sunnudagur, desember 19, 2004

Svei mér þá. Tónleikarnir í gærkvöldi gengu barasta mjög vel og það mætti fullt af fólki. Þar með steinþögnuðu allar gagnrýnisraddir um að tónleikarnir væru of seint og sumir voru að pæla í að hafa fleiri viðburði svona seint. En ég er allavega útfaðmaður eftir þetta. Ég hafði reyndar áhyggjur af því að æfingin á fimmtudaginn gekk einum of vel en sem betur fer var æfingin rétt fyrir tónleikana með hljóðfæraleikurunum alveg hræðileg, kórinn féll nokkrum sinnum á viðkvæmum stöðum og organistinn var með svo ómöguleg tempó og registreraði frekar asnalega. En svo náðum við að laga það vandamál á síðustu stundu og kórinn hélt sínu striki. Skemmtilegast var eiginlega að það byrjaði að snjóa á meðan við sungum, en það hefur verið alveg snjólaust hér í nokkrar vikur þannig að það var mjög jólalegt þegar maður kom út úr kirkjunni.

Tónleikarnir í Adolf Fredriks kirkjunni gengu líka mjög vel og voru vel sóttir en voru full langir. Það voru alveg rosalega mörg verk og kórstjórinn var hálf stressaður á milli laga til að þetta yrði ekki of langt. Það fór líka sem mig grunti að lagið hennar Báru sló í gegn þótt kórinn hafi verið í þvílíku basli með allan þennan íslenska texta. Ég þarf að fara að athuga hvort hún hafi ekki látið þýða þetta á annað tungumál. Þetta er eiginlega of hár þröskuldur fyrir marga kóra. Ég unnið með kórverk á öllum norðulandatungumálunum, ensku, frönsku, eistnesku, ítölsku og mörgum slavneskum tungumálum en aldrei lent í eins miklum vandræðum eins og með íslensku. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem fólki finnst svona erfitt.

Við hjónin fórum áðan í jólagjafaleiðangur og því miður entist ég bara í hálftíma áður en ég varð ógeðslega þreyttur. En við komum heim með nokkra poka og nú liggur Habbidu sofandi í sófanum og Skrámur búinn að klessa sér upp við hana. Þau eru ótrúlega sæt saman.
Kem heim á miðvikudaginn og verð í eina viku.

Engin ummæli: