Nú er Hrafnhildur formlega búin að fá vinnuna. Það var hringt í hana í gær og um leið fóru fram einhverjar fyndnustu samningaviðræður:
Hann: Hvað vildurðu fá í laun?
Hún: Svona mikið.
Hann: Já, það er ekkert mál. Ég var til í að láta þig fá aðeins meira.
Hún: Viltu þá ekki bara láta mig hafa ennþá meira en það?
Hann: Jú, jú. Eigum við ekki bara að segja það.
Þannig að nú verður Habbidu með 50 sænskum krónum meira en ég á mánuði.
Við vorum reyndar að hugsa um að drýgja tekjurnar enn meira með því að bjóða upp á tölvuviðgerðaþjónustu. Hún gat gert við Makkann um daginn þannig að maður kemst á netið og mér tókst að laga fartölvuna. Við vorum búin að reyna oft og báðum Eyjó að kíkja á þetta þegar hann var í mat hér um kvöldið en hann átti ekki til nógu mikið af fúkyrðum til að lýsa vanþóknun sinni á Microsoft. Hann sagði að við ættum bara að losa okkur við þetta Windows "drasl" og skipta yfir í Linux. Ég er sammála honum að mörgu leyti. Þetta virkar vel fyrstu mánuðina eftir að maður kaupir tölvuna en svo verður þetta alltaf flóknara þyngra í vöfum. Mér tókst sem sagt að gera við tölvuna með því að fylgja einum af mjög mörgum leiðbeiningum á netinu. Lengi lifi Macintosh sem var miklu auðveldara að gera við (þá sjaldan eitthvað bjátaði á)!
Fórum að sjá The Ladykillers (nýjustu mynd Cohen bræðra) í gær og fannst hún alveg ágæt. Hún byrjaði frekar rólega en átti góðan lokasprett. Við sáum líka Intolarable cruelty (eða hvernig sem maður stafar það nú) um daginn en hún var ekki nógu góð. Þeir eru eitthvað búnir að tapa fluginu. Í fyrra sá ég The man that wasn't there og hún var vel gerð, fín saga en heillaði mig ekki eins og fyrri myndirnar gerðu. Það eru myndir sem maður nýtur að horfa á aftur og aftur.
Við komum heim á fimmtudaginn (8. júlí) um kvöldið og förum aftur föstudaginn 20. ágúst. Hægt er að bóka viðtalstíma á þriðjudögum milli kl. 8.15 og 8.37.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli