Skrámur bara sefur og sefur.
Hrafnhildur púslar og púslar
Ég er alltaf á netinu.
Svona líða dagarnir.
Við og við pökkum við einhverju niður.
Það eina sem eftir er að redda varðandi þessi íbúðaskipti er dagsetningin fyrir skiptin.
Ég sagði að þetta myndi reddast (sjá bloggfærslu 18 mars).
Á morgun ætla ég að hitta Lars Hernqvist (sá sem hefur verið praktík leiðbeinandinn minn). Hann ætlar að bjóða mér í hádegismat. Það er búið að vera fínt að vera hjá honum. Hann var ansi tregur að taka að sér nýjan praktikant enda hefur hann alveg ótrúlega mikið að gera. En svo þegar hann átti að hitta mig og Karin var hann allt í einu óður í að fá mig. Hann hafði víst hitt Jan Yngwe (kórstjórnarkennarann minn) á göngum skólans sem lofaði mig í hástert.
Það hefur ekki verið verra að vera þarna fyrir mig. Maður hefur haft þetta fína orgel nánast út af fyrir sig, fengið að fylgjast með mjög fjölbreyttu safnaðarstarfi og fengið góð ráð frá Lars. Það hefur líka verið ánægjulegt að ég hef oft getað hjálpað honum við mörg tækifæri, ýmist sem kórsöngvari, organisti eða stjórnandi. Þau voru líka imponeruð í atvinnuviðtölunum að maður hafi unnið svona mikið með Lars og fengið fín meðmæli frá honum, en hann er "þekkt nafn" í Svíþjóð.
Ég sagði honum um daginn að ég væri að fara í atvinnuviðtölin tvö og lýsti hvað mig langaði mikið í Trångsundstöðuna en hann hvatti mig til að taka Nynäshamn. Þegar ég talaði við hann nú á föstudaginn og sagði honum hvað gerst hafi lét hann mig vita að fyrir nokkru hefði þeir hringt frá Nynäshamn og spurt um mig og hann mælt eindregið með mér. Eftir á að hyggja finnst mér eins og þau hafi verið búin að ákveða að ráða mig áður en viðtalið byrjaði.
Það væri reyndar ekki í fyrsta skiptið. Ég man þegar ég fór í atvinnuviðtal á Hótel Sögu sagðist Karin móttökustjóri hafa ákveðið að ráða mig þegar hún hringdi í mig og fékk símsvarann þar sem ég söng einhverja vitleysu. Enda var þetta ekkert viðtal. Hún spurði mig eiginlega ekki að neinu heldur lýsti fyrir mér starfinu. Hinn móttökustjórinn, Friðrika, var ný í starfinu og einum of metnaðarfull enda var maður alveg grillaður í því viðtali.
Mér sýnist Habbidu alveg vera að fara klára púslið. Ég er nefnilega alltaf svo lengi að blogga. Og svo heyrir hún alltaf þegar ég er að því vegna þess að ég gef alltaf frá mér viss hljóð, t.d. smelli tungunni í góminn, það heyrist "hmmm" og svo lít ég upp í loftið og fleira. Þá kemur glott frá minni tilvonandi...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli