fimmtudagur, mars 18, 2004

Nú ganga þessi íbúðarmál aðeins betur.
Það eru góðar líkur á að við getum skipt við eina konu sem ætlar að flytja til Gautaborgar sem er með íbúð sem verið er að endurnýja algjörlega og hún á eftir að kosta svipað og það sem við erum að borga í leigu núna, ca. 5200 sek. Hrafnhildur gat ekki sofið um daginn af áhyggjum, það er svo margt óvisst, bæði íbúð, vinna fyrir okkur bæði og svo brúðkaupið í sumar. Hún er rólegri núna. Ég er hins vegar frekar rólegri og held að þetta reddist allt saman (týpískur karlmaður). Enda er ég búinn að vera með Ríó Tríó á heilanum: "Þeeeetta reddast..... já það reddast...... það reddast sjálfsagt eina ferð á ný! Jáááááá það reddast, þetta reddast.... það reddast (eitthvað eitthvað) ......... borg og bý." Man einhver eftir þessu lagi, ca. 10 ára gamalt. Ef svo þá geturðu ímyndað þér hvað það er gaman að hafa þetta á heilanum!
Þessi og næsta vika er projekt vika í skólanum sem þýðir að ekki er kennt skv. stundaskrá, heldur bara fullt af sérverkefnum: aðallega kóræfingar, fyrirlestrar og masterclass. Sem sagt óvenju mikil viðvera þannig að maður nær ekki að æfa sig eins mikið auk þess sem það eru inntökupróf í skólanum þannig að maður má ekki bóka æfingaherbergi. Á mánudaginn var masterclass í jass fyrir orgel og saxófón. Það var voða gaman, sérstaklega að djamma með saxófónistanum Håkan Lewin. Það er samt eitthvað við skandinavískan jass sem ég fíla ekki alveg. Ég held það sé ofnotkunin á stórri sjöund.
Framundan eru nokkrir tónleikar. Nú á sunnudaginn ætlar kórinn minn (Pro Musica) að flytja tónleikaprógrammið Ramaskri (öskur í Rama) sem er voða flott. Meðal annars tvær passíu mótettur eftir Poulenc sem ég alveg elska, bæn eftir Rachmaninov og Bölvun járnsins eftir eistlendinginn Tormis. Við höfum sungið það nokkrum sinnum áður og það er alveg magnað. Eitt af þessum verkum sem er neiðinlegt að æfa en magnað á tónleikum og vekur mikla lukku. Kórinn er líka alveg rosalega góður þótt ég segi sjálfur frá.
Næsta sunnudag er það svo Stabat mater eftir Pergolesi þar sem ég mun spila continio orgel. Þetta verður gert á enska háttinn. Þ.e. tónleikarnir eru hálf átta og fyrsta æfingin er kl. fimm sama dag. Svo á föstudaginn langa mun ég spila á stóra orgelið í Oscar Fredriks kirkjunni í messu fyrir kór og tvö orgel eftir Vierne. Það verður dáldið erfitt þar sem það verður svo langt á milli mín og kórsins og hins orgelsins og tekur langan tíma fyrir hljóðið að berast fram og til baka. Maður þarf því að stara í spegilinn til að sjá stjórnandann og liggja aðeins og undan slaginu.

Engin ummæli: