Altso vinnan...
Það gengur bara svaka vel. Þ.e.a.s. mér gengur vel og ég held að flestir séu ánægðir með mig þarna, bæði samstarfsfólkið og safnaðarmeðlimir.
Eftir atvinnuviðtalið í sumar var ég nokkuð viss um að ég hefði verið ráðinn út af kórstjórnarhæfileikunum. Sú sem hafði hvað mest um þetta að segja er nokkurs konar skrifstofustjóri og syngur í kórnum. Hún hefur lýst því yfir að hún og kórinn sé mjög ánægð með mig.
En svo finn ég að sóknarpresturinn bindur vonir við að ég sé duglegur að halda tónleika. Það var nefnilega fyrir nokkrum árum organisti sem var menntaður hljómsveitarstjóri og þá blómstraði tónlistarlífið í kirkjunni. Ég man núna að í viðtalinu talaði presturinn um hvað hann var impóneraður með alla tónleikunum sem ég hafði haldið.
Svo finn ég að þau sem sjá um æskulýðsstarfsemina binda miklar vonir við mig. Þau eru alltaf að vitna í það sem ég skrifaði í umsóknina um að ég hafi verið í hljómsveit sem notaði meðal annars leikfangahljóðfæri.
Mér finnst hins vegar sumt ganga ansi hægt. Það vinna ca. 15 manns við söfnuðinn (ekki allir 100%) en yfirleitt tekur það voða langan tíma að gera eitthvað. Þetta er óttalega eitthvað sænskt. Mér finnst heimasíðan frekar misheppnuð og lítið af upplýsingum á henni. Ég spurði hvort ég gæti ekki séð um tónlistarhlutann sjálfur og þá fékk ég svarið: "En það eru tvær sem sjá um heimasíðuna" (önnur þeirra kann ósköp lítið á tölvur). Þegar ég spurði hvort ég gæti ekki bara séð um tónlistarhlutann fékk ég þetta týpíska sænska svar: "Já en hugsaðu þér, Magnús, ef allir starfsmenn gætu farið inn á heimasíðuna og gert bara hvað sem er..."
Ég fékk aðra tölvukonuna til að gefa mér notendanafn og leyniorð fyrir heimasíðuna. Ég gerði þetta á meðan skrifstofustjórinn er í burtu. Það verður athyglisvert að sjá hvað hún segir þegar hún kemur til baka.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli