sunnudagur, febrúar 20, 2005

Við vorum að bóka ferð til Tallinn í loka apríl. Þetta verður afmælisferð því ég verð þrítugur (da da da DAAAAMMMM). Ég var búinn að heita því að fara til Eystrasaltslandanna á meðan ég bý hér í Stokkhólmi og við fengum mjög ódýrt flug og ætlum að vera á voða fínu hóteli í staðinn. Vorum reyndar að spá í að fara til Barcelona en það var bara alls ekki svo ódýrt. Og svo dreymir okkur líka að fara til Króatíu en það var ekki í boði á neinu skikkanlegu verði fyrr en í sumar.
Sennilega mun ég fara til Sigmundar vinar míns sem er að læra í Oxford í byrjun apríl og svo ætlum við að vera við hjónavígslu Markúsar og Dóró í Suður-Frakklandi í lok júní. Og svo förum við auðvitað heim og gerum það sennilega í júlí. Þannig að það verður heilmikið ferðalag á okkur hjónunum.
Þegar ég fór í skólann um daginn til að ganga frá umsókninni mundi ég hvað þetta er leiðinleg bygging. Þetta er eins og Háskóli Íslands, alveg ferlega stofnanalegt. Mér leið alla vega ekki vel við að koma þarna inn. Maður er reyndar góðu vanur því skólinn í Gautaborg er alveg rosalega hlýlegur og þægilegt að vera þar. Ef ég kemst inn þá er það bara fínt en ég væri alveg eins til í að vera í Uppsölum. Við Hrafnhildur vorum þar fyrir tveimur árum og kunnum rosalega vel við okkur. Það sem kannski heillar mig mest er að ég gæti unnið með náminu. Það er dálítið erfitt að venja sig af því að vera á föstum launum. Þegar ég sagði Anders Eby frá Uppsölum um daginn kom einhver svipur á hann eins og honum þætti það ekki nógu fínt fyrir mig, en það gæti líka verið rígur á milli stofnana eða þá að hann vildi bara fá mig í deildina sína.

Engin ummæli: