laugardagur, júní 12, 2004

Nú er heldur betur langt síðan ég bloggaði síðast. Það er búið að gerast svo mikið. Þann 30. maí komu Indra og Mamma og daginn eftir voru útskriftartónleikarnir. Þeir gengu svaka vel. Það kom hópur úr háskólakórnum sem ég stjórnaði í fyrra og þau virkuðu eins og klapplið og höfðu til að mynda frumkvæðið að því að standa upp í lokin. Það var voða gaman. Fyrr um daginn fór ég með stelpunum í Blómagarðinn í æðislegu veðri og slappaði bara af. Það var mjög sniðugt og varð til þess að maður var einbeittur og vel undirbúinn. Það var líka mjög gaman að geta boðið upp á pönnukökur með sykri, flatkökur með hangikjöti og spínatsallat. Það féll í góðan jarðveg.

Daginn eftir fórum í Liseberg í fínu veðri og það var ekki amalegt að fara með Mömmu daginn áður en hún varð sextug. Hún er alveg tækjaóð og hefur ekkert fyrir því að fara í Rússibanana. Við erum öll svona í fjölskyldunni nema Pabbi sálugi. Um kvöldið var eldað lambalæri sem var æðislegt.

Á miðvikudaginn héldum við upp á sextugs afmæli Mömmu og svo fór hún til Köben að hitta sinn heittelskaða og þau fóru svo daginn eftir til Bornholm og fóru fyrst heim í dag. Ég og Indra fórum á Vatnlitasafnið í Tjörn. Við byrjuðum reyndar á Því að borða fisk á matsölustaðnum. Ég spurði hana um Ingólf og hvað fyrri konan hans gerði og Indra sagði að hún væri líka myndlistarmaður og viti menn. Fyrsta verkið sem við sáum á safninu var einmitt eftir hana. Þvílík tilviljun. Kvöldið áður hafði Indra verið að skoða vídeóspólurnar hjá okkur í leit að Friendsþætti og sá þá spólu sem merkt var: Fiðluleikur Indru. Hún var viss um að ég hefði tekið hana að heiman en merkilegt nokk þá var þetta spóla frá ömmu Hrafnhildar. Þetta voru líka myndir sem voru alveg týpískar fyrir Indru: Manhattan (Woody Allen), A Room With a View og svo þessi Litrófsþáttur sem fjallaði um stúdentaleikhúsið fyrir ca. 10 árum þar sem Indra lék á fiðluna. Alveg ótrúlegt að akkúrat þetta skuli hafa verið tekið upp, mörgum árum áður en ég og Hrafnhildur byrjuðum saman.
Seinna um daginn komu Hjalti og Vala og svo Halldór, Dísa og Daði og við borðuðum grillmat hjá Þórdísi frænku Hrafnhildar sem býr rétt fyrir utan Gautaborg. Þar var nú glatt á hjalla.

Á fimmtudaginn var komið að Hrafnhildi að útskrifast. Það var nú almennileg athöfn enda hafði bekkurinn skilað inn lista með kröfum hvernig þetta ætti allt saman að vera. Það var mikið gert grín að þessum lista í útskriftarveislunni daginn eftir. Svo var farið út að borða og kíkt í búðir einu sinni sem oftar (mér hefur tekist að koma mér upp göngulagi þannig að ég þreytist ekki eins fljótt á búðarápinu).

Á föstudaginn fór Indra heim aftur og ég held að hún hafi ratað í rétta flugvél (wink wink)og ég í síðasta tímann í skólanum. Það var hljómsveitarstjórnin en vegna misskilnings kom ég klukkutíma of seint og kennarinn var dáldið pirraður og setti út á öll möguleg smáatriði hjá mér.
Svo fórum við öll í Liseberg en nú var ekki eins gott veður en samt voða gaman. Eftir þrjú tæki þá hlupum við Habbidu upp nokkrar brekkur til Önnu og Johans til að skipta um föt. Svo hlupum við fjögur upp fleiri brekkur til Kristinu og kærasta hennar til að fá okkur fordrykk fyrir útskriftarpartýið. Svo rauk Anna allt í einu upp og sagði að við værum of sein og þá hlupum við niður allar brekkurnar og í veisluna. Þegar við settumst svo niður til borðs kom þessi svakalega þreyta fram. Öll þessi hlaup og allur æsingurinn í Liseberg tók sinn toll. Eftir borðhaldið gat maður drukkið og dansað þreytuna frá sér. Það var voða gaman.

Á laugardaginn hélt í minikonsert fyrir þá sem misstu af útskriftartónleikunum, við fórum í Pödduna (túristabátur hér í Gautaborg) og við strákarnir horfðum á æfingaleik Englands og Íslands á enskum pöbb hér í bæ. Við laumuðum okkur út þegar staðan var orðin 6-1.
Á sunnudaginn fór fólk í sitthvora áttina. Hjalti og Vala til baka til Oslo, Halldór og Dísa til Köben á ráðstefnu og við hin fórum til Stokkhólms á mánudaginn. Við gátum lítið annað gert en að keyra, fara i atvinnuviðtöl, skoða í búðir og keyra aftur. Við skoðuðum reyndar íbúðina og leist vel á. Viðtölin gengu vel. Hrafnhildur er nánast garanteruð með þessa vinnu svo framarlega sem enginn annar sæki um sem er með margra ára reynslu. Ég reyndi að slá á létta strengi í mínu viðtali en það féll ekkert í allt of góðan jarðveg. Þau voru að vanda sig svo mikið í hlutverki sínu og komu með ansi margar "lærðar" spurningar. Ég fer aftur á þriðjudaginn og þá í tvö viðtöl. Mér líst ansi vel á eitt starfið og vona að viðtalið gangi vel. Ég er búinn að tala við sóknarprestinn þar tvisvar í síma og hitta hana einu sinni og hún er mjög notaleg og skemmtileg. Svo liggur kirkjan frekar nálægt íbúðinni okkar og aðstæðurnar eru fínar. Ég er búinn að vera á nálum í hvert skipti sem síminn hringir af ótta við að þeir bjóði mér starfið eftir síðasta viðtalið.

Engin ummæli: