sunnudagur, mars 28, 2004

Nú var ég að koma frá að spila í orgel continium í Stabat mater eftir Pergolesi í Oscar Fredriks kirkjunni. Það gekk nú bara vel. Allir voða ánægðir. Það var reyndar dáldið óþægilegt fyrir mig því kórorgelið er til hliðar og strengirnir og stjórnandinn nokkrum metrum frá mér og ég þurfti að horfa á hann í speglinum og konsertmeistarinn sneri baki í mig. En þetta blessaðist allt saman. Við náðum að renna einu sinni í gegnum stykkið með öllum og svo var konsert þannig að það gilti að vera vel vakandi fyrir öllu. Við hljóðfæraleikararnir æfðum reyndar sér í tæpan klukkutíma í safnaðarheimilinu og þá spilaði ég á píanó. Það er nú alveg merkilegt að þótt þetta sé alveg eðal barokkstykki þá varð þetta svo djassað þegar maður spilar á píanó með kontrabassa. Um jólin spilaði ég undir hjá barnakór á píanó og með mér spilaði kontrabassaleikari og það var alveg sama sagan þar. Allt varð svo djassað. Mér finnst þetta voða flott samsettning.

Það er búið að vera projekt vika í skólanum; fyrirlestrar, masterclass og kóræfingar, þ.e. sitja voða mikið. Furðulegt hvað maður verður fljótt þreyttur á að sitja þegar maður er á svona fyrirlestrum. Maður veltir sér um á stólnum, krossleggur fætur í allar áttir og teygir úr sér á allan hátt. Svo getur maður setið marga klukkutíma á kóræfingum og verður ekki vitund þreyttur á því að sitja. Þetta er svipað og þegar ég fer á búðarráp með Hrafnhildi. Ég verð alveg uppgefinn í löppunum eftir 10 mín. (stundum 5 mín.). Ég tók eftir því um daginn að ég dreg lappirnar á mjög sérstakan hátt. Síðast þegar við fórum á svona búðarráp þá tókst mér að haga fótunum betur og nú er þetta vandamál sennilega úr sögunni. Nú er bara að einbeita sér að fyrirlestrarstellingunni.

Það skemmtilegasta við vikuna var að ég var beðinn um að sitja í dómnefnd fyrir inntökupróf í stjórnun (ensambleledning) í skólanum. Við vorum bara tveir í dómnefndinni, gáfum einkunnir og bárum okkur svo saman í lokin. Umsækjendurnir áttu að stjórna serenöðu fyrir strengi, einu kórstykki og svo etýðu fyrir tvö hljóðfæri. Þau máttu velja hvaða verk og hvaða hljóðfæri áttu að spila (völdu sem sagt úr umsækjendahópnum). Serenaðan var yfirleitt flutt af málmblásturshljóðfærum og það hljómaði yfirleitt alveg hræðilega.
Á morgun er það svo Pro Musica og svo hefst kennsla samkvæmt stundarskrá á ný. Bæ ðe vei... nú erum við búin að skipta yfir í sumartíma þannig að nú erum við tveimur tímum á undan Íslandi.
maggiragg@hotmail.com

Engin ummæli: