fimmtudagur, janúar 04, 2007

Maður er svo stoltur af systur sinni

Þetta birtist í Mogganum í dag

ÚTVARPSDAGSKRÁ RÚV yfir jól og áramót er yfirleitt með vandaðra móti. Henni fylgir undantekningarlaust hátíðarbragur og augljóslega vandað til vinnubragða við þá þætti sem heyrast þá fyrsta sinni. Það átti svo sannarlega við um þátt Elísabetar Indru Ragnarsdóttur um Árna Kristjánsson sem fluttur var á jóladag.

Undirrituð, sem yfirleitt situr við lestur jólabókanna á þessum helga degi, átti fullt í fangi með að halda einbeitingu við bókmenntirnar svo sterkt togaði útvarpið í athyglina.

Þátturinn var frábær heimild um það hvernig ungur tónlistarmaður, sem alinn er upp á hjara veraldar (og þar af leiðandi við allt annars konar aðgengi að tónlist en jafnaldri sem fæddist til að mynda í Vínarborg eða London), hleypir heimdraganum og nær að þroska sig sem listamann á heimsmælikvarða.

Arfleifð hans í íslenskri tónlistarsögu er að sama skapi merkileg og í raun undravert hversu mikið samtímafólk hér á landi á þessum frumherjum í íslensku menningarlífi að gjalda.

Þátturinn um Árna hét því skemmtilega nafni "Maðurinn er hann sjálfur", áminning um það m.a. að þrátt fyrir allt er hver og einn auðvitað sinnar eigin gæfu smiður.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Engin ummæli: