þriðjudagur, apríl 03, 2007

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um tónleikana

Himnesk gleði


Söngsveitin Fílharmónía hélt vortónleika sína á sunnudagskvöldið og endurtekur þá í kvöld kl. 20. Þar syngur sveitin undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar tvö stutt verk, "Richte mich, Gott" eftir Mendelssohn og "Warum ist das Licht gegeben dem Mühseligen" eftir Brahms en endar svo á hinni miklu Messu í As dúr eftir Schubert.

Tónverkið "Richte mich, Gott" eða Lát mig ná rétti mínum, Guð eftir Felix Mendelssohn-Bartholdy er mótetta við 43. Davíðssálm, skemmtilega skrifuð fyrir blandaðan kór þannig að karlar og konur skiptast á að syngja uns þau sameinast í lokin í heitu bænarákalli. Það er falleg og áhrifamikil stígandi í verkinu sem naut sín afar vel í flutningi kórsins á sunnudagskvöldið.

Mótettukaflann "Warum ist das Licht gegeben dem Mühseligen" (Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu) samdi Johannes Brahms við texta úr Jobsbók. Þar spilar Brahms á orðið "warum" (hvers vegna) sem hljómar eins og þunglyndisleg stuna hvað eftir annað til að undirstrika angist þess sem talar. Magnús kórstjóri segir í efnisskrá að þetta sé afar erfitt verk í flutningi en það var ekki að heyra. Fegurðin og áhrifamátturinn nutu sín virkilega vel.

Aðalatriði kvöldsins var svo Messa í As dúr (D 678) eftir Franz Schubert sem mun aðeins einu sinni hafa verið flutt hér á landi áður. Það var árið 1977 og flytjendur voru þá sem nú: Söngsveitin Fílharmónía. Með sveitinni sungu fjórir einsöngvarar, Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Nanna María Cortes alt, Jónas Guðmundsson tenór og Alex Ashworth bassi. Þau fengu öll eitthvað að gera, en ég veit ekki hvort það var af aðdáun á Huldu Björk eða raunveruleiki að mér fannst hún syngja fleiri strófur en hin. Altént hæfði röddin hennar Schubert einstaklega vel og fyllti kirkjuna af himneskum hljómi. Nanna María er mjög vaxandi söngkona og glæsileg á sviði eins og hún á kyn til. Jónas var lítt áberandi en Alex hefur skínandi fallegan bassa sem hljómaði tignarlega á móti birtu raddar Huldu.

Messan er tilkomumikið verk, upphafið á Gloríu-kaflanum er hreinlega mergjað. Í lok þess kafla verður mikil stígandi og endirinn eiginlega rokk og ról. Algert æði! Sömuleiðis var rosalegur kraftur í Trúarjátningunni, Credóinu, en meiri heilagleiki og kyrrð yfir síðustu köflum messunnar.

Þetta var vissulega upphafin helgistund, en tilfinningin sem sat eftir og bjó í manni næstu daga var þó fyrst og fremst gleði. Þar áttu trúi ég jafnan þátt Franz Schubert með sína snilli og Söngsveitin, stjórnandi hennar og einsöngvarar. Söngsveitin fer í sumar í ferðalag til Vilníus þar sem hún tekur þátt í stórri listahátíð. Henni fylgja árnaðaróskir en líka vissan um að hún muni sigra alla viðstadda með frábærum flutningi sínum á Carmina Burana.

Engin ummæli: