þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Í kvöld voru tónleikar með tveimur listamannapörum í kirkjunni minni. Annars vegar Benneth Fagerlund og Evabritt Sandgren og hins vegar Plura og Carla Jonsson. Þau eru öll fræg hér í Svíþjóð. Ég þekkti náttúrlega ekkert til þeirra. Ég hitti Benneth fyrir tónleikana en Plura og Carla höfðu skilið gítarana sína eftir og farið út að borða. Svo þurfti ég að fara á fund og kom aftur korter fyrir tónleikana til að tala við þau öll og þá hitti ég Benneth og Evabritt og svo voru tveir gítaristar sem ég gerði ráð fyrir að myndu spila undir hjá Plura og Carla sem voru ekki þarna. Ég kynnti tónleikana og bauð Benneth og Evabritt velkomin og fór svo upp að hlusta. Þau voru með mjög skemmtilegt prógram í ca. hálftíma og svo var komið að hinu dúóinu. Þá komu út gítaristarnir tveir, báðir nokkuð þybbnir með sítt að aftan og byrjuðu að spila og syngja. En ekkert bólaði á Plura og Carla. Þá áttaði ég mig á því. Plura og Carla voru þessir tveir miðaldra karlar. Ég var alveg handviss um að þetta væru tvær stelpur. Hvaða karlmaður heitir Plura, hvað þá Carla? Sem betur fer er sænskan þannig að það kom ekki fram í kynningu minni að ég hélt að þeir væru stelpur.

Ég fékk nýtt leikfang um daginn. Ipod mini. Það rýmir 4 gígabæt af tónlist. Ég er búinn að hlaða inn ca 10 sinfóníum, tveimur óperum, nokkrum heilum kórverkum, ca. 6 stand up show og ég veit ekki hvað mikið af öðrum diskum en hef samt ekki náð að fylla minnið. Þetta er alveg frábært tæki en það eina sem ég er ekki ánægður með er að rafhlaðan dugar ekkert svakalega lengi. Ég þarf eiginlega að hlaða hana daglega. En ég alveg elska þessar Apple vörur. Svo kom þetta í alveg svakalega flottum kassa. Híhíhí.

Engin ummæli: