Það eru svo mörg tónleikaverkefni í hausnum á mér núna að ég er orðinn hálfruglaður. Fílharmónían mun flytja þýska 18. aldar kórtónlist eftir Mendelssohn, Brahms og Schubert í byrjun apríl, flytur Carmina burana í Vilnius 1. júlí og tvenna aðra tónleika með íslenskri kórtónlist, í haust er meiningin að flytja kletzmer tónlist, aðventutónleika og svo er ég þegar kominn með hugmyndir að vortónleikum næsta árs.
Hljómeyki er að fara að taka upp eftir rúma viku verk Úlfars Inga og tónskáldanna í kórnum. Svo var ég að leggja inn beiðni til Listvinafélags Hallgrímskirkju út af tónleikum í maí þar sem flutt verða nokkur spennandi erlend kórverk og Óttusöngvar á vori eftir Jón Nordal. Vonast til að fá svar í næstu viku. Svo mun kórinn syngja Carmen með Sinfó í byrjun júní, syngja verk eftir Svein Lúðvík í Skálholti í júlí, halda tónleika (hugsanlega í Iðnó) í haust með veraldlegri kórtónlist og frumflytja þar kantötu eftir Ríkarð Örn Pálsson, jólatónleika (sennilega á milli jóla og nýars því það gaf svo góða raun um daginn) og svo er ég með ákveðið verk í huga fyrir næsta vor.
Ég og Margrét Sig erum að plotta tónleika núna í vor í kirkjunni og ætlum svo að reyna að gera eitthvað stórt eftir ár með hljómsveit und alles! Ég var að pæla í að sækja um á orgeltónleika í Hallgrími í sumar en ég held hafi ekki almennilega tíma fyrir það.
Svo eru ýmsar uppákomur, aðallega hjá Fílunni, sem þarf að huga að og þarf að púsla því þannig saman að það taki ekki of mikinn tíma frá hefðbundnum æfingum. Best að reyna að samnýta prógrömmin, t.d. það sem kórinn mun syngja í messum sé líka hægt að syngja í Litháen.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli