laugardagur, mars 19, 2005
Ég er búinn að fá nóg af inntökuprófum. Prófin hérna í Stokkhólmi gengu reyndar vel. Ég veit ekki hversu margir sóttu um en við vorum tíu sem fengu að taka próf og eftir fyrsta prófið vorum við fimm sem voru valin til að halda áfram. Það var voða gaman en hins vegar leið mér alls ekki vel í þessum skóla. þetta er í þriðja skiptið sem ég er þarna. Fyrsta skiptið var þegar ég sótti um organistanámið og þá lá Pabbi fyrir dauðanum og dó tæpum tveimur vikum síðar. Svo var ég þarna í fyrra og það voru mikil vonbrigði að komast ekki inn þá. Þannig að það eru ekkert nema slæmar tilfinningar gagnvart þessum skóla. Ég hringdi í prófessorinn og sagði honum að ég væri hættur við og hann átti mjög erfitt með að trúa því. Hann sagði að það ætti að byggja nýjan skóla eftir nokkur ár og hvatti mig til að endurskoða ákvörðun mína þar sem ég hefði gert fínt próf en ég lagði ekki í að fara í svona stíft og erfitt nám þegar manni líður svona illa þarna. Ég veit svo sem ekkert hvort ég hefði komist inn en það er voða gott fyrir egóið að vera svona nálægt því.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli