miðvikudagur, mars 31, 2004

Í dag kom vorið. Ansi hlýtt, alla vega eftir hádegi. Allir á peysunni og mig langaði svo að hafa nemendur mína úti í dag en það var dálítið erfitt, sérstaklega með orgelnemann. Hún var voða dugleg í dag. Hún er voða músíkölsk og skilur svo vel þegar ég útskýri fyrir henni en það er ekki alltaf sem hún er búin að æfa sig mikið. Söngnemandinn var líka voða duglegur. Það er alveg týpiskt með hann að ég var búinn að undirbúa nokkur söngleikjalög og gospel fyrir hann til að hann halda áhuga hans en honum finnst skemmtilegast að syngja þessi gömlu klassísku lög.
Það gekk alveg ágætlega með Pro Musica á mánudaginn, alveg eins og mig grunaði að nóturnar sátu rétt mjög fljótt og þá fór maður strax í að móta og þannig. Svo voru kórtónleikar með kirkjumúsíkerkórnum í gær og það gekk voða vel og var ágætlega sótt. Ég söng nokkrar sólóstrófur, ein var ansi strembin nótnalega séð, frekar atónal en það tókst ágætlega.
Var að koma af sinfóníutónleikum. Sem tónlistarnemi fær maður miða á 20 kr. sem er alveg æðilegt en sætin eru á fyrstu bekkjunum þar sem hljómburðurinn er ekkert svo góður en maður reynir að finna laus sæti annars staðar. Í kvöld var það Mozart og Haydn, mjög vandað og fágað og stjórnandinn (Christian Zacharias) stjórnaði frá píanóinu og er mjög fær, en Haydn sinfónían var ekkert sérstök.
Á morgun er fyrirlestur í orgelsmíði og þá ætla ég að reyna að finna fína stellingu til að sitja.
Donka

Engin ummæli: