Hvað er eiginlega að Bandaríkjamönnum. Er í lagi að varpa flugskeyti á íbúðarhús og drepa fullt af óbreyttum borgurum bara af því að það hafi leikið sterkur grunur um að vopnasali hafi verið í húsinu. Er sem sagt í lagi að fórna saklausum Írökum. Og jafnvel þó svo þeir hafi verið vissir í sinni sök er þá í lagi að taka vopnasala af lífi án dóms og laga.
Ég sá myndbandsupptöku um daginn sem tekin var úr herþyrlu. Þar var fylgst með þremur mönnum í eyðimörkinni í Írak um nótt þar sem þeir voru að kasta einhverju frá sér bak við hól. Þetta var næturupptaka og því ekki hægt að sjá hvað þeir voru að losa sig við eða fela en maður heyrði í talstöðinni skilaboð frá yfirboðara um að skjóta á þessa menn þar sem þetta væri líklega vopn sem þeir voru að fela. Svo sá maður þegar þeir skutu þá úr þyrlunni. Þeir skutu tvo, sá þriðji faldi sig undir vörubíl en þyrlan skaut þar til þeir voru vissir um að hann væri dauður.
Það var ekki að sjá að hermönnunum stafaði bein ógn af þessum mönnum.
Það er erfitt að koma sér aftur af stað þegar maður slappar af á annað borð. Maður gerir eiginlega ekkert af viti. Ég hjólaði reyndar niður í bæ til að registrera fyrir austurrískan organista sem spilaði á hádegistónleikum í Hagakirkjunni. Það gekk vel hjá honum, og mér reyndar líka. Það ætti reyndar að kenna og samræma það hvernig skrifað er inn í nóturnar fyrir registrantinn. Það er hver með sitt system sem tekur yfirleitt nokkrar mínútur að átta sig á. Tónleikarnir byrjuðu með klukknahringingu og þá fór hundur eins tónleikagestsins að ýlfra svona svakalega hátt en hann hafði verið bundinn við staur fyrir utan (hundurinn altso).
Eins og maður var duglegur fram til loka maí þá gerir maður eiginlega rosalega lítið af viti núna. Maður þarf eiginlega að trekkja sig aftur upp smátt og smátt. Og svo þegar það er hangið svona mikið þá borðar maður meira, alltaf að narta í eitthvað.
Við ætlum að fara út úr bænum á föstudaginn með vinafólki. Þá er midsommar. það verður ábyggilega gaman. Svo er ég að spila í messu á sunnudaginn í Betlehemkirkjunni, sem er trúboðasöfnuður. Ég kann alltaf betur og betur við þá kirkju. Fyrst fannst mér ekkert varið í hana. Hún lítur út eins og hver önnur skrifstofubygging að utan en að innan er hún voða notaleg, með fínum hljómburði og ágætis orgeli. Ég spilaði þarna í fyrrasumar og safnaðarþátttakan (er ekki örugglega þrjú t í þessu orði) er mjög góð. Þetta er enginn sértrúarsöfnuður, tilheyrir bara ekki sænsku þjóðkirkjunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli