mánudagur, nóvember 08, 2004

Jæja, þar kom að því. Ég talaði óvart sænsku við Hrafnhildi. Það var í miðri messu og ég var að hvísla að henni til að biðja hana um að hjálpa mér við að fletta í eftirspilinu og skildi ekki af hverju hún fór að hlæja. Svo fer það að verða algengara að við spurjum hvort annað hvað hitt og þetta heiti aftur á íslensku. Og stundum koma bara sænsk orð hér og þar.

Það voru sænskir vinir okkar í heimsókn á laugardaginn og það var svo fyndið þegar þau fóru að tala um sænska grínmynd sem heitir Torsk på Tallinn og þau fóru að skellihlæja án þess að ná að útskýra eitt eða neitt. Við höfum ekki séð myndina og gátum ekki gert neitt annað en að hlæja að þeim þar sem þau hlógu. Það væri ábyggilega sama upp á tengingnum ef við færum að tala um Stellu í orlofi. Það er öðruvísi þegar Ingibjörg fær sín hlátursköst. Þá gildir bara að bíða þolinmóður eftir að hún nái andanum (bókstaflega) því þegar hún nær að útskýra hvað er svona fyndið þá er það alltaf ógeðslega fyndið.

Núna um helgina var heilmikil spilamennska í tilefni allra heilagra messu. Ég fékk samstarfskonu Hrafnhildar til að syngja við þrjár athafnir og svo hélt ég orgeltónleika sem voru ágætlega sóttir og vel tekið. Ég endaði á Adagio eftir Albinoni sem er náttúrlega búið að spila allt of oft og ég var mjög efins hvort ég ætti að spila það yfir höfuð en það er bara eitthvað við þetta verk. Ég táraðist allavegna þegar ég spilaði það. En það er mikil kúnst að flytja verk sem eru svona þekkt. Ég man eftir að hafa verið á sinfóníutónleikum þar sem meðal annars átti að flytja Bolero eftir Ravel en ég var orðinn ansi þreyttur á því og spenntastur fyrir forleik eftir Beethoven. En flutningurinn var bara svo góður og allir svakalega hrifnir.

Engin ummæli: