mánudagur, apríl 30, 2007

Plöggidíplögg

Á tónleikum í Langholtskirkju sunnudaginn 6. maí kl. 17:00 mun Sönghópurinn Hljómeyki flytja ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum Óttusöngva á vori eftir Jón Nordal. Auk þess flytur kórinn tónleikunum fimm 20. aldar kórverk sem mörg hafa aldrei hljómað áður á Íslandi.

Flutt verður Tebe poyem sem er stutt og afar falleg bæn eftir Sergej Rachmaninov. Þá flytur kórinn A Child’s Prayer eftir skoska tónskáldið James Macmillan, en hann samdi verkið til minningar um fórnarlömb skotárásarinnar í Dunblane 1996 þar sem 16 börn og kennarinn þeirra létust. Verkið er samið fyrir tvo sópransólista og kór. Því næst verður
flutt verk eftir bandaríska tónskáldið Gregg Smith og er það mjög sérstök útsetning á gamalli laglínu og er texti verksins úr 23. Davíðssálmi. Í verkinu er kórnum skipt upp í þrjá hópa sem skiptast á að syngja og á tímabili hljóma allt að fjórar tóntegundir í einu. Sænski kórstjórinn Gunnar Eriksson útsetti djasslagið To the Mothers in Brazil fyrir kór og notaðist við Salve regina textann. Verkið er tileinkað fátækum mæðrum í Brasilíu. Kórnum til aðstoðar í þessu verki verður Frank Aarnink, slagverksleikari. Seinasta verkið af þessum fimm verkum er svo eftir eistneska tónskáldið Eduard Tubin, sem lést 1982. Eduard Tubin hefur smátt og smátt hlotið þá viðurkenningu sem hann á skilið, sérstaklega fyrir tilstuðlan hljómsveitarstjórans og samlanda Neeme Järvi. Á tónleikunum verður flutt mjög tilkomumikil Ave Maria eftir hann.

Óttusöngvar á vori eftir Jón Nordal eru seinasta og jafnfram viðamesta verk tónleikanna. Hann samdi tónverkið árið 1993 að beiðni aðstandenda Sumartónleika í Skálholtskirkju og tileinkaði Skálholtsdómskirkju. Verkið skiptist í fjóra kafla. Þrír hinir fyrstu eru hefðbundnir messuþættir, þ.e. Kyrie, Sanctus og Agnus Dei, en fjórði kaflinn er saminn við Sólhjartarljóð eftir Matthías Johannessen. Matthías samdi Sólhjartarljóð í tilefni af því að þúsund ár voru síðan kristni var fyrst boðuð í landinu og í kvæðinu vitnar hann beint til Sólarljóða.

Auk Hljómeykis koma fram söngvararnir Hallveig Rúnarsdóttir og Sverrir Guðjónsson, Sigurður Halldórsson sellisti, Frank Aarnink slagverksleikari og Lenka Mátéova organisti. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson. Miðaverð 1500 / 500 kr.

Engin ummæli: