

Það mega allir koma á tónleika hjá okkur, mikil lifandis ósköp. Hvernig klæddir sem er, ef það er málið. En það er ástæða fyrir þögnum í tónlist, oft eru þær jafnmikilvægar og tónarnir. Mér datt aldrei nokkurn tímann í hug að koma með börnin mín svona lítil á tónleika, nema ef um var að ræða skólatónleika í Suzukiskólanum, þar sem búist er við litlum börnum. Það er ekkert hægt að venja lítil börn við að haga sér á tónleikum fyrr en maður getur rökrætt við þau.

Ég sagði ekki að glatt barn væri ekki mikið betra en grátandi, það myndi mér ekki detta í hug. En einbeiting fólks getur vel farið veg allrar veraldar með hvorutveggja. Það eru langt því frá allir sem geta leitt svona hjá sér. Og það þarf líka að hugsa um þá.

Tourette, spasmakast, hitt og þetta annað er hlutur sem fólk ræður ekki við, það getur alltaf komið eitthvað upp á. Svona lítil börn eiga bara ekki erindi inn á viðkvæma tónleika þar sem þau hafa engan veginn vit á því að aðrir vilji einbeita sér að hlusta. Hallveig kom einu sinni með sína stelpu svona litla á tónleika, einmitt vegna þess að hún fékk enga pössun, settist yst í sæti næst dyrunum, tilbúin til að hlaupa út við fyrsta múkk.

Ég er sammála því að það var ekki endilega viðeigandi að tala um þetta strax eftir tónleikana (enda gerði ég það ekki).

Og snobb finnst mér að velja sér áheyrendur með miðaverði. (og já, það tíðkast). Börn fá alltaf ókeypis inn á Hljómeykistónleika þannig að mér þykir þetta verulega óréttlát ásökun.

En við megum ekki láta þetta skemma okkar góða samstarf... :-)

Maggi sagði...

Ég er aðallega svo hissa að þetta skyldi fara í taugarnar á einhverjum. Ég er viss um að Hrafnhildur hefði farið með hann fyrr fram ef hana hefði grunað að einhverjir væru svona pirraðir en hvorki henni né mér datt í hug að þetta væri það truflandi, þetta var svo pent að okkar mati og ansi margra sem við töluðum við. En við tökum hann að sjálfsögðu ekki með á tónleika í framtíðinni þar sem við vitum að þeir sem kvörtuðu undan honum koma til með að vera. En ég tek hann pottþétt með á tónleika mína og Ingibjargar í sumar þannig að ef einhver á það á hættu að láta örfáar athugasemdir frá svona barni fara í taugarnar á sér þá er betra að sleppa þeim tónleikum.
.... og þú, Hildigunnur, hefur að sjálfsögðu aldrei verið dónaleg. Það er ekki í þínu eðli. Það sáu aðrir um það.

Nafnlaus sagði...

Mér skilst einmitt að Hrafnhildur hafi farið út a.m.k. tvisvar. Ég bara skil ekki hvernig hægt er að láta smá hjal og komment frá eins og hálfs árs barni fara í taugarnar á sér og eyðileggja ánægjuna, sama hvað þagnirnar eiga að vera áhrifamiklar. Ég bara skil það ekki. Það er jafnvel örlítið sorglegt. Þetta voru nú einu sinni ánægjuhljóð frá Ísak, hann var greinilega bara að njóta tónlistarinnar.

Ég er ósammála því að ekki sé hægt að venja börn á að fara á tónleika fyrr en hægt sé að rökræða við þau. Mér skilst að það sé beinlínis hvatt til þess að gera það sem fyrst. Ég fór á mína fyrstu tónleika 6 eða 7 mánaða og finnst gott að vita foreldrar mínir hafi viljað að ég væri viðstaddur þeirra ánægjustundir við tónlistarflutning.

Mér finnst það einmitt líka lýsa mikilli löngun og virðingu við flytjendur að koma á tónleikana með börnin sín. Þar er töluvert á sig lagt.

Klassísk tónlist hefur einmitt mjög góð og djúpstæð áhrif á börn, það er margsannað og ég mun hiklaust taka Jökul með mér á tónleika í framtíðinni. Ef hann pípir verða aðrir bara að finna smá umburðarlyndi hjá sjálfum sér.

Söngvarar sem hafa ekki einbeitingu til að höndla smá hljóð úr sal eiga kannski bara að vinna í því hjá sér. Á tónleikum með fullt af fólki verður maður bara að gera ráð fyrir smávægilegum truflunum eins og hóstaköstum, stólaharki, barnahljóðum o.fl.

Það er snobb að vilja ekki leyfa hverjum sem er að koma á tónleikana sína.

Nafnlaus sagði...

sjá komment við þessa færslu hjá mér.

Þið sjáið ekki hvernig er hægt að láta svona fara í taugarnar á sér. Sorrí, það eru bara ekki allir alveg eins og þið. Ekki nándar nærri allir, meira að segja. Börnin mín hlusta á tónlist og njóta tónlistar, en ekki þar sem þau eiga á hættu að trufla aðra. Virðing við flytjendur, ertu ekki að grínast í mér???

Mér er eiginlega miklu meira sama um mína eigin ánægju eða einbeitingu uppi á sviði. En ég giska á að það hafi minnst svona 40 manns á þetta við mig, áður en þessi umræða fór í gang. Og minntist sérstaklega á upptökuna.

Hrafnhildur fór út í fyrra skiptið þegar kannski 7-8 mínútur voru eftir af Óttusöngvunum. Kom svo inn aftur, allt í fína, og fór út aftur um leið og heyrðist í drengnum. Sem er mjög gott, eina sem ég hef út á þetta að setja er að ég hefði gjarnan viljað að hún færi fyrr, í fyrra skiptið.

Mér finnst heldur ekki gaman að hlusta á hóstaköst, og verð pirruð ef fólk sem fær óstöðvandi hóstakast fer ekki fram strax, þegar ég er á tónleikum. Gerðist einmitt um daginn á útskriftartónleikum í Listaháskólanum. Upptakan er ónýt.

Allt í lagi, Hjalti, þér má alveg finnast ég vera snobbuð. Það er hins vegar þitt vandamál, ekki mitt. Eins og ég sagði fyrr, ég er ekki sammála, við þurfum að hugsa aðeins lengra okkar eigin eyrum og tilfinningum.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst að þegar fólk er farið að tjá sig svona mikið og heitt í kommentakerfum sé kominn tími á að hittast og tala samam.
Svona tjáskipti leiða sjaldnast til annars en meiri misskilnings og sárinda.
En það er nú bara mín skoðun. jamm og já. Hafiði það gott í dag elskurnar mínar. Kyssi kyss.

Nafnlaus sagði...

jámm, kæra Hrafnhildur. (og takk fyrir síðast). Ekki ber ég kala til ykkar Magga, hvað þá litla kúts. Hann verður örugglega eðaltónleikagestur þegar fram í sækir :-)

Nafnlaus sagði...

Síðast þegar ég sá Hildigunni var hún að syngja í jarðarför og ég að skæla á öðrum bekk. Ég held við höfum aldrei hist en takk samt fyrir það "síðast". Það var fallegasti kórsöngur sem ég hef heyrt.
Ég er btw ekki konan hans Magga. (Sjá mynd)

Nafnlaus sagði...

já, úpps, :) Vona við höfum sungið vel...

Nafnlaus sagði...

(ég er með afbrigðum ómannglögg, en fannst þetta nú samt svolítið skrítin mynd af henni Hrafnhildi...)