Þetta er búinn að vera ansi viðburðarríkur sólarhringur. Ég vaknaði í gærmorgun og leið skringilega í maganum, hélt að þetta væru meltangatruflanir. Fór af stað í vinnuna en leið svo illa í lestinni að ég sneri við og tilkynnti mig veikan. Fór á heilsugæsluna hérna og læknirinn þar sendi mig á sjúkrahúsið til að athuga hvort þetta gæti verið botnlangabólga. Á leiðinni í leigubílnum var ég farinn að gráta af sársauka. Og í móttökunni á bráðamóttökunni lenti ég auðvitað á eftir Tyrkjum sem voru alveg viss um að það væri verið að mismuna þeim og þegar loks kom að mér þá tók afgreiðslukonan sér góðan tíma til að ganga almennilega frá öllum pappírum á meðan ég engdist þarna sundur og saman. Svo þurfti ég að bíða í annan hálftíma og var sagt að ég fengi ekki verkjastillandi fyrr en ég væri búinn að hitta lækninn. Eftir ca. klukkutíma fékk ég þessi líka fínu lyf og leið miklu betur. Eftir nokkar skoðanir voru menn vissir um að ég þurfti að fara í uppskurð.
Ég fór í aðgerðina rétt fyrir miðnætti og hún gekk vel. Dáldið fyndið þegar þeir segjast hafa gefið manni svæfinguna. Ég fann ekki fyrir neinu og man svo ekki neitt fyrr en ég vaknaði á gjörgæslunni. ég man ekki einu sinni eftir að hafa sofnað. Í dag leið mér svo bara ágætlega og starfsfólkið alveg hissa hvað mér fór mikið fram þannig að ég mátti bara fara heim eftir hádegi. Þau sögðu líka að ég væri á týpískum aldri fyrir þetta að gerast. Núna er ég í tveggja vikna leyfi frá vinnunni. Það þykir víst ekkert sniðugt að spila á orgel með svona skurð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli