Ég var að koma heim í gær frá Frakklandi með Hljómeyki. Við fórum til Parísar á miðvikudaginn og röltum þar um og drukkum bjór sem var töluvert dýrari en á Íslandi! Á fimmtudaginn fórum við í gönguferð með Kristínu Parísardömu og sungum svo á tónleikum um kvöldið sem heppnuðust mjög vel. Svo var aftur sötrað smá um kvöldið.
Á föstudaginn tókum við hraðlest til Tours til að taka þátt í Florilège Vocal de Tours. Við tókum þátt í tveimur flokkum og þurftum því að syngja tvisvar á föstudeginum í undanúrslitum á sitt hvorum staðnum. Hljómburðurinn var frekar þurr og það var dálítið stress í hópnum þegar við sungum fyrst. Ekki bætti úr skák að lýsingin var svo sterk að enginn sá neitt út í sal og sumir áttu í vandræðum með að sjá mig. En þetta gekk vel og enn betur í seinna skiptið um kvöldið. Ég hafði sagt fyrir ferðina að ég yrði alveg sáttur við að komast ekki í verðlaunasæti en yrði mjög dapur ef við kæmumst ekki í úrslitin. Ég áttaði mig á því þarna á föstudeginum að það var ekkert svo sjálfsagt að komast áfram. Það voru margir mjög góðir kórar þarna sem og frábærir kórstjórar og standardinn á keppninni var mjög hár. Til marks um það voru þó nokkrir útsendarar frá öðrum keppnum að reyna að lokka okkur til þeirra.
Skrefin að leikhúsinu á föstudagskvöldið voru mér ansi þung. Ég var að fara að komast að því hvort við kæmumst í úrslitin eða ekki. Ég var meira taugaóstyrkur heldur en þegar við vorum að keppa. Sem betur fer komumst við áfram á báðum flokkum. Fljótlega fór mórallinn í kórnum að breytast úr hlédrægni og óöryggi yfir í sjálfsöruggi. Á laugardaginn sungum við tvisvar og okkur fannst það ganga æðislega vel. Það skapaðist svo sérstök og góð stemning. Væntingarnar í kórnum stigu með hverjum klukkutímanum eftir því sem leið á daginn og þegar kom að því að tilkynna hvaða kórar kæmust áfram í keppnina um besta kór keppninnar var spennan orðin mikil. Því miður vorum við ekki ein af þeim fjórum sem komust í þann flokk en ég hafði aldrei gert mér miklar vonir um það. Það leyndi sér samt ekki vonbrigðin hjá sumum kórfélögum.
Á sunnudaginn gat maður hlustað á þessa fjóra kóra keppa og séð hvað þeir voru allir á háum standard. Svo kom verðlaunaafhendingin. Hún var öll á frönsku og helmingurinn af kórstjórunum skildi ekki orð. Við þurftum allir að standa uppi á sviði og ég hallaði mér alltaf fram til þess hollenska til að biðja hann um að þýða fyrir mig. Áhorfendur skildu frekar lítið þar að auki, meira að segja Frakkarnir. En gleðifréttirnar voru þær að við urðum efst í flokki kammerkóra ásamt úkraínska kammerkórnum Khreschatyk. Það var dálítið merkilegt að í nokkrum flokkum voru ekki veitt fyrstu verðlaun og í flokki samkynja kóra (í þessu tilviki bara kvennakórar) voru engin verðlaun veitt.
Um kvöldið var svo móttaka í rosalega flottum sal í ráðhúsinu og þar gat ég gengið á milli dómnefndarmeðlima og fengið athugasemdir frá þeim. Sumir voru reyndar farnir heim en ég náði að tala við fimm. Allir töluðu þeir um hvað hljómurinn í kórnum væri fallegur og túlkunin fín og hrósuðu mér sem kórstjóra. Tveir þeirra tóku reyndar strax fram að ég hefði verið einn af bestu kórstjórum keppninnar. Ég var í mestu vandræðum með að svara því enda hef ég alltaf átt erfitt með að taka hrósi. Það sem var sett út á var sameiginlegt með fleiri kórum að hljómurinn hefði þurft að vera breytilegri eftir stílum, tímabilum og tungumáli. Einum fannst við of varkár á meðan aðrir sögðu að það hefði bara vantað herslumunin að við hefðum komist alla leið.
Seinna um kvöldið fórum við á veitingastað og við hlið okkar settist norski kórinn og við sungum Bogoroditse devó úr Náttsöngvum með þeim. Fyndið að íslenskur og norskur kór skuli syngja saman á rússneskur og það utanbókar. Svo tókum við saman Ubi caritas eftir Duruflé og ég tók undir með þeim þegar þeir sungu Så skimrande var aldrig havet og ræningjasönginn úr Ronju. Hinum megin í salnum var svissneski kórinn sem tók undir með okkur þegar við sungum To the mothers in Brazil og svo kom kórinn frá Lyon sem hafði fengið flest verðlaun og þar á meðal Grand prix verðlaunin og við gátum sungið með þeim La blanche neige eftir Poulenc og merkilegt nokk Kung liljekonvalje sem þeir kunnu af einhverjum ástæðum. Það voru tvær 22 ára selpur sem voru með okkur fyrir hönd keppninnar og þær báðu um að fá að syngja með okkur. Við tókum Amazing grace í röddum og írarnir og norðmennirnir tóku undir og önnur þeirra fór að gráta. Svo föðmuðum við þær við kveðjustund. Þetta var alveg rosalega skemmtileg ferð.
Annað kvöld (miðvikudag) í Háteigkirkju kl. 20.00, ætlum við að syngja aftur prógrammið sem við vorum með úti. Hér neðar á síðunni má sjá umfjöllun RÖP úr Mogganum um tónleikana sem við fluttum 1. maí. Allir að koma!
Fimmtudaginn 10. júlí flytjum við svo Náttsöngva Rakhmanínovs í Skálholtskirkju og frumflytjum missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson laugardaginn 12. júlí.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
úúú til hamingju!!! glæzilegt hjá ykkur! passaðirðu ekki örugglega að drekka eitt glas af Krug fyrir mig eins og ég var búin að panta að þú gerðir ef þið ynnuð ;)
ætla að reyna að komast á mið, er í upptökum í langholtskirkju en held að ég byrji ekki fyrr en upp úr 9, hvað eru tónleikarnir langir hjá ykkur?
Takk!
Frökkunum reyndist eitthvað erfitt að skilja okkur og ég fékk bara rauðvín. Tónleikarnir eru ca. klukkutíma langir. Þú laumast bara út í lokin. Það er í lagi mín vegna.
að SJÁLFSÖGÐU er búið að breyta upptökutímanum þannig að ég kemst ekki... grrrr
toitoi samt og sjáumst á fim :)
haha, hefði verið spes að reyna að fá Krug á bláa barnum, nógu erfitt reyndist að fá að panta :D
En þetta var bara æði!
Hjartanlega til hamingju :O)
Skrifa ummæli