laugardagur, janúar 21, 2006

Habbidu og fjölskylda er fyrir norðan þ.a. ég er einn í íbúðinni. Merkilegt nokk finnst mér alltaf erfiðara að sofna þegar ég er einn. Ég lá í tvo tíma í nótt án þess að sofna. Ég náði í geislaspilara og hlustaði á Graduale Nobile diskinn og þegar hann var búinn hlustaði ég á upptöku úr síðustu messunni minni í Svíþjóð. Bassinn í vokalensamblinu mínu hafði tekið hana upp og sendi mér geisladisk. Það var mjög gaman að hlusta á þetta og æðislegt að eiga þessa minningu. Þetta er sem sagt bara tónlistin en kveðjuræða prestsins og mín eru með þarna. Ég heyrði ýmislegt á upptökunni sem ég hafði ekki tekið eftir í messunni þar sem ég söng með sjálfur í sönghópnum. Maður á helst ekki að syngja með þegar maður er að stjórna. Maður heyrir ekki eins vel þá. Ég náði svo ekki að sofna fyrr en rúmlega 3 í nótt þegar ég setti The Real Group á geislann.

Draumaíbúðin okkar á Langholtsvegi er of mikil áhætta fyrir okkur. Við fengum Halla bróður Ólu til að kíkja á hana með okkur að degi til og honum leist ekkert á húsið. Þetta er sem sagt forskalað timburhús (þ.e. timburhús klætt með steypu) sem er að hans mati vitlausasta hugmynd íslenskrar byggingarsögu. Við hittum líka gamla karlinn sem býr á efri hæðinni sem er smiður og hann sagði að húsið þarfnaðist stöðugrar viðgerðar, þyrfti til að mynda að mála á fjögurra ára fresti. Íbúðin var annars fullkomin að öðru leyti nema það vantaði geymslu. Þetta var sérhæð með með stórum og fallegum garði á mjög góðum stað. En ég nenni bara ekki að standa í viðgerðum á hverju sumri og þurfa alltaf að safna fyrir þeirri næstu.

Við Mamma fórum að sjá Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Mjög skemmtileg og góð sýning með skemmtilegri tónlist eftir Bjössa Thorarensen. Ég held það hafi verið ca. 80% konur í áhorfendahópnum.

3 ummæli:

Hildigunnur sagði...

já, forsköluð timburhús eru umhverfisslys...

Hverfið er samt frábært, kannski finnið þið eitthvað annað þar nálægt.

Mér finnst Real Group ekkert sérlega svæfandi, reyndar ;-)

Maggi sagði...

Nei, ég þyrfti kannski að endurskoða lagavalið á nóttunni. Svona eftir á að hyggja var Graduale Nobile diskurinn heldur ekkert svo svæfandi.

Syngibjörg sagði...

Guð forði þér frá húsi sem rænir þig öllum þínum frítíma,tekjum, venjulegum sunnudögum með fjölskyldunni og sálarrró.