föstudagur, janúar 26, 2007

Ég og Einar Karl vorum að koma frá Litháen í gær, fórum á þriðjudaginn. Það var alveg rosalega gaman. Vilnius er mjög falleg borg og var kosin ódýrasta túristaborg Evrópu nýlega. Við gistum á alveg svakalega flottu 5 stjörnu hóteli með fyrsta flokks þjónustu. Ég varð áhyggjufullur því við erum þarna á vegum Fílharmóníunnar sem borgar alla ferðina og hugsaði að þetta hlyti að vera of dýrt, við hefðum alveg eins getað gist á hosteli. En tvær nætur fyrir okkur tvo í sitthvoru herberginu sem var frekar stórt með flottum morgunverði þar sem meðal annars var boðið upp á kampavín kostaði samtals 15.000 íslenskar krónur. Það er reyndar offseason og hljómsveitarfólkið úti pantaði fyrir okkur og er með mjög góðan samning við hótelið.

Eyþór Eðvaldsson tók á móti okkur og sá um okkur allan tímann. Hann var formaður Fóstbræðra en flutti út fyrir tveimur árum og á Remax fyrirbærið í öllum Eystrasaltslöndunum og Finnlandi. Auk þess hefur hann keypt nokkrar fasteignir, gert þær upp og selt aftur á góðu verði. Hann var mjög flott klæddur þegar hann tók á móti okkur og keyrði okkur um Vilnius á nýjum Benz sem er ábyggilega flottasti bíllinn í Litháen. Ég held að forsetinn eigi ekki svona flottann bíl. Í græjunum hljómaði DVD upptaka af Fóstbræðrum og Bó með Sinfó í Dolby stereo og ég veit ekki hvað. Þegar við komum svo á þetta flotta hótel fannst mér eins og maður þyrfti að kaupa sér Boss jakkaföt hið fyrsta en við vorum bara í gallabuxum og peysu með bakpoka og í gönguskóm.

Svo hittum við Jurgitu (framkvæmdastjóra listahátíðarinnar) og prófessor Katkus (listræna stjórnandann). Við ræddum um praktísku atriðin og kíktum á tónleikastaðinn sem er nokkuð stórt útiport við málverkasafnið. Það verður spennandi því það var góður hljómburður. Svo var okkur boðið á skrifstofuna þar sem Jurgita tók fram Kampavín til að skála í. Við litum á klukkuna sem var hálf tólf (hálf tíu á Íslandi). Þá tók prófessorinn flöskuna aftur og kom í staðinn með koníaksflösku, skenkti okkur öllum, sagði isvergata og tæmdi glasið á tveimur sekúndum. Við fylgdum fordæmi hans. Svo skenkti hann þar til flaskan var tóm. Svo buðu þau okkur út að borða á írskum pöbb og heimtuðu að við drukkum litháískan bjór. Hann var nota bena að fara að æfa með hljóðfæraleikurum í hljómsveitinni.

Við kíktum á hótelið sem kórinn mun líklega gista á í sumar, hittum ræðismanninn sem ætlar að verða okkur innan handar með að ná kontakt við íslensku fyrirtækin í Litháen, fórum út á flugvöll og sóttum Davíð Ólafs bassasöngvara sem á nokkrar íbúðir með Eyþóri sem hafði hringt í hann daginn áður og sagt honum að koma sér til Vilnius til að skrifa undir þinglýsingar því það var kominn kaupandi. Svo var farið út að borða á mjög góðum veitingastað, við fjórir og kærastan hans Eyþórs. Forréttur, aðalréttur, fordrykkur, nokkur vínglös og koníak eftir á kostaði allt í allt 28 þúsund krónur. Eyþór hafði nýlega boðið fjölskyldu sinni út að borða á íslandi og það kostaði 70 þúsund.

Við skoðuðum íbúðina sem þeir voru að selja. Þetta var mjög flott 200 fm glæsiíbúð með gyllingum í loftinu. Þegar við komum í eldhúsið hittum við kráku sem hafði þvælst niður loftstokkinn og komst ekki út. Við opnuðum alla glugga en hún klessti bara á glerið fyrir ofan. Greyið flaug fram og til baka móð og másandi. Loks fengum við stiga og Davíð náði að grípa í stélið og henda henni út.
Í gær náðum við aðeins að kíkja í búðir, við erum reyndar ekkert sérstaklega áhugasamir um það en fyrst allt er svona ódýrt en samt vönduð og fín vara keypti ég sitt lítið að hverju á litlu fjölskylduna mína. Svo vorum við samferða Davíð heim sem mætti bara í jakkafötunum sínum til Vilnius (ekki kjólfötunum eins og maður er vanur að sjá hann) og með fartölvuna sína, engan annan farangur. Þetta var virkilega inspírerandi ferð og ég get ekki beðið eftir að koma aftur í sumar með kórinn.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

úúú
ég vona að mér verði batnað í röddinni svo ég geti komið með

Maggi sagði...

Eins gott maður!

Hlínza sagði...

Hljómar mjög svo spennandi. Hlakka ýkt mikið til :) sérstaklega ef það er svona ódýrt að versla. Fáum við ekki örugglega smá frítíma til að shop shop shopppa :)

Nafnlaus sagði...

Maggi minn!
Vantar ekkert í sópraninn í kórinn svo ég geti komið með ...
kv. Elma

Maggi sagði...

Jú komdu endilega með.
Það verður líka örugglega hægt að versla eitthvað.