laugardagur, maí 03, 2008

Strax komin gagnrýni í Mogganum

Laugardaginn 3. maí, 2008 - Tónlist
TÓNLIST - Seltjarnarneskirkja

Enn í fremstu röð

Kórtónleikar****-

Íslenzk og erlend kórverk. Sönghópurinn Hljómeyki. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson. Fimmtudaginn 1. maí kl. 20.

VORTÓNLEIKAR Hljómeykis fóru fram í hinni söngvænu skátenungslaga Seltjarnarneskirkju á fimmtudag við góða aðsókn, þrátt fyrir heiðskírt veður og sameinaðan uppstigningardag og hátíð verkalýðsins. 14 liða dagskráin var geysifjölbreytt og flíkaði erlendum og innlendum kórverkum í hlutfallinu 2:1.

Ýtt var úr vör með Vorkvæði um Ísland frá 1994 (Jón Nordal / Jón Óskar), og tóku við Kung Liljekonvalje Wikanders, Ecco mormorar Monteverdis og La blanche neige eftir Poulenc. Öll prýðilega sungin, og þó að flúrað lagferli síðendurreisnarmadrígalsins væri frekar lint, stafaði sleipan neonþokka af Parísarlaginu er minnti í stíl á neðarskráðan Villette.

Síðan var frumflutt Oft fellur sjór yfir hlunna eftir kórfélagann Hildigunni Rúnarsdóttur við íslenzka þjóðvísu með fylgiraddarsellóleik Önnu Tryggvadóttur. Frekar stutt verk [4'] en andrúmsríkt, hjúpað lágvært dúndimmum mollblæ og náttúruljóðrænni undiröldu. Hið umfangsmikla [10'] og kröfuharða nútímaverk Skotans James Macmillans, Child's Prayer, var víða skemmtilega frumlegt og bryddaði upp á margs konar áferð, m.a. frá tveim dáfögrum spezzati sópraneinsöngvurum ofan af kirkjusvölum, og myndaði jafnframt fyrsta hápunkt dagskrár í gríðarlega vel heppnuðum flutningi. Átti það einnig við Salve Regina, seiðandi latneskuleitan Maríuhelgisöng Lars Janssons (radds. Gunnars Erikssons) við snemmmiðalda sálmtexta, er endurfluttur var í tónleikalok.

Maríukvæði Atla Heimis við texta Kiljans túlkaði Hljómeyki af frábæru látleysi, og metsölukórverk Báru Grímsdóttur, Ég vil lofa eina þá er öðrum fremur hefur kennt landanum að meta fimmskiptan takt, rann sömuleiðis óaðfinnanlega niður. Eftir aflþrungið hómófónískt Ave Maria Bruckners kom sannkölluð norræn nútímaperla Tronds Kverno Ave Maris Stella í álíka fjölbreyttri áferð og Child's Prayer og borin uppi af hnitmiðaðri og nánast lýtalausri túlkun. Djasskrómað hljómferli einkenndi síðan nærri poppkennt ákall Pierres Villettes til helgrar meyjar, Hymne a la Vierge, áður en tveir ægifagrir þættir úr Náttsöngvum Rakhmaninoffs Op. 37 settu tónleikunum tignarlegan grísk-orþódoxan lokapunkt.

Aldarþriðjungsgamalt Hljómeykið er líklega elzti enn starfandi kammerkór landsins og sá fyrsti sem nálgaðist atvinnumennskustaðal. En þó að samkeppnin væri kannski takmörkuð fram að lokum síðustu aldar, hefur framboðið síðan margfaldazt. Er því ánægjulegt að sjá að kórinn hefur náð að mæta því með það áþreifanlegum gæðum að hann telst enn óhikað í fremstu röð. Og þó aðeins sé tilgreint eitt af mörgu, þá var vissulega bragð að jafnóvenjulegu raddhlutfali og 11 konum á móti 12 körlum – miðað við þá karlaeklu sem enn stendur flestum blönduðum kórum landsins fyrir þrifum.

Ríkarður Ö. Pálsson

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jú, þetta er nánast lýtalaus gagnrýni hjá honum Ríkarði. Ég er allavega sammála um að þetta voru frábærir tónleikar. Takk innilega fyrir mig og þetta verða "douze point" ef ég þekki þá rétt í Frans.
Markús