Þá er maður byrjaður að kenna og það er bara alveg ágætt. Ég held ég sé með rúmlega 20 nemendur. Sumir eru búnir að spila í allt að fimm ár og spila jafnvel sónatínur og Bach. Svo eru aðrir sem eru nýbyrjaðir og í gær fékk ég meira að segja eina sem var að koma í sinn fyrsta píanótíma. Ég spurði hvort hún kynni einhver lög og hún kinkaði kolli og sagðist kunna þrjú. Fyrsta lagið spilaði hún stolt en það var tónstigi upp og niður eina fimmund. Svo spilaði hún Góða mömmu og Skessuleik (reyndist vera Allir krakkar). Í dag komu tveir átta ára krakkar og voru alveg rosalega dugleg og sæt. Sögðu eiginlega ekki neitt en spiluðu allt rétt. Það verður gaman að kenna þeim.
Ég átti að spila í tveimur guðsþjónustum nú um helgina en allt í einu datt önnur upp fyrir því að presturinn hringdi í annan organista því hann var ekki búinn að heyra í mér. Ég hefði svo sem alveg getað hringt í hann en ég gerði ekkert ráð fyrir að fá sálmana fyrr en rétt fyrir athöfn. Það var þannig þegar ég spilaði þarna fyrir nokkrum árum og hafa fleiri organistar talað um að hann gerði þetta alltaf svona. Þetta átti líka allt að vera einraddað og svo hefði hann alveg getað hringt í mig sjálfur. Hann reyndi tvisvar í dag þegar ég var að kenna og með slökkt á símanum, meiri var þolinmæðin ekki og þá talaði hann við annan. Svo hringdi hann í starfandi organista sem er í fríi úti á landi og hann náði í mig og var voða sorrí yfir þessu. Ég skrapp svo yfir í kirkjuna og talaði við prestinn sem var búinn að draga heilmikið í land og var bara hinn hressasti.
Mér finnst reyndar fínt að fá sálmana með smá fyrirvara þannig að maður geti gert skemmtileg forspil eða varíerað erindin. Ég spilaði í Áskirkju á gamlárskvöld og reyndi svoleiðis að ná í prestinn þar í marga daga því þar vissi ég að ætti að vera góður kór en allt kom fyrir ekki og ég fékk bara sálmana þegar ég mætti skömmu fyrir athöfn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli