Nú ættu margir að gleðjast (sérstaklega þú, Jón Óskar). Það er búið að ákveða að hafa hringsvið og hljómsveitargryfju í tónlistarhúsinu þannig að það ætti að vera hægt að setja upp óperur þar. Ég vona bara svo innilega að þetta heppnist allt saman vel og að hljómburðurinn verði góður.
Ég er orðinn ansi þreyttur á konunni sem býr beint fyrir ofan okkur. Hún kemur við og við til að biðja okkur um greiða og hún talar svo mikið. Síðasta sumar hjálpaði ég henni að borga reikninga á netinu og hún tuðaði yfir mér allan tímann að hún yrði að gera þetta í dag því hún var að fara til Tyrklands daginn eftir og sagði sama hlutinn aftur og aftur. Núna kom hún til að spurja hvort hún mætti nota fyrsta hálftímann af þvottatímanum okkar. Eftir ca. 30 sekúndur sagði ég að það væri í lagi en henni tókst að tuða um þetta í 5 mínútur í viðbót, alltaf sama hlutinn, hvað þetta væri mikilvægt fyrir hana. Ég ítrekaði að þetta væri í fínu lagi en áfram hélt hún.
Mánudagurinn skiptist í þrennt.
Fyrst var það próf í impróviseruðu orgelspili sem ég æfði rosa mikið fyrir. Manni var úthlutað þremur sálmum sem maður átti að búa til forspil við og gera eitthvað skemmtilegt og gott við versin (þ.á.m. transponera, tríóspil og breyta hljómagangnum) og svo átti maður að búa til eftirspil í formi Partítu bygða á sálmi sem tilheyrði deginum. Þar sem þemað var aðventusálmar þá valdi ég Veni Emanuel (kom vor Imanúel) sem eftirspilsálm og var ansi stoltur af þeirri tónsmíð.
Prófið gekk svo vel og í gær komst ég að því að ég hefði náð sem kom mér svo sem ekkert á óvart en hitt var undarlegt að ég var sá eini í bekknum mínum sem náði. Einn fékk reyndar ekki að taka prófið vegna of mikillar fjarveru, ein ákvað að taka ekki prófið fyrr en í haust, einn féll og tvær féllu í sálmaspils hluta prófsins sem mér finnst mjög skrítið þar sem þær hafa báðar unnið sem kantor í mörg ár. Þetta er sérstaklega merkilegt þar sem ég var lélegastur í litúrgísku orgelspili þegar ég byrjaði í skólanum þar sem ég hafði bara spilað á orgel i tvö ár en hin með miklu meiri reynslu. Mig grunar helst að konurnar hafi fallið í tranponeringunni en ég féll einmitt í því í fyrra. Það var reyndar óvenju erfitt því þá þurfti maður að undirbúa 16 mismunandi tranponeringar og féllu óvenju margir í því.
Annar hluti dagsins fór í að fylgjast með fréttum frá Íslandi. Ég las alla fréttavefi og pólitískar greinar. Ég sá að Torfi frændi (hann er reyndar ekki frændi minn heldur Hrafnhildar en þar sem ég á ekkert skyldmenni sem heitir Torfi er ég að hugsa um að kalla hann það) skrifaði um það um daginn að honum þætti öll skrif sem hann las um þetta fjölmiðlamál svo illa skrifuð og engin rök færð fyrir öfgafullum skoðunum. Mig grunar að hann hafi verið að lesa spjallþræði sem eru oft ansi skelfilegir en ég get mælt með skodun.is þar sem safnað er saman ýmsum greinum frá hinum og þessum pólitísku vefsíðum. Mér finnst mjög áhugavert að lesa murinn.is, silfuregils og deiglan.com sem er í umsjá skólafélaga minna úr MR. Þar er fremstur í flokki Borgar Þór sem mér fannst alltaf öfgafullur sjálfstæðismaður en ég var alveg hissa hvað þessi vefur er málefnalegur og góður.
Síðasti hluta dagsins varði ég með Pro musica, síðasta kóræfingin mín. Það var ákveðið að taka upp nokkur kórverk sem við höfum sungið undanfarið. Sniðug hugmynd þar sem verkin sitja svo vel og ekki þarf að æfa sérstaklega en það voru bara allir svo óeinbeittir eftir að hafa verið í vinnunni allan daginn og svo var vor í loftinu og fólk eiginlega of glatt. Svo þurfti Jan alltaf að hlusta á upptökurnar á milli og það tók sinn tíma. Skiljanlega vill hann að þetta sé sem best en við náðum bara að taka upp þrjú lög, eitt frekar stutt en hin nokkuð lengri. Svo á að halda áfram í haust en þá verð ég nú varla með. Það var sem betur fer tekið upp stykkið þar sem ég syng nokkrar sólóstrófur og ég vona að hægt sé að nota það.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli