miðvikudagur, apríl 13, 2005

Þá eru Mamma og Hlö farin. Búið að vera yndislegt að hafa þau. Við erum búin að borða dýrindis lambalæri, hangikjöt og flatkökur, fara á söfn og drekka mikið af bjór. Þau höguðu sér eins og týpískir Íslendingar og töluðu mikið um veðrið: "Er ekki dálítið hlýrra í dag heldur en í gær? Ég er ekki frá því. Nú er dáldið kaldur vindur. Það var eins og um daginn heima. Þá var ansi hlýtt og svo nokkrum dögum síðar kom kuldakast."

Við erum að spá í að flytja nær vinnunni hennar Hrafnhildar og kaupa okkur bíl þannig að ég geti keyrt í vinnuna. Það er nefnilega bara einn strætó sem gengur þarna á milli og hann er ansi lengi á leiðinni, stoppar ca. 30 sinnum og gengur bara nokkrum sinnum á dag.

Ég mætti fyrr en vanalega í dag til að hitta prestana sem sóttu um stöðuna hérna. En þegar ég mætti þá var enginn hér og svo var mér sagt: "Æ, það. Varstu ekki búinn að heyra að það verður ekkert af því núna. Það er ekki fyrr en í næstu viku. Það var talað um þetta hérna á göngunum í fyrradag." Það hafði sem sagt enginn vit á því að láta mig vita þó svo ég sé alltaf í fríi á mánudögum og þriðjudögum. Og svo átti að fjalla um bókunarkerfið á mánaðarfundinum í dag en vegna þess að allir nota ekki þetta blessaða kerfi þá voru bókaðar jarðarfarir á sama tíma þannig að fundurinn var felldur niður. Fyrir mánuði síðan var mér sagt að vera ekki svona óþolinmóður því þetta yrði allt afgreitt á þessum mánaðarfundi 13 apríl. Nú fæ ég ábyggilega að heyra að nú eigi að taka sér góðan tíma og afgreiða þetta eftir einn og hálfan mánuð. Þetta átti upphaflega að vera komið í lag síðastliðinn nóvember.

Engin ummæli: