föstudagur, desember 17, 2004

Haldiði að það hafi ekki verið keyrt á eiginkonuna mína í morgun!
Hún var sem sagt að hjóla til að ná lestinni og þá tók bíll af stað í regninu til að beygja á gatnamótum og keyrði á framhjólið hennar. Hún datt sem betur fer ekki og við höldum að það hafi ekkert komið fyrir nema að hjólið beyglaðist. Sem betur fer vinnur hún á spítala þannig að það var hægt að tékka á henni strax. Eins gott að jólasveinninn færi henni eitthvað gott í bleika inniskóinn hennar sem liggur í gluggakistunni.

Á morgun eru kórtónleikar. Annars vegar með Mikaeli kammerkórnum kl. 16. Þar á meðal annars að syngja "Eg vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur sem ég benti kórstjóranum á og allir elska. Hins vegar er ég að stjórna kórnum mínum kl. 22. Ég er mjög ánægður með kórinn og þau hljóma vel í kirkjunni (sem er með mjúkan og fínan hljómburð). Þau eru mjög vel undirbúin og rosalega einbeitt. Nú er bara að vona að það komi fólk á tónleikana. Allir reka upp stór augu þegar þeir heyra að tónleikarnir eigi að vera svona seint. Ég hef bent á að ég hef oft gert þetta í Gautaborg og Reykjavík. Ég held meira að segja um daginn hafi Óperukórinn flutt sálumessu Mozarts kl. eitt um nóttina.

Engin ummæli: