fimmtudagur, desember 30, 2004

Ég átti að vera í fríi á gamlárskvöld en þarf nú skyndilega að spila. En mér finnst það allt í lagi því þetta er minningarathöfn vegna hamfaranna í Asíu. Svo er búið að lýsa yfir þjóðarsorg á nýársdag og sem betur fer var ég búinn að æfa kvartett til að syngja akkúrat þennan dag og tónlistin passa ágætlega.
Það er svo erfitt að átta sig á þessum hamförum. Maður skilur ekki að vatn geti verið svona stórhættulegt. Og þessar tölur yfir látna eru svo svakalegar að maður á erfitt með að trúa þeim. Ég held að þessi fyrstu áramót okkar í Svíþjóð verði frekar róleg.

Við hjónin erum sem sagt komin til baka til Svíþjóðar eftir stutt stopp yfir jólin á Íslandi. Það var alveg frábært. Ég vona að fólk hafi skilning á því að maður gat ekki hitt alla sem maður vildi.
Gleðilegt nýtt ár!

sunnudagur, desember 19, 2004

Svei mér þá. Tónleikarnir í gærkvöldi gengu barasta mjög vel og það mætti fullt af fólki. Þar með steinþögnuðu allar gagnrýnisraddir um að tónleikarnir væru of seint og sumir voru að pæla í að hafa fleiri viðburði svona seint. En ég er allavega útfaðmaður eftir þetta. Ég hafði reyndar áhyggjur af því að æfingin á fimmtudaginn gekk einum of vel en sem betur fer var æfingin rétt fyrir tónleikana með hljóðfæraleikurunum alveg hræðileg, kórinn féll nokkrum sinnum á viðkvæmum stöðum og organistinn var með svo ómöguleg tempó og registreraði frekar asnalega. En svo náðum við að laga það vandamál á síðustu stundu og kórinn hélt sínu striki. Skemmtilegast var eiginlega að það byrjaði að snjóa á meðan við sungum, en það hefur verið alveg snjólaust hér í nokkrar vikur þannig að það var mjög jólalegt þegar maður kom út úr kirkjunni.

Tónleikarnir í Adolf Fredriks kirkjunni gengu líka mjög vel og voru vel sóttir en voru full langir. Það voru alveg rosalega mörg verk og kórstjórinn var hálf stressaður á milli laga til að þetta yrði ekki of langt. Það fór líka sem mig grunti að lagið hennar Báru sló í gegn þótt kórinn hafi verið í þvílíku basli með allan þennan íslenska texta. Ég þarf að fara að athuga hvort hún hafi ekki látið þýða þetta á annað tungumál. Þetta er eiginlega of hár þröskuldur fyrir marga kóra. Ég unnið með kórverk á öllum norðulandatungumálunum, ensku, frönsku, eistnesku, ítölsku og mörgum slavneskum tungumálum en aldrei lent í eins miklum vandræðum eins og með íslensku. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem fólki finnst svona erfitt.

Við hjónin fórum áðan í jólagjafaleiðangur og því miður entist ég bara í hálftíma áður en ég varð ógeðslega þreyttur. En við komum heim með nokkra poka og nú liggur Habbidu sofandi í sófanum og Skrámur búinn að klessa sér upp við hana. Þau eru ótrúlega sæt saman.
Kem heim á miðvikudaginn og verð í eina viku.

föstudagur, desember 17, 2004

Haldiði að það hafi ekki verið keyrt á eiginkonuna mína í morgun!
Hún var sem sagt að hjóla til að ná lestinni og þá tók bíll af stað í regninu til að beygja á gatnamótum og keyrði á framhjólið hennar. Hún datt sem betur fer ekki og við höldum að það hafi ekkert komið fyrir nema að hjólið beyglaðist. Sem betur fer vinnur hún á spítala þannig að það var hægt að tékka á henni strax. Eins gott að jólasveinninn færi henni eitthvað gott í bleika inniskóinn hennar sem liggur í gluggakistunni.

Á morgun eru kórtónleikar. Annars vegar með Mikaeli kammerkórnum kl. 16. Þar á meðal annars að syngja "Eg vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur sem ég benti kórstjóranum á og allir elska. Hins vegar er ég að stjórna kórnum mínum kl. 22. Ég er mjög ánægður með kórinn og þau hljóma vel í kirkjunni (sem er með mjúkan og fínan hljómburð). Þau eru mjög vel undirbúin og rosalega einbeitt. Nú er bara að vona að það komi fólk á tónleikana. Allir reka upp stór augu þegar þeir heyra að tónleikarnir eigi að vera svona seint. Ég hef bent á að ég hef oft gert þetta í Gautaborg og Reykjavík. Ég held meira að segja um daginn hafi Óperukórinn flutt sálumessu Mozarts kl. eitt um nóttina.

laugardagur, desember 04, 2004

Vá hvað Kristján Jóhannsson er mikill hálfviti. Ég horfði á þennan Kastljósþátt eftir að Anna Dögg (sem er í heimsókn hjá okkur núna um helgina) benti okkur á hann og hefði ég verið á staðnum hefði ég glaður vilja kíla hann í magann þegar hann var hvað dónalegastur.
Þegar ég var í Kósý vorum við oft beðnir um að koma fram til styrktar einhverju sem við og gerðum. Stundum urðum við að segja nei og það var alltaf erfitt en ALDREI datt okkur í hug að fá borgað fyrir það. Við hefðum haft of mikið samviskubit hefðum við grætt á þessu. Ég skil alveg að þeir sem gefa vinnuna sína vilja kannski ekki þurfa að borga of mikið með þessu. Svo fer það alveg svakalega í taugarnar á okkur listamönnum þegar það er ætlast til að við gefum vinnuna okkar en það á að borga öllum öðrum. Það er mjög algengt viðhorf. En þessar upphæðir sem maður er að heyra eru gjörsamlega út í hött. Bæði finnst mér siðlaust af fólkinu að setja fram þessar kröfur og að tónleikahaldararnir gangist við þeim. Einna verst finnst mér þessi húsaleiga kirkjunnar. Þetta yrði ennþá meira hneiksli hér í Svíþjóð ef kirkjan ætlaði að græða á líknarmálefni. Maður verður mikið var við það þegar maður kemur heim til Íslands hvað kapítalisminn er alsráðandi. Sérstaklega tek ég eftir muninn á kirkjunum þar sem margar íslenskar kirkjur eru bara í pjúra viðskiptum, sérstaklega hvað varðar útleigu á húsnæði.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Gleðilega aðventu.
Það var voða gaman í dag. Var með messu þar sem bæði kórinn minn og kammerkórinn á staðnum sungu og það var voða gaman og þau sungu voða vel allir gasalega ánægðir. Svo dreif ég mig í Adolf Fredriks kirkjuna til að syngja á aðventutónleikum og þar var líka fullt af fólki að hlusta. Anders Eby sagði við mig að hann fattaði ekki af hverju fólk fer á tónleika á fyrsta í aðventu. Það kom greinilega í ljós á síðustu kóræfingu að þetta er ekki uppáhaldsdagurinn hans. Ég held að það sé vegna þess að hann þarf flytja svo mikið af þessum "skylduverkum" og svo voru þrír kórar, allir á sitthvorum staðnum, organleikari á öðrum og svo trompetleikarar og það þurfti að koreografera allt saman.
Ég bölvaði mér í sand og ösku þegar ég þurfti að rífa mig upp úr rúminu í gærmorgun. Ég var búinn að boða til auka kóræfingu sem átti að byrja klukkan tíu og vera til tvö. Ég ákvað þetta snemma í haust þegar það var svo gott veður en núna er snjór út um allt, erfitt að komast um og ég er alltaf svo þreyttur. En þegar ég var búinn að fara í sturtu og byrjaði að æfa þá var ég miklu hressari. Það sögðu reyndar margir í kórnum að ég hefði verið alveg óstöðvandi og fólkið alveg uppgefið um kvöldið.

Núna ætlum við hjónin að halda upp á eigin aðventu í kvöld með jólaköku og jólageisladiski.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Er þetta ekki týpískt íslenskt?
Alltaf þurfa Íslendingar að færa allt í aukana og reyna breiða sem mest úr sér.
Í síðasta tölublaði tímirits kirkjutónlistarmanna hér í Svíþjóð birtist gagnrýni um geisladiska þeirra kóra sem tóku þátt í norræna kirkjutónlistarmótinu í Árósum. Þar er fjallað um níu diska og í fyrsta sæti lendir Graduale Nobile og fær mjög góða gagnrýni. Það er skrifað að kórinn hafi heillað áheyrendur upp úr skónum með virtúósa flutningi af íslenskri nútímatónlist. Og þegar gagnrýnandinn hlustaði á diskinn stóðst hann allar væntingar og telur svo upp hvaða verk eru flutt.
Ég sendi Jónsa þessa gagnrýni um daginn og var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að þýða hana eða ekki en ég ákvað bara að senda hana nákvæmlega eins og hún stendur á sænsku. Ég fékk mjög stutt skilaboð til baka og hélt jafnvel að hann hefði ekki áhuga á þessu. En svo sá ég auglýsingu fyrir tónleika kórsins og fylgir gagnrýnin með og þar stendur að gagnrýnandinn hafi skrifað: "Geisladiskurinn, sem hafnar í efsta sæti listans, uppfyllir allt sem hægt er að fara fram á."
Hmmmmmm...... ekki alveg það sama.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Ég veit ekki af hverju en ég get ekki viðurkennt að fólk hafi vakið mig þegar það hringir í mig. Jafnvel þegar fólk hringir eldsnemma um morguninn eða jafnvel um miðja nótt eins og þegar ég vann á Hótel Sögu. Það er líka sama hvað ég þjálfa upp röddina áður en ég tala í símann þá virðist það ekki duga neitt því það er alltaf spurt: Guð, fyrirgefðu, var ég að vekja þig?.
Ég: "Ha..... nei, nei.... ég var (þögn, þögn, þögn) ég var alveg vakandi."
Klukkan sjö í morgun hringdi Eva sem vinnur með Hrafnhildi og auðvitað vakti hún mig en sem betur fer spurði hún ekkert heldur baðst bara afsökunar á að hafa vakið mig þannig að ég þurfti ekki að neita því.

Ég var líka extra þreyttur í gærkvöldi því það var langur dagur í gær. Messa um morguninn og svo æfingar allan daginn og fixa prógram og svoleiðis fyrir fyrstu kórtónleikana sem voru klukkan sex. Þeir heppnuðust svaka vel og voru mjög vel sóttir og allir obboðslega ánægðir, sérstaklega sóknarpresturinn (eða kirkjuhirðirinn eins og embættið heitir á sænsku). Kórinn söng barasta mjög vel og gerði ekki ein einustu mistök en mikið af tónlistinni var með endalaust mörgum endurtekningum. Ingibjörg spilaði á básúnuna, bæði með kórnum og svo með mér á orgelið, svo spilaði Robin, kolleginn minn, á píanó en hann er ferlega góður í svona djasspíanói. Svo var íslenskur kontrabassaleikari sem hefur starfað í Svíþjóð í 40 ár. Það er alveg ótrúlegt hvað einn kontrabassi gerir mikið fyrir heildarhljóminn.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Í kvöld voru tónleikar með tveimur listamannapörum í kirkjunni minni. Annars vegar Benneth Fagerlund og Evabritt Sandgren og hins vegar Plura og Carla Jonsson. Þau eru öll fræg hér í Svíþjóð. Ég þekkti náttúrlega ekkert til þeirra. Ég hitti Benneth fyrir tónleikana en Plura og Carla höfðu skilið gítarana sína eftir og farið út að borða. Svo þurfti ég að fara á fund og kom aftur korter fyrir tónleikana til að tala við þau öll og þá hitti ég Benneth og Evabritt og svo voru tveir gítaristar sem ég gerði ráð fyrir að myndu spila undir hjá Plura og Carla sem voru ekki þarna. Ég kynnti tónleikana og bauð Benneth og Evabritt velkomin og fór svo upp að hlusta. Þau voru með mjög skemmtilegt prógram í ca. hálftíma og svo var komið að hinu dúóinu. Þá komu út gítaristarnir tveir, báðir nokkuð þybbnir með sítt að aftan og byrjuðu að spila og syngja. En ekkert bólaði á Plura og Carla. Þá áttaði ég mig á því. Plura og Carla voru þessir tveir miðaldra karlar. Ég var alveg handviss um að þetta væru tvær stelpur. Hvaða karlmaður heitir Plura, hvað þá Carla? Sem betur fer er sænskan þannig að það kom ekki fram í kynningu minni að ég hélt að þeir væru stelpur.

Ég fékk nýtt leikfang um daginn. Ipod mini. Það rýmir 4 gígabæt af tónlist. Ég er búinn að hlaða inn ca 10 sinfóníum, tveimur óperum, nokkrum heilum kórverkum, ca. 6 stand up show og ég veit ekki hvað mikið af öðrum diskum en hef samt ekki náð að fylla minnið. Þetta er alveg frábært tæki en það eina sem ég er ekki ánægður með er að rafhlaðan dugar ekkert svakalega lengi. Ég þarf eiginlega að hlaða hana daglega. En ég alveg elska þessar Apple vörur. Svo kom þetta í alveg svakalega flottum kassa. Híhíhí.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Jæja, þar kom að því. Ég talaði óvart sænsku við Hrafnhildi. Það var í miðri messu og ég var að hvísla að henni til að biðja hana um að hjálpa mér við að fletta í eftirspilinu og skildi ekki af hverju hún fór að hlæja. Svo fer það að verða algengara að við spurjum hvort annað hvað hitt og þetta heiti aftur á íslensku. Og stundum koma bara sænsk orð hér og þar.

Það voru sænskir vinir okkar í heimsókn á laugardaginn og það var svo fyndið þegar þau fóru að tala um sænska grínmynd sem heitir Torsk på Tallinn og þau fóru að skellihlæja án þess að ná að útskýra eitt eða neitt. Við höfum ekki séð myndina og gátum ekki gert neitt annað en að hlæja að þeim þar sem þau hlógu. Það væri ábyggilega sama upp á tengingnum ef við færum að tala um Stellu í orlofi. Það er öðruvísi þegar Ingibjörg fær sín hlátursköst. Þá gildir bara að bíða þolinmóður eftir að hún nái andanum (bókstaflega) því þegar hún nær að útskýra hvað er svona fyndið þá er það alltaf ógeðslega fyndið.

Núna um helgina var heilmikil spilamennska í tilefni allra heilagra messu. Ég fékk samstarfskonu Hrafnhildar til að syngja við þrjár athafnir og svo hélt ég orgeltónleika sem voru ágætlega sóttir og vel tekið. Ég endaði á Adagio eftir Albinoni sem er náttúrlega búið að spila allt of oft og ég var mjög efins hvort ég ætti að spila það yfir höfuð en það er bara eitthvað við þetta verk. Ég táraðist allavegna þegar ég spilaði það. En það er mikil kúnst að flytja verk sem eru svona þekkt. Ég man eftir að hafa verið á sinfóníutónleikum þar sem meðal annars átti að flytja Bolero eftir Ravel en ég var orðinn ansi þreyttur á því og spenntastur fyrir forleik eftir Beethoven. En flutningurinn var bara svo góður og allir svakalega hrifnir.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Djö.....

mánudagur, nóvember 01, 2004

Fólk hringir í mig nokkrum sinnum í viku til að bjóða fram þjónustu sína eða biðja um að fá að halda tónleika í kirkjunni. En það er alveg týpískt að akkúrat það fólk sem mig vantar hefur ekki haft samband þannig að ég þarf að leita.

Svo hafa tveir umsboðsmenn haft samband við mig til að skipuleggja eigin tónleika með þekktum listamönnum. Annar umboðsmaðurinn er karlmaður og hinn kona og þau eru svo ólík. Maðurinn er mjög hress í símann og við höfum talast við ca. þrisvar og mér finnst mjög gott að vinna með honum því hann er ekkert að flækja hlutina að óþörfu og er mjög hnitmiðaður í öllu sem hann gerir.
Konan er mjög viðkunnanleg en ég hef hins vegar talað við ca. 9 sinnum því hún hefur áhyggjur af svo mörgu, og er alltaf að ítreka sömu spurningarnar sem ég er búinn að svara mörgum sinnum. Ég er nokkuð viss um að ef ég væri kona þá kynni ég betur við hana og þætti maðurinn einum of kærulaus. Þetta er eins og í umferðinni. Ef það væru bara karlar sem keyrðu þá gengi umferðin betur fyrir sig. Eins ef það væru bara konur í umferðinni. Ef ég t.d. vill hleypa manni inn í bílaröð þá grípur hann strax tækifærið og þakkar vonandi fyrir sig. En ef ég hleypi konu þá fæ ég þetta: ha... á ég... núna... en er það örugglega í lagi.... bíddu... á ég að halda áfram... altso núna... ok, ég fer þá bara....eða hvað?
og þetta er bara töf fyrir mig og ég verð pirraður. En ef ég væri kona þá myndi ég vita betur hvernig hún hugsar og þætti karlmenn óþarflega frekir. EKKI SAKA MIG UM AÐ VERA KARLREMBA. ÉG ER EINHVER MESTI JAFNRÉTTISSINNI SEM TIL ER!

Ég horfi oft á BBC World á morgnana þegar ég er heima á annað borð og þar er fréttaþulur sem les efnahagsfréttirnar. Það er gullfalleg indversk stelpa með alveg rosalega stór augu og glansandi varir. Vandamálið er bara að maður nær ALDREI um hvað hún er að tala. Sér í lagi þegar hún les upp nýjustu vísutölur með miklum tilþrifum með bros á vör.
Jæja Torfi. Það er bara að fara til London og leita hana uppi!

sunnudagur, október 24, 2004

Núna um helgina söng ég með Mikaeli kammerkórnum. Í gær vorum við í Uppsala og í dag í kirkjunni sem kórinn er tengdur við: Adolf Fredriks kirkjunni. Þetta er sem sagt kirkjan sem Anders Öhrwal starfaði við lengi lengi.
Þetta er fantagóður kór og stjórnandinn, Anders Eby, er einn sá fremsti hér í Svíþjóð og prófessor í kórstjórn við Kungliga Musikhögskolan. Mér finnst hann mjög góður, hann gerir miklar kröfur og er ansi strangur og yfirleitt í góðu skapi. Það var dáldið öðruvísi að vinna með honum miðað við Jan Yngve, stjórnanda Pro Musica í Gautaborg, sem gerir líka miklar kröfur en er alveg rosalega "næs." Maður var svo góðu vanur þannig að það voru ansi mikil viðbrigði þegar maður fékk svona strangan kórstjóra. En þeir ná báðir miklum árangri. Hrafnhildur kom að hlusta í dag og sagði alveg eins og mér finnst. Henni fannst Pro Musica hafa hlýjari hljóm Mikaeli syngja mjög nákvæmlega og tæknilega betri. Hún er með svo góðan tónlistarsmekk og það er svo gott að geta spurt hana álits.
Ég byrjaði reyndar í kórnum fyrir rúmum mánuði. Ég hringdi í Anders á mánudegi og hann spurði hvort ég gæti sungið fyrir seinna um kvöldið sem ég og gerði. Svo mætti ég á æfingu daginn eftir. Um helgina var æfingabúðir sem ég komst ekki í því það var of stuttur fyrirvari. Svo voru tónleikar á þriðjudeginum og ég kom bara til að hlusta þar sem ég hafði bara verið á einni æfingu og þetta var ekki beint auðvelt prógram. En Anders sagði að auðvitað ætti ég að syngja með. Þannig að ég söng með og það var nánast allt prima vista. þar að auki var ég ekki rétt klæddur. Allir karlarnir voru í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og bindi en ég var í gráum buxum, skóm sem voru ekki svartir, svörtum bol og svo fékk ég lánaðan svartan jakka. Ferlega óþægilegt.
Ég hafði reyndar sungið helmingin af verkunum áður en Anders vildi að ég syngi 1. bassa þar sem það var fullt í tenórnum. Það eru ca. 8 í hverri rödd. Það er ágætt að syngja bassa, miklu auðveldara en tenór og þægilegt að þurfa ekki að hita röddina eins mikið upp fyrir tónleika.
Það eru líka viðbrigði að í Pro Musica var ég nokkurs konar aðstoðarstjórnandi en það er heilmikil samkeppni á því sviði í þessum kór. Einn bassinn er að fara að stjórna útvarpskórnum, sem er atvinnukór, einn er á fyrsta ári í kórstjórn hjá Anders, einn ætlar að fara að læra kórstjórn í Uppsala eftir áramót og svo er einn á öðru ári hjá Anders og vann um daginn fyrstu verðlaun í alþjóðlegri kórstjórnarkeppni í Vín þar sem voru 75 þáttakendur. En Anders kom til mín í gær og vildi endilega hitta mig til að tala um íslenska tónlist og fá hjálp því kammerkór skólans ætlar að fara til Reykjavíkur í vor.

þriðjudagur, október 19, 2004

Irribirri.
Það er búið að vera frekar kalt eða almennt leiðinlegt veður. Það er ennþá kaldara hérna en í Gautaborg, kuldinn smýgur meira inn í gegnum fötin, en það er ekki eins mikið rok hér miðað við Gbg eða heima.
Ég var að lesa svo leiðinlega bók um hljómsveitarstjórnun. Hún er ógeðslega þykk og maður er svo lengi að lesa hverja blaðsíðu því að það er svo mikill texti á hverri síðu. Svo er hún skrifuð á svo háfleygri (eða ...fleygaðri) ensku. Höfundurinn notar orð eins og "meticulously" og "extraneous" og svo eru hver einasta málsgrein full af aukasetningum. Hérna er eitt dæmi:
"Moreover, early, exaggerated crescendos-especially if they are habitual and occur at every possible instance-distort the form and continuity of the music (most likely unbeknownst to the casual uninformed listener); and if done to excess, as is usually the case with such self-indulgent 'interpretations,' they tend to become repetitously tiresome, and the constant exaggerated and overdrawn effects eventually cancel each other out."
Mér var svo oft hugsað til Sir Humphrey í hinum frábæru þáttum Já ráðherra. Mér var líka kennt strax í grunnskólanum að maður á ekki að hafa of langar málsgreinar. Það verður svo leiðinlegt að lesa þær og erfitt að fylgjast með.
Fyrir utan þetta þá er höfundurinn svo langorður. Fyrstu tuttugu blaðsíðurnar hefði ég getað sagt með þremur línum. Ég er sammála honum í stórum dráttum en hann gengur svo langt. Ég las ca. hundrað blaðsíður áður en ég gafst upp.
Nú er ég að lesa margfalt betri bók um hljóðfærafræði, týpísk bandarísk kennslubók sem er svo auðvelt að lesa og er alls ekki að teygja lopann.
Í dag koma sófarnir sem við pöntuðum fyrir ca. 5 vikum og þá verður íbúðin loksins komin í stand, svo gott sem.

mánudagur, október 11, 2004

Hafi ég verið "hooked on" fjölmiðlamálinu þá veit ég ekki hvernig á að lýsa fíkn minni hvað varðar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum (eða BNA eins og fjölmiðlar eru að reyna að venja fólk á).
Á hverjum degi skoðar maður ruv.is, visir.is, mbl.is, newsweek.com og cnn.com, nokkrum sinnum á dag. Þetta er geysi spennandi. Auðvitað vonar maður að Kerry vinni, eða öllu heldur að Bush tapi. Það var athyglisverð skoðanakönnun birt um daginn þar sem kom í ljós að í langflestum löndum í heiminum myndi Bush skíttapa ef fólkið þar fengi að velja. Í mörgum löndum fengi hann minna en 10% fylgi. Í fyrra var birt könnun sem sýndi að Evrópubúar telja aðalógnina við heimsfriðinn vera George W. Bush, sem sagt ekki Saddam eða Usama heldur hann W.
Það var dáldið fyndið að sjá hvernig umræðan þróaðist eftir fyrstu kappræðurnar. Fyrst var sagt að þeir hefðu verið nokkuð jafnir þó Kerry hefði komið á óvart. Svo var sagt að fólki hefði þótt Kerry betri. Svo vann Kerry og núna er talað um að Bush hafi algjörlega klúðrað þessu. Þetta minnir mig á þegar ég fór á sinfóníutónleika með Mömmu. Í hléinu sögðum við að sólistinn hefði verið bara la la. Svo heyrði ég Mömmu segja að hún væri ekki hrifinn af honum, svo var hann alveg hryllilegur, eftir tónleikana sagði Mamma: "Veistu, ég er viss um að hann hafi verið fullur!"

sunnudagur, október 10, 2004

Altso vinnan...
Það gengur bara svaka vel. Þ.e.a.s. mér gengur vel og ég held að flestir séu ánægðir með mig þarna, bæði samstarfsfólkið og safnaðarmeðlimir.
Eftir atvinnuviðtalið í sumar var ég nokkuð viss um að ég hefði verið ráðinn út af kórstjórnarhæfileikunum. Sú sem hafði hvað mest um þetta að segja er nokkurs konar skrifstofustjóri og syngur í kórnum. Hún hefur lýst því yfir að hún og kórinn sé mjög ánægð með mig.
En svo finn ég að sóknarpresturinn bindur vonir við að ég sé duglegur að halda tónleika. Það var nefnilega fyrir nokkrum árum organisti sem var menntaður hljómsveitarstjóri og þá blómstraði tónlistarlífið í kirkjunni. Ég man núna að í viðtalinu talaði presturinn um hvað hann var impóneraður með alla tónleikunum sem ég hafði haldið.
Svo finn ég að þau sem sjá um æskulýðsstarfsemina binda miklar vonir við mig. Þau eru alltaf að vitna í það sem ég skrifaði í umsóknina um að ég hafi verið í hljómsveit sem notaði meðal annars leikfangahljóðfæri.
Mér finnst hins vegar sumt ganga ansi hægt. Það vinna ca. 15 manns við söfnuðinn (ekki allir 100%) en yfirleitt tekur það voða langan tíma að gera eitthvað. Þetta er óttalega eitthvað sænskt. Mér finnst heimasíðan frekar misheppnuð og lítið af upplýsingum á henni. Ég spurði hvort ég gæti ekki séð um tónlistarhlutann sjálfur og þá fékk ég svarið: "En það eru tvær sem sjá um heimasíðuna" (önnur þeirra kann ósköp lítið á tölvur). Þegar ég spurði hvort ég gæti ekki bara séð um tónlistarhlutann fékk ég þetta týpíska sænska svar: "Já en hugsaðu þér, Magnús, ef allir starfsmenn gætu farið inn á heimasíðuna og gert bara hvað sem er..."
Ég fékk aðra tölvukonuna til að gefa mér notendanafn og leyniorð fyrir heimasíðuna. Ég gerði þetta á meðan skrifstofustjórinn er í burtu. Það verður athyglisvert að sjá hvað hún segir þegar hún kemur til baka.

laugardagur, október 09, 2004

OK OK.
Það er dáldið langt síðan ég bloggaði síðast. Þrír mánuðir. En það hefur svo sem ekkert mikið gerst síðan síðast. Við fórum til Íslands, ég spilaði á tónleikum í Hallgrímskirkju sem tókust voða vel og voru vel sóttir. Við giftum okkur og það heppnaðist betur en við þorðum að vona. Fórum með nokkra Svía í ferðalag um landið og þeir áttu ekki orð og eru enn brosandi út að Eyrasundi. Við fórum aftur út, fluttum til Stokkhólms, byrjuðum að vinna og eigum nú allt í einu peninga sem við erum voða dugleg að eyða.
Þannig að þið sjáið að það hefur svo sem ekki verið ástæða til að blogga miðað við þessa gúrkutíð.

Best af öllu finnst mér að kalla Hrafnhildi konuna mína. Ennþá betra að kalla hana eiginkonuna mína. Henni gengur voða vel í vinnunni. Og að taka lestina fram og til baka á hverjum degi er ekki eins mikið mál og hún hélt.

Skrámur er búinn að taka flutningana í sátt. Hann var ekki par hrifinn til að byrja með en ég er búinn að komast að því að það tekur hann tvo sólarhringa að sætta sig við breyttar aðstæður.

Við erum himinlifandi yfir því hvað brúðkaupið tókst vel og þökkum við öllum þeim sem hjálpuðu okkur við þetta og gaman að heyra hvað fólk var ánægt og skemmti sér vel. Það má sjá nokkrar myndir af okkur á heimasíðu Jóhannes Long: www.ljosmyndarinn.is undir liðnum brúðkaup.

Maaaar bloggar meira seinna. Á morgun skal ég segja frá vinnunni.

mánudagur, júlí 05, 2004

Við erum búin að finna pössun fyrir Skrám. Ein gömul kona sem býr í blokkinni vill endilega passa hann. Hún er mikill dýravinur og ætlar að taka hann með sér í sumarhúsið sitt sem liggur við Vänern (stóra vatnið hér í Svíþjóð). Honum á eftir að líða svooo vel.

Nú er ég að hlusta á mjög góðan þátt hennar Indru á Rás 1 um Charles Ives. Hann verður endurtekinn á fimmtudagskvöld fyrir þá sem misstu af og svo held ég að þetta sé sería sem verður á hverjum mánudegi kl. 16.15 og fjallar um tónskáld í Bandaríkjunum (eða BNA eins og farið er að skrifa).

Nú erum við farin að hegða okkur eins og túristar hér í Gautaborg. Um dagin fórum við í "Pödduna" sem er bátur fyrir túrista. Í dag fórum við í bátasafnið sem eru nokkur skip og bátar sem maður fær að skoða. Það var mjög gaman að "skríða" um í kafbátinum en svo vorum við með mjög leiðinlegan leiðsögumann sem var mjög þvoglumæltur, sagði frekar lítið, talaði lágt og beið ekki eftir að allir voru komnir til að hlusta á hann. Svo ætluðum við í "Varalitinn" sem er háhýsi hér í borg til að fá okkur kaffihressingu og njóta útsýnisins en það var nýbúið að loka kaffihúsinu. Þá tókum við eftir nýju hverfi við höfnina sem sennilega hefur verið hannað og byggt fyrir 10 til 15 árum og átti að vera voða nýtískulegt og smart en er eitthvað hálf mis. Við vissum alla vega ekkert af þessu. Þarna voru svo nokkrir bátar með veitingastöðum sem voru ekkert spes nema einn kínverskur sem var mjög flottur að utan alla vega.

Kem bráðum heim.

laugardagur, júlí 03, 2004

Ég var á tónleikum með karlakórnum Chanticleer frá San Fransisco og þvílíkt og annað eins. Þetta er einhverjir bestu tónleikar sem ég hef upplifað. Þeir eru 12 og syngja blandað (eins og Kings Singers nema hvað að þeir eru fleiri) og þeir sungu svo vel, tandurhreint og músíkalskt. Þá sárasjaldan að eitthvað var mögulega falskt þá heyrði maður það undir eins því allt annað var svo vel intónerað. Svo var svo gaman að þeir sungu án stjórnanda og fylgdust mjög vel hver með öðrum, skiptust á að gefa tóninn og að kynna prógrammið sem var ekki af verri endanum, allt frá endurreisnartónlist, hárómantík, nútímastykki og barbershop. Þeir tóku meðal annars Duke Ellington lag sem Komedian harmonist sungu og gerðu það mun betur en orginalið.
Hafi einhver möguleika á að heyra í þeim nokkurs staðar mæli ég eindregið með þeim. Þeir eru frábærir á tónleikum. Það eina sem ég hef út á þá að setja var að á stundum var þetta einum of fullkomið, aðallega hvernig þeir kóreógraferuðu uppstillingarnar. Meiri upplýsingar um kórinn á heimasíðu þeirra www.chanticleer.org

Ég var að ljúka við að semja brúðarmarsinn fyrir Hrafnhildi og er bara nokkuð ánægður með það stykki. Þegar ég var búinn að fá hugmyndina að verkinu þá var bara að púsla því saman. Það er eins og það hafi verið tilbúið og bara verið mitt að nálgast það. Ég ætlaði að hafa það í H-dúr (fyrir Hrafnhildi) en þegar ég raulaði það þá lenti ég alltaf í B-dúr. Svo þegar ég var búinn þá sá ég að ég hafði samið það í gamalli kirkjutóntegund (B-mixólýdísk) án þess að það hafið verið meiningin.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Nú er Hrafnhildur formlega búin að fá vinnuna. Það var hringt í hana í gær og um leið fóru fram einhverjar fyndnustu samningaviðræður:
Hann: Hvað vildurðu fá í laun?
Hún: Svona mikið.
Hann: Já, það er ekkert mál. Ég var til í að láta þig fá aðeins meira.
Hún: Viltu þá ekki bara láta mig hafa ennþá meira en það?
Hann: Jú, jú. Eigum við ekki bara að segja það.

Þannig að nú verður Habbidu með 50 sænskum krónum meira en ég á mánuði.
Við vorum reyndar að hugsa um að drýgja tekjurnar enn meira með því að bjóða upp á tölvuviðgerðaþjónustu. Hún gat gert við Makkann um daginn þannig að maður kemst á netið og mér tókst að laga fartölvuna. Við vorum búin að reyna oft og báðum Eyjó að kíkja á þetta þegar hann var í mat hér um kvöldið en hann átti ekki til nógu mikið af fúkyrðum til að lýsa vanþóknun sinni á Microsoft. Hann sagði að við ættum bara að losa okkur við þetta Windows "drasl" og skipta yfir í Linux. Ég er sammála honum að mörgu leyti. Þetta virkar vel fyrstu mánuðina eftir að maður kaupir tölvuna en svo verður þetta alltaf flóknara þyngra í vöfum. Mér tókst sem sagt að gera við tölvuna með því að fylgja einum af mjög mörgum leiðbeiningum á netinu. Lengi lifi Macintosh sem var miklu auðveldara að gera við (þá sjaldan eitthvað bjátaði á)!

Fórum að sjá The Ladykillers (nýjustu mynd Cohen bræðra) í gær og fannst hún alveg ágæt. Hún byrjaði frekar rólega en átti góðan lokasprett. Við sáum líka Intolarable cruelty (eða hvernig sem maður stafar það nú) um daginn en hún var ekki nógu góð. Þeir eru eitthvað búnir að tapa fluginu. Í fyrra sá ég The man that wasn't there og hún var vel gerð, fín saga en heillaði mig ekki eins og fyrri myndirnar gerðu. Það eru myndir sem maður nýtur að horfa á aftur og aftur.

Við komum heim á fimmtudaginn (8. júlí) um kvöldið og förum aftur föstudaginn 20. ágúst. Hægt er að bóka viðtalstíma á þriðjudögum milli kl. 8.15 og 8.37.

sunnudagur, júní 27, 2004

Hrafnhildur kemur mér sífellt á óvart þessa dagana. Hún er svo róleg út af íbúðaskiptunum. Ég var búinn að vera heima í klukkutíma á fimmtudaginn þegar hún sagði: Æ já. Alveg rétt. Anna J hringdi áðan og sagði að íbúðin í Stokkhólmi væri bara fín. Fínt umhverfi og svona. What ever!"
Svo er hún farin að horfa dáldið á íþróttir.
Svo viðurkenndi hún í gær að henni þætti gaman að einu djasslagi sem ég var að spila (Lullaby of Birdland með Sarah Vaughan). Hún sem er ekkert fyrir djass.
Og þegar ég kom heim um daginn var hún búin að gera við Makkann þannig að maður gat farið á internetið á honum. Hvað er að gerast?

Eins og margir vita hef ég alla tíð verið mikill Macintosh aðdáandi. Þetta eru frábærar tölvur. Ég lét undan þrýstingi í haust og samþykkti að keypt yrði PC. Það er reyndar ágætis tölva. Það er Compaq fartölva en núna er hún eitthvað að stríða okkur því það er ekki hægt að uppfæra neitt af windowsforritunum, og sum virka bara ekki neitt. Þetta er ábyggilega einhver vírus en við höfum þurft að berjast við vírusa við og við. Það var aldrei neitt vandamál með Makkann. Og svo var það yfirleitt þannig að maður gat gert sjálfur við vandamálin ef þau komu upp eins og Hrafnhildur um daginn. En það sem PC hefur fram yfir er að það eru til fleiri forrit hönnuð fyrir þær og margt á netinu passar bara í Windows.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Hvað er eiginlega að Bandaríkjamönnum. Er í lagi að varpa flugskeyti á íbúðarhús og drepa fullt af óbreyttum borgurum bara af því að það hafi leikið sterkur grunur um að vopnasali hafi verið í húsinu. Er sem sagt í lagi að fórna saklausum Írökum. Og jafnvel þó svo þeir hafi verið vissir í sinni sök er þá í lagi að taka vopnasala af lífi án dóms og laga.
Ég sá myndbandsupptöku um daginn sem tekin var úr herþyrlu. Þar var fylgst með þremur mönnum í eyðimörkinni í Írak um nótt þar sem þeir voru að kasta einhverju frá sér bak við hól. Þetta var næturupptaka og því ekki hægt að sjá hvað þeir voru að losa sig við eða fela en maður heyrði í talstöðinni skilaboð frá yfirboðara um að skjóta á þessa menn þar sem þetta væri líklega vopn sem þeir voru að fela. Svo sá maður þegar þeir skutu þá úr þyrlunni. Þeir skutu tvo, sá þriðji faldi sig undir vörubíl en þyrlan skaut þar til þeir voru vissir um að hann væri dauður.
Það var ekki að sjá að hermönnunum stafaði bein ógn af þessum mönnum.

Það er erfitt að koma sér aftur af stað þegar maður slappar af á annað borð. Maður gerir eiginlega ekkert af viti. Ég hjólaði reyndar niður í bæ til að registrera fyrir austurrískan organista sem spilaði á hádegistónleikum í Hagakirkjunni. Það gekk vel hjá honum, og mér reyndar líka. Það ætti reyndar að kenna og samræma það hvernig skrifað er inn í nóturnar fyrir registrantinn. Það er hver með sitt system sem tekur yfirleitt nokkrar mínútur að átta sig á. Tónleikarnir byrjuðu með klukknahringingu og þá fór hundur eins tónleikagestsins að ýlfra svona svakalega hátt en hann hafði verið bundinn við staur fyrir utan (hundurinn altso).

Eins og maður var duglegur fram til loka maí þá gerir maður eiginlega rosalega lítið af viti núna. Maður þarf eiginlega að trekkja sig aftur upp smátt og smátt. Og svo þegar það er hangið svona mikið þá borðar maður meira, alltaf að narta í eitthvað.

Við ætlum að fara út úr bænum á föstudaginn með vinafólki. Þá er midsommar. það verður ábyggilega gaman. Svo er ég að spila í messu á sunnudaginn í Betlehemkirkjunni, sem er trúboðasöfnuður. Ég kann alltaf betur og betur við þá kirkju. Fyrst fannst mér ekkert varið í hana. Hún lítur út eins og hver önnur skrifstofubygging að utan en að innan er hún voða notaleg, með fínum hljómburði og ágætis orgeli. Ég spilaði þarna í fyrrasumar og safnaðarþátttakan (er ekki örugglega þrjú t í þessu orði) er mjög góð. Þetta er enginn sértrúarsöfnuður, tilheyrir bara ekki sænsku þjóðkirkjunni.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Nei þetta er nú einum of mikil tilviljun. 2-2 fyrir Danmörk og Svíþjóð. Akkúrat það sum þurfti til að báðar þjóðir kæmust áfram. Og svo skoruðu Ítalir ekki fyrr en á síðustu mínútunni til að láta Svíana halda að þeir þyrftu ekki að jafna. Svíar spiluðu ekkert sérstaklega vel en gaman að þeir skuli vera komnir áfram.

Í nótt var svo mikið þrumuveður og ég gat ekki sofnað. Í stað þess að telja kindur fór ég að reikna út hvað þruman væri langt í burtu. Ef hljóðið berst 340 metra á sekúndu og ljósið kemur nánast um leið (300 þús km á sek.) þá ætti hljóðið að taka ca. 3 sekúndur að berast einn kílómetra, ekki satt? Þannig að þegar það eru 27 sekúndur á milli eldingarinnar og þrumunnar þá er þruman (27/3=) 9 km í burtu.

Þetta svínvirkaði og ég varð heldur betur syfjaður og alveg að sofna þegar ég mundi hvað Þóra Marteins hafði sagt mér um að sjónvarpið hennar hefði eyðilagst í þrumuveðri þegar hún var nýflutt til Gautaborgar. Þar sem við eigum ansi gott sjónvarp sem Pabbi átti (það er ennþá Pabbalykt af því og fjarstýringunni) þá fór ég inn í stofu og tók það og tölvuna úr sambandi. Við þetta glaðvaknaði ég og hrökk svo í kút (hvað svo sem það nú þýðir) þegar ein eldingin lýsti upp stofuna. Það varð skyndilega svo svakalega bjart og þetta er mjög óhugnanleg birta. Hrafnhildur steinsvaf aldrei þessu vant þannig að það var bara að snúa sér aftur að reikningskúnstinni.

Fyrir rúmri viku var staðan þessi: Við vorum örugg með íbúð, Hrafnhildur nokkuð örugg með vinnu (svo framarlega sem enginn sæki um með mikla reynslu, umsóknarfresturinn rennur út 30. júní) og ég vissi ekkert hvort ég fengi vinnu yfirhöfuð.
Nú hefur þetta gjörsamlega snúist við. Ég er öruggur með vinnu, Hrafnhildur bíður eftir 30. júní og íbúðarmálin mjög óljós.

Sennilega ættum við að geta fengið íbúð í Haninge sem liggur aðeins sunnar en hin íbúðin, þ.e. nær minni vinnu en fjær Hrafnhildar. Það munar samt ekki svo miklu því við tökum sömu lestina eftir sem áður og það munar bara 5 mínútum. Við sem sagt fórum á skrifstofu leigusalans í morgun sem var nýbúinn að fá bréf frá Stokkhólmi um að konan væri hætt við skiptin. Maðurinn þar hefur vorkennt okkur svona mikið þ.a. hann hringdi til kollega sinna í Stokkh. og mælti með okkur. Anna J, vinkona Habbidar ætlar að kíkja á íbúðina á fimmtudaginn. Ef allt gengur upp flytjum við 1. sept.

mánudagur, júní 21, 2004

AAAAAAAAAAAAAAA
RRRRRRRRRRRRRRR
GGGGGGGGGGGGGGG
!!!!!!!!!!!!!!!

Hún er hætt við að flytja til Gautaborgar! Það eru bara tvær vikur þangað til við ætluðum að flytja og núna er hún hætt við allt saman. Byrja aftur á byrjunarreit. OHHHHHH ég hefði ekki átt að segja að þetta væri búið að reddast allt saman. Hún sagði að stelpurnar hennar vildu ekki flytja frá Stokkhólmi. Við erum búin að tala um þetta síðan í lok mars, þ.e. í þrjá mánuði. Af hverju gat hún ekki ákveðið sig fyrr. Ég var að tala við hana síðast á laugardaginn og þá sagði hún ekki neitt.
Nú erum við að pæla í að leita að íbúð í Södertälje, þar sem Hrafnhildur mun vinna. Það eru nokkrar íbúðir lausar þar. Þá mundi ég sennilega þurfa að fá mér bíl og keyra á milli. Það eru ca. 50 km til Nynäshamn. Svo tekur ca. 40 mín að fara með lestinni til miðbæjar Stokkhólms og hún fer á korters fresti.
Ég ætla að taka áhættuna og segja: Þetta reddast ábyggilega.

sunnudagur, júní 20, 2004

Skrámur bara sefur og sefur.
Hrafnhildur púslar og púslar
Ég er alltaf á netinu.
Svona líða dagarnir.
Við og við pökkum við einhverju niður.
Það eina sem eftir er að redda varðandi þessi íbúðaskipti er dagsetningin fyrir skiptin.
Ég sagði að þetta myndi reddast (sjá bloggfærslu 18 mars).

Á morgun ætla ég að hitta Lars Hernqvist (sá sem hefur verið praktík leiðbeinandinn minn). Hann ætlar að bjóða mér í hádegismat. Það er búið að vera fínt að vera hjá honum. Hann var ansi tregur að taka að sér nýjan praktikant enda hefur hann alveg ótrúlega mikið að gera. En svo þegar hann átti að hitta mig og Karin var hann allt í einu óður í að fá mig. Hann hafði víst hitt Jan Yngwe (kórstjórnarkennarann minn) á göngum skólans sem lofaði mig í hástert.
Það hefur ekki verið verra að vera þarna fyrir mig. Maður hefur haft þetta fína orgel nánast út af fyrir sig, fengið að fylgjast með mjög fjölbreyttu safnaðarstarfi og fengið góð ráð frá Lars. Það hefur líka verið ánægjulegt að ég hef oft getað hjálpað honum við mörg tækifæri, ýmist sem kórsöngvari, organisti eða stjórnandi. Þau voru líka imponeruð í atvinnuviðtölunum að maður hafi unnið svona mikið með Lars og fengið fín meðmæli frá honum, en hann er "þekkt nafn" í Svíþjóð.

Ég sagði honum um daginn að ég væri að fara í atvinnuviðtölin tvö og lýsti hvað mig langaði mikið í Trångsundstöðuna en hann hvatti mig til að taka Nynäshamn. Þegar ég talaði við hann nú á föstudaginn og sagði honum hvað gerst hafi lét hann mig vita að fyrir nokkru hefði þeir hringt frá Nynäshamn og spurt um mig og hann mælt eindregið með mér. Eftir á að hyggja finnst mér eins og þau hafi verið búin að ákveða að ráða mig áður en viðtalið byrjaði.

Það væri reyndar ekki í fyrsta skiptið. Ég man þegar ég fór í atvinnuviðtal á Hótel Sögu sagðist Karin móttökustjóri hafa ákveðið að ráða mig þegar hún hringdi í mig og fékk símsvarann þar sem ég söng einhverja vitleysu. Enda var þetta ekkert viðtal. Hún spurði mig eiginlega ekki að neinu heldur lýsti fyrir mér starfinu. Hinn móttökustjórinn, Friðrika, var ný í starfinu og einum of metnaðarfull enda var maður alveg grillaður í því viðtali.

Mér sýnist Habbidu alveg vera að fara klára púslið. Ég er nefnilega alltaf svo lengi að blogga. Og svo heyrir hún alltaf þegar ég er að því vegna þess að ég gef alltaf frá mér viss hljóð, t.d. smelli tungunni í góminn, það heyrist "hmmm" og svo lít ég upp í loftið og fleira. Þá kemur glott frá minni tilvonandi...

laugardagur, júní 19, 2004

Ohhhhh það er rigning. Og það á að vera rigning eins langt fram í tímann eins og menn þora að spá. Það var nefnilega svo gott veður hérna um daginn. Það kom með Indru og lauk þegar hún fór aftur. Geturðu ekki bara komið aftur kæra systir?

Við erum byrjuð að pakka niður. Það gengur ágætlega. Það eina sem á eftir að ganga upp varðandi þessi íbúðaskipti er dagsetningin. Formleg skipti verða 1. júlí en Daniella er að hugsa um að flytja þann þriðja. Þá er bara spurning hvort við megum senda hvort öðru lykil eða hvort við þurfum að skila inn öllum lyklum til leigusalans. Það fyrirtæki vill að við komum og skrifum undir og hlýðum á upplýsingafyrirlestur... bla, bla, bla. Við verðum að mæta sjálf. Ég bara nenni ekki að skjótast enn einu sinni fram og til baka til Stokkhólms bara út af þessu. Vonandi þurfum við ekki að gera þetta fyrr en við erum flutt inn.

Hérna er mynd af kirkjunni sem ég er að fara að vinna í. Hún stendur svo fallega í bænum og er víst kennileyti fyrir Nynäshamn.

Nú er heilinn á mér að sjóða yfir vegna þess að maður fær svo mikið af hugmyndum fyrir starfið.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Gleðilega þjóðhátíð elsku Íslendingar.

Suma daga finnst manni maður ekki geta neitt; skilur ekki af hverju maður er að standa í þessu tónlistarstandi. Er ekki bara best að fara að vinna á MacDonalds. Og aðra daga finnst manni eins og maður sé ósigrandi. Þessa dagana á síðari kosturinn við. Ég hringdi í Nynäshamn og spurði meira um starfið til að fá á hreint hvernig vinnuvikan gæti litið út. Það var sóknarnefndarfundur kvöldið áður þar sem formlega var samþykkt að bjóða mér vinnuna. Ég lét vita að hinir hefðu líka boðið mér vinnuna og þá smurði hún ofan á launin að fyrra bragði. Það var ágætt því ég kunni ekki við að fara fram á það fyrst ég hafði sett fram launakröfu sem var samþykkt. Ég pældi aðeins í þessu, las mér til um staðinn og hringdi svo eftir hádegi til að segja já. Svo hringdi ég í hinn staðinn (Trångsund) og afþakkaði starfið en lét vita að það var erfitt að velja. Sóknarpresturinn þar er rosalega almennileg og ábyggilega gaman að vinna með henni en hún verður reyndar bara að leysa af fram að áramótum.

Nú er heilinn á mér á fullu við að skipuleggja starfsárið, hvenær væri gott að hafa tónleika og hvað ætti að gera með kórnum. Jafnvel að setja af stað ungmennakór. En samt verður maður að hafa tíma til að æfa sig.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Það ku víst vera ágætt að sulla hvítlaukssósu á sig áður en maður fer í atvinnuviðtal.

Í gær vaknaði ég klukkan fimm til að keyra til Stokkhólms. Ég átti að vera mættur í atvinnuviðtal klukkan 11 í Nynäshamn sem liggur ca. 60 km suður af Stokkholmi. Á leiðinni stoppaði ég til að fá mér pulsu í frönsku brauði og tókst þá að sulla hvítlaukssósu á bolinn minn. Ég var ekki með neinn aukabol og var bara í sumarjakka sem hefði verið asnalegt að hafa aðhnepptann í viðtalinu. Þar að auki hafði Skrámur gubbað á buxurnar sem ég hafði ætlað í og öll önnur almennileg föt voru enn blaut eftir þvottinn því að þurrkarinn var bilaður. Ég hélt ég myndi ná að kaupa annann bol fyrir viðtalið en síðustu 40 km var sveitavegur með fullt af traktorum á ferli þannig að ég kom 5 mín. í ellefu. En ég hugsaði að það skipti ekki svo miklu máli að vera hálf druslulega til fara í þessu viðtali.

Ég gerði ekki ráð fyrir að vera ráðinn. Þetta er nefnilega eina organistastaðan sem hefur verið auglýst á Stokkhólmssvæðinu um þessar mundir (allt hitt voru kantorsstöður), ég hafði heyrt að það hefði a.m.k. einn diplom-organisti (n.k. konsertorganisti) sótt um og svo vildu þau fá einhvern til frambúðar en ég sæki bara um í eitt ár. Ég var nokkrum sinnum búinn að afskrifa þessa stöðu en viðtalið gekk vel. Það var glatt á hjalla og greinilegt að þau lögðu mikla áherslu á að fá góðan kórstjóra. Svo hitti ég allt hitt starfsfólkið og þar var ennþá meira hlegið. Svo skoðaði ég kirkjuna og jarðarfararkapelluna og svo vildi þau endilega sýna mér bæinn og bjóða mér í hádegismat.

Bærinn er mjög fallegur (alla vega á svona sumardegi), það búa þarna tólf þúsund manns og mikið af túristum á sumrin þar sem það koma svo mikið af skipum þangað. Staðan er spennandi þar sem maður hefur ansi frjálsar hendur með að byggja upp tónlistarlífið, en þó er ýmislegt í gangi þarna fyrir. En alla vega. Í hádegismatnum var mér boðið starfið. Ég bjóst alls ekki við því að þau myndu ákveða sig svona fljótt. Ég bað um vikufrest til að pæla í þessu, aðallega til að vita hvort hinn staðurinn (Trångsund) mundi bjóða mér starfið þar.

Hitt viðtalið í Trångsund var kl. 16.15 en ég náði heldur ekki að kaupa mér bol fyrir það þar sem ég var svona lengi á hinum staðnum. Þannig að ég mætti í hvítlaukssósubolnum, blautur eftir rigningu, í buxum sem hanga asnalega á mér og í sandölum (því spariskórnir hefðu verið stílbrot!). Í þessu viðtali var líka glatt á hjalla (núna voru það fjórar konur sem var kannski auðvelt að sjarmera) og allt gekk vel. Svo settist ég upp í bílinn og byrjaði að keyra til baka og eftir ca. 5 mín. hringdi sóknarpresturinn og bauð mér starfið.

Úllen dúllen doff....

Trångsund er kantorsstaða (þ.e. ekki krafist háskólamenntunar) og liggur ansi nálægt nýju íbúðinni okkar (það er endanlega búið að samþykkja allt skiptiferlið). Öll aðstaðan er fín og mikið um að vera tónlistarlega séð. Það er töluverð viðvera í hverri viku og svo eru þrír barnakórar.
Til Nynäshamn þarf maður að taka lest í 45 mín. (sem þykir ekkert tiltökumál hér í Svíþjóð), er með einn blandaðan kór og svo einn kór með nokkrum gömlum konum (meðalaldurinn er 85 ár). Svo eru nokkrar jarðarfarir innifaldar (í fyrra voru þær 106 yfir árið) en að öðru leiti er þetta nokkuð frjálst. Maður má taka þátt í barnastarfinu, halda tónleika og spila á sjúkrahúsinu en er ekkert bundinn við það.

Ég er sem sagt að hugsa um að taka Nynäshamn stöðuna aðallega því að ég sé fram á að geta haft meiri tíma til að æfa mig og undirbúa fyrir hljómsveitarstjórnar námið. Báðir staðirnir samþykktu þau laun sem ég krafðist (DAMN!... ég hefði átt að fara fram á meira) og þau vita alveg að ég verð sennilega bara í eitt ár. Ég sagðist ætla að svara þeim í síðasta lagi á föstudaginn.

Í dag fóru síðustu gestirnir. Það er sem sagt búið að vera gestir hér síðan 30. maí og voða gaman. Skrámur var reyndar ekkert allt of hrifinn til að byrja með. Hann setti meira að segja upp kryppu og úfið skott þegar Vala var að stríða honum um daginn. En hann er voða hrifinn af Halldóri og stekkur upp í fangið á honum við hvert tækifæri.

Svo var Hrafnhildur gæsuð á sunnudaginn. Það er búið að vera að skipuleggja það undanfarnar vikur. Vinkonur hennar hafa verið að hringja í mig og senda mér leynileg bréf og svo var spurningaleikur þar sem Habbidu átti að giska á hverju ég hefði svarað og mér þótti ekki nema sanngjarnt að gefa henni vísbendingar dagana fyrir, t.d. hvert væri uppáhalds tónskáldið mitt (sem ég vissi eiginlega ekki sjálfur þegar ég var spurður). Þetta gekk víst svaka vel og allir skemmtu sér vel í góðu veðri.

laugardagur, júní 12, 2004

Nú er heldur betur langt síðan ég bloggaði síðast. Það er búið að gerast svo mikið. Þann 30. maí komu Indra og Mamma og daginn eftir voru útskriftartónleikarnir. Þeir gengu svaka vel. Það kom hópur úr háskólakórnum sem ég stjórnaði í fyrra og þau virkuðu eins og klapplið og höfðu til að mynda frumkvæðið að því að standa upp í lokin. Það var voða gaman. Fyrr um daginn fór ég með stelpunum í Blómagarðinn í æðislegu veðri og slappaði bara af. Það var mjög sniðugt og varð til þess að maður var einbeittur og vel undirbúinn. Það var líka mjög gaman að geta boðið upp á pönnukökur með sykri, flatkökur með hangikjöti og spínatsallat. Það féll í góðan jarðveg.

Daginn eftir fórum í Liseberg í fínu veðri og það var ekki amalegt að fara með Mömmu daginn áður en hún varð sextug. Hún er alveg tækjaóð og hefur ekkert fyrir því að fara í Rússibanana. Við erum öll svona í fjölskyldunni nema Pabbi sálugi. Um kvöldið var eldað lambalæri sem var æðislegt.

Á miðvikudaginn héldum við upp á sextugs afmæli Mömmu og svo fór hún til Köben að hitta sinn heittelskaða og þau fóru svo daginn eftir til Bornholm og fóru fyrst heim í dag. Ég og Indra fórum á Vatnlitasafnið í Tjörn. Við byrjuðum reyndar á Því að borða fisk á matsölustaðnum. Ég spurði hana um Ingólf og hvað fyrri konan hans gerði og Indra sagði að hún væri líka myndlistarmaður og viti menn. Fyrsta verkið sem við sáum á safninu var einmitt eftir hana. Þvílík tilviljun. Kvöldið áður hafði Indra verið að skoða vídeóspólurnar hjá okkur í leit að Friendsþætti og sá þá spólu sem merkt var: Fiðluleikur Indru. Hún var viss um að ég hefði tekið hana að heiman en merkilegt nokk þá var þetta spóla frá ömmu Hrafnhildar. Þetta voru líka myndir sem voru alveg týpískar fyrir Indru: Manhattan (Woody Allen), A Room With a View og svo þessi Litrófsþáttur sem fjallaði um stúdentaleikhúsið fyrir ca. 10 árum þar sem Indra lék á fiðluna. Alveg ótrúlegt að akkúrat þetta skuli hafa verið tekið upp, mörgum árum áður en ég og Hrafnhildur byrjuðum saman.
Seinna um daginn komu Hjalti og Vala og svo Halldór, Dísa og Daði og við borðuðum grillmat hjá Þórdísi frænku Hrafnhildar sem býr rétt fyrir utan Gautaborg. Þar var nú glatt á hjalla.

Á fimmtudaginn var komið að Hrafnhildi að útskrifast. Það var nú almennileg athöfn enda hafði bekkurinn skilað inn lista með kröfum hvernig þetta ætti allt saman að vera. Það var mikið gert grín að þessum lista í útskriftarveislunni daginn eftir. Svo var farið út að borða og kíkt í búðir einu sinni sem oftar (mér hefur tekist að koma mér upp göngulagi þannig að ég þreytist ekki eins fljótt á búðarápinu).

Á föstudaginn fór Indra heim aftur og ég held að hún hafi ratað í rétta flugvél (wink wink)og ég í síðasta tímann í skólanum. Það var hljómsveitarstjórnin en vegna misskilnings kom ég klukkutíma of seint og kennarinn var dáldið pirraður og setti út á öll möguleg smáatriði hjá mér.
Svo fórum við öll í Liseberg en nú var ekki eins gott veður en samt voða gaman. Eftir þrjú tæki þá hlupum við Habbidu upp nokkrar brekkur til Önnu og Johans til að skipta um föt. Svo hlupum við fjögur upp fleiri brekkur til Kristinu og kærasta hennar til að fá okkur fordrykk fyrir útskriftarpartýið. Svo rauk Anna allt í einu upp og sagði að við værum of sein og þá hlupum við niður allar brekkurnar og í veisluna. Þegar við settumst svo niður til borðs kom þessi svakalega þreyta fram. Öll þessi hlaup og allur æsingurinn í Liseberg tók sinn toll. Eftir borðhaldið gat maður drukkið og dansað þreytuna frá sér. Það var voða gaman.

Á laugardaginn hélt í minikonsert fyrir þá sem misstu af útskriftartónleikunum, við fórum í Pödduna (túristabátur hér í Gautaborg) og við strákarnir horfðum á æfingaleik Englands og Íslands á enskum pöbb hér í bæ. Við laumuðum okkur út þegar staðan var orðin 6-1.
Á sunnudaginn fór fólk í sitthvora áttina. Hjalti og Vala til baka til Oslo, Halldór og Dísa til Köben á ráðstefnu og við hin fórum til Stokkhólms á mánudaginn. Við gátum lítið annað gert en að keyra, fara i atvinnuviðtöl, skoða í búðir og keyra aftur. Við skoðuðum reyndar íbúðina og leist vel á. Viðtölin gengu vel. Hrafnhildur er nánast garanteruð með þessa vinnu svo framarlega sem enginn annar sæki um sem er með margra ára reynslu. Ég reyndi að slá á létta strengi í mínu viðtali en það féll ekkert í allt of góðan jarðveg. Þau voru að vanda sig svo mikið í hlutverki sínu og komu með ansi margar "lærðar" spurningar. Ég fer aftur á þriðjudaginn og þá í tvö viðtöl. Mér líst ansi vel á eitt starfið og vona að viðtalið gangi vel. Ég er búinn að tala við sóknarprestinn þar tvisvar í síma og hitta hana einu sinni og hún er mjög notaleg og skemmtileg. Svo liggur kirkjan frekar nálægt íbúðinni okkar og aðstæðurnar eru fínar. Ég er búinn að vera á nálum í hvert skipti sem síminn hringir af ótta við að þeir bjóði mér starfið eftir síðasta viðtalið.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Nú ættu margir að gleðjast (sérstaklega þú, Jón Óskar). Það er búið að ákveða að hafa hringsvið og hljómsveitargryfju í tónlistarhúsinu þannig að það ætti að vera hægt að setja upp óperur þar. Ég vona bara svo innilega að þetta heppnist allt saman vel og að hljómburðurinn verði góður.

Ég er orðinn ansi þreyttur á konunni sem býr beint fyrir ofan okkur. Hún kemur við og við til að biðja okkur um greiða og hún talar svo mikið. Síðasta sumar hjálpaði ég henni að borga reikninga á netinu og hún tuðaði yfir mér allan tímann að hún yrði að gera þetta í dag því hún var að fara til Tyrklands daginn eftir og sagði sama hlutinn aftur og aftur. Núna kom hún til að spurja hvort hún mætti nota fyrsta hálftímann af þvottatímanum okkar. Eftir ca. 30 sekúndur sagði ég að það væri í lagi en henni tókst að tuða um þetta í 5 mínútur í viðbót, alltaf sama hlutinn, hvað þetta væri mikilvægt fyrir hana. Ég ítrekaði að þetta væri í fínu lagi en áfram hélt hún.

Mánudagurinn skiptist í þrennt.
Fyrst var það próf í impróviseruðu orgelspili sem ég æfði rosa mikið fyrir. Manni var úthlutað þremur sálmum sem maður átti að búa til forspil við og gera eitthvað skemmtilegt og gott við versin (þ.á.m. transponera, tríóspil og breyta hljómagangnum) og svo átti maður að búa til eftirspil í formi Partítu bygða á sálmi sem tilheyrði deginum. Þar sem þemað var aðventusálmar þá valdi ég Veni Emanuel (kom vor Imanúel) sem eftirspilsálm og var ansi stoltur af þeirri tónsmíð.
Prófið gekk svo vel og í gær komst ég að því að ég hefði náð sem kom mér svo sem ekkert á óvart en hitt var undarlegt að ég var sá eini í bekknum mínum sem náði. Einn fékk reyndar ekki að taka prófið vegna of mikillar fjarveru, ein ákvað að taka ekki prófið fyrr en í haust, einn féll og tvær féllu í sálmaspils hluta prófsins sem mér finnst mjög skrítið þar sem þær hafa báðar unnið sem kantor í mörg ár. Þetta er sérstaklega merkilegt þar sem ég var lélegastur í litúrgísku orgelspili þegar ég byrjaði í skólanum þar sem ég hafði bara spilað á orgel i tvö ár en hin með miklu meiri reynslu. Mig grunar helst að konurnar hafi fallið í tranponeringunni en ég féll einmitt í því í fyrra. Það var reyndar óvenju erfitt því þá þurfti maður að undirbúa 16 mismunandi tranponeringar og féllu óvenju margir í því.

Annar hluti dagsins fór í að fylgjast með fréttum frá Íslandi. Ég las alla fréttavefi og pólitískar greinar. Ég sá að Torfi frændi (hann er reyndar ekki frændi minn heldur Hrafnhildar en þar sem ég á ekkert skyldmenni sem heitir Torfi er ég að hugsa um að kalla hann það) skrifaði um það um daginn að honum þætti öll skrif sem hann las um þetta fjölmiðlamál svo illa skrifuð og engin rök færð fyrir öfgafullum skoðunum. Mig grunar að hann hafi verið að lesa spjallþræði sem eru oft ansi skelfilegir en ég get mælt með skodun.is þar sem safnað er saman ýmsum greinum frá hinum og þessum pólitísku vefsíðum. Mér finnst mjög áhugavert að lesa murinn.is, silfuregils og deiglan.com sem er í umsjá skólafélaga minna úr MR. Þar er fremstur í flokki Borgar Þór sem mér fannst alltaf öfgafullur sjálfstæðismaður en ég var alveg hissa hvað þessi vefur er málefnalegur og góður.

Síðasti hluta dagsins varði ég með Pro musica, síðasta kóræfingin mín. Það var ákveðið að taka upp nokkur kórverk sem við höfum sungið undanfarið. Sniðug hugmynd þar sem verkin sitja svo vel og ekki þarf að æfa sérstaklega en það voru bara allir svo óeinbeittir eftir að hafa verið í vinnunni allan daginn og svo var vor í loftinu og fólk eiginlega of glatt. Svo þurfti Jan alltaf að hlusta á upptökurnar á milli og það tók sinn tíma. Skiljanlega vill hann að þetta sé sem best en við náðum bara að taka upp þrjú lög, eitt frekar stutt en hin nokkuð lengri. Svo á að halda áfram í haust en þá verð ég nú varla með. Það var sem betur fer tekið upp stykkið þar sem ég syng nokkrar sólóstrófur og ég vona að hægt sé að nota það.

laugardagur, maí 15, 2004

Stenst ekki mátið að birta þessa litlu gamansögu sem finna má á bloggsíðu Stefáns Pálssonar:

"Súrrealíska móment dagsins er í boði Útvarps Sögu:

Ingvi Hrafn Jónsson: Og starfsfólk Norðurljósa lætur teyma sig. Þau eru leidd áfram, eins og maðurinn sem leiddi börnin...Hvað hét hann aftur? Þarna með flautuna, sem spilaði og öll börnin fylgdu á eftir...Æi, hvað hét hann eiginlega?"

Tæknimaðurinn: "Uhh, ertu að tala um Roger Whittaker?"

föstudagur, maí 14, 2004

Mikið ofboðslega er fyndið að heyra fréttaþulinn Vilhelm G. Kristinsson (með sinni hlutlausri röddu) segja í lok hádegisfrétta í dag: Formaður Vinstri grænna kallaði forsætisráðherra gungu og druslu. Fleira er ekki í fréttum."
Þetta er nú meiri sápuóperan. Hvað gerist eiginlega næst. Ætli Halldór rífist heiftarlega við Davíð sem endar með því að annar slái hinn utan undir og snúi sér svo að flöskunni. Eins og í Dallas
Það var umfjöllun um Dallas hérna um daginn og talað um að sósíalistar hefðu fagnað þáttunum og vissir um að þetta væri háðsmynd af kapítalistu samfélagi Bandaríkjanna og hápólitískt.

Nú er Habbidu í Falun með Önnu, Önnu og Jenny. Alla helgina. Það þýðir dáldið aðrar reglur á heimilinu á meðan. Þá er til að mynda í lagi að fá sér vöfflur og bjór í kvöldmat. Það er reyndar ýmislegt að gera. Það er próf á mánudaginn í impróvaseruðu orgelspili, orgeltónleikar á miðvikudaginn, kórferð til Skara á sunnudaginn þar sem á að syngja meðal annars messu eftir Poulenc sem er ferlega snúin en mjög flott. Svo þarf ég að ganga frá fullt af smáverkefnum og ganga frá atvinnuumsóknum til að senda í næstu viku. Þannig að það er um að gera að vera duglegur. Þess vegna er mjög gott að vera í tölvuleik megnið af deginum í dag.

Habbidu og Anna kynntu lokaverkefnið sitt í vikunni og stóðu sig með prýði. Það er naumast hvað þarf að vera námkvæmur og vísindalegur í svona skýrslu. Verkefnið fjallar um viðforf 10 ára barna við talörðugleika jafnaldra sinna. Ég náði að lesa ca. hálfa skýrsluna fyrir kynninguna og var hissa hvað þetta þurfti að vera nákvæmt. Þurfti að skilgreina hugtakið viðhorf fyrst, greina frá öllum fyrri rannsóknum og fjalla vísindalega um félagslegar aðstæður 10 ára barna. Svo voru andmælendur sem settu aðallega út á notkun kommu, uppröðun á heimildum og þannig.
Í eitt skipti var rökrætt hvort ætti að nota hugtakið fjórðu bekkingar, 10 ára börn eða jafnaldrar og urðu snögg orðaskipti sem mér fannst dáldið fyndið þ.a. ég hló með sjálfum mér (hélt ég) en það vildi þannig til að akkúrat á því augnabliki var dauðaþögn í salnum og ALLIR litu við og horfðu skringilega á þennan kærasta Hrafnhildar hlæja að þessari gagnrýni. En mér fannst samt fróðlegt að heyra að eftir þetta sköpuðust umræður hver þessara talmeinafræðinga yrði fyrst barnshafandi og var Hrafnhildur og Anna valin (ekki þessi Anna reyndar heldur hin). Þau hafa ábyggilega byggt það á þessum hlátri mínum ("... já hann virðist vera í góðu formi þessi...")

miðvikudagur, maí 05, 2004

Gat skeð!
Ég hringdi í Daniellu, konuna í Stokkhólmi sem ætlar að skipta við okkur á íbúðum. Hún er ekki búin að skila inn pappírunum til leigusalanna. Þeir þurfa nefnilega 4 til 6 vikur til að kanna málið. Ástæðan er sú að hún stendur í forræðisdeilu við fyrrverandi manninn sinn sem meinar henni að flytja með börnin þeirra frá Stokkhólmi. Hann er búinn að setja stopp á allt þetta íbúðaskiptaferli og dómstólarnir ætla að skera úr um þetta 29. maí. Vonandi að þeir dæma henni í vil og að við getum farið fram á flýtimeðferð hjá leigusölunum. Ég tók náttúrlega fram að mér þætti það leiðinlegt að hún þyrfti að standa í þessu öllu saman. En ég get ekki sagt að þetta sé skipulagðasta kona í heimi.

Um helgina fórum við Hrafnhildur í búðarleiðangur til að kaupa á mig afmælisföt. Við fundum nokkrar buxur til að máta og ég fór í mátunarklefan í herradeildinni. Þar voru allt strákar á mínum aldri að máta föt og kærusturnar stóðu fyrir utan og fylgdust grant með, yfirleitt með hurðina hálf opna þannig að öll búðin sá inn í klefann. Hrafnhildur hagaði sér mun betur en þessar kærustur og opnaði ekki fyrr en ég var búinn að hneppa endanlega að buxunum.
Ég fylgist spenntur með þessu fjölmiðlamáli á Íslandi og leita uppi allt sem hefur verið skrifað um þetta. Hér í Svíþjóð er ansi gott ríkissjónvarp sem sinnir menningarlegu og uppbyggilegu hlutverki og virkar vel með einkareknu sjónvarpsstöðvunum sem sýna mest megnis afþreyingarefni. Það sýnir oft mjög góðar heimildarmyndir og í fyrra sá ég meðal annars mynd um ástandið á Ítalíu þar sem Berlusconi ræður yfir nánast öllum einkareknum fjölmiðlunum og hefur beitt áhrifum sínum sem forsætisráðherra á ríkissjónvarpið þar. Það voru nefnd dæmi um að í Íraksstríðinu mætti ekki nota ákveðin neikvæð orð um stuðning ríkisstjórnarinnar við stríðið og einum fréttamanninum sem hafði unnið þarna í marga áratugi, var sagt upp störfum eftir að hafa fengið mann í viðtal sem gagnrýndi aðgerðir Berlusconi. Á Ítalíu eru í gildi fjölmiðlalög sem koma í veg fyrir að einn aðili geti átt of mikið í fjölmiðlunum en honum hefur tekist að brjóta gegn þessu og þrátt fyrir ítrekaðar áminningar dómstóla hefur ekkert gerst.

Eftir að hafa séð þennan þátt fannst mér ástæða til að setja lög um fjölmiðla á Íslandi en mér þætti alveg svakalega sorglegt ef það verður gert með þeim hætti sem Davíð vill gera nú. Þetta frumvarp er svo asnalegt að maður bara trúir því ekki. Svo hefur umræðan verið ofboðslega ómálefnaleg. Mér fannst ansi gott sem Gunnar Smári skrifaði í fréttablaðið í gær (þriðjudag):
Ef það er svo að fjölmiðlar ganga erinda eigenda sinna eins og Davíð og fleiri vilja meina þá tekur þetta frumvarp ekkert á því. Það er ekkert fjallað um innri starfsreglur og ekkert kemur í veg fyrir að einn og sami aðili geti átt alla einkarekna fjölmiðlana svo framarlega sem hann er ekki markaðsráðandi. Og ekkert sagt um dagblöð (þ.e. að markaðsráðandi aðilar mega áfram eiga hlut í Morgunblaðinu).

Ég var einnig gáttaður á því hvernig fjölmiðlar í Bandaríkjunum brugðust við pyntingarmálinu þegar það kom upp í síðustu viku. Fréttin kom fyrst fram í 60 mínútum en þeir höfðu beðið með að senda handa út í 2 vikur vegna þrýstings frá Pentagon. Og eftir það fjölluðu nær allir vestrænir fjölmiðilar um þetta nema Bandarískir. Tveir prófessorar í fjölmiðlafræði (sænskur og bandarískur) sögðu ástæðurnar vera tvær. Önnur sú að stjórnvöld hefðu það mikil áhrif á fjölmiðlana. Ef þeir birtu fréttina gætu þeir búist við stirðari samskiptum við stjórnvöld og misst af "scoop" frá þeim og þar af leiðandi misst áhorf. Hin ástæðan er sú að áhorfendur eru flestir svo þjóðernissinnaðir að svona neikvæðar fréttir um stríð sem er í gangi falla ekki í góðan jarðveg: áhorf minnkar, fyrirtæki draga úr stuðningi og draga auglýsingar til baka.
Svo er alltaf verið að tala um að Bandaríkin séu svo frjáls og lýðræðisleg!

föstudagur, apríl 30, 2004

Í dag er Valborgsmässa. Ég veit ekki alveg af hverju eða hvers vegna en dagurinn virkar eins og sumardagurinn fyrsti. Það fara allir út og hlusta á kóra syngja, setja upp stúdentshúfurnar sínar og ungmennin detta í það. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég stjórna ekki kórnum mínum sem ég hafði þangað til síðasta vor. Hins vegar var ég beðinn um að syngja með í karlakór sem var settur saman af nemendum skólans og við sungum af svölunum yfir kaffiteríunni. Nokkur dæmigerð karlakórsvorlög sem við æfðum tíu mínútum áður en við sungum. Sumt þekkti ég vel en annað hafði ég aldrei heyrt þó svo að þetta væri alveg klassískt. Svo var ég beðinn um að stjórna sem var dálítil kúnst þar sem maður þurfti að syngja um leið og lesa annan tenór prima vista og taka með allar fermötur, ritardandó, bindiboga og andanir sem eru orðnar hefð en standa ekki í nótunum. En kvenpeningnum í skólanum þótti þetta náttúrlega æðislegt enda ekki amalegar raddir.
Fyrir fyrstu Valborgsmässuna mína var talað um í kórnum hvort allir ættu ekki að hafa "studentmössa" sem ég vissi ekki alveg hvað var. Hélt helst að það væri svunta af einhverjum ástæðum. Þótti það frekar skrítið að maður skyldi hafa stúdentssvuntu. Mér datt kannski í hug að þetta væri eitthvað í sambandi við húsmæðraskóla en kórinn minn tilheyrði Verslunarháskólanum þannig að þetta meikaði engan sens. En svo kom í ljós að þetta þýðir stúdentshúfa. Þær eru mjög fjölbreyttar í útliti, oft með einhvern dúsk og ansi litríkar. Í fyrra gat ég verið með mína og þótti hún nokkuð merkileg. Sérstaklega þetta með að taka þetta hvíta af eftir eitt ár og svo er hún svona svört og drungaleg eftir það.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Á kóræfingunni í gær kom skoskur bassabásúnuleikari úr sinfóníunni til að kenna okkur framburðinn í verki eftir James McMillan við ljóð eftir Robert Burns. Hann komst í svo mikinn ham og fór að lesa fleiri ljóð eftir Robbie Beeeerns og hann las þau á SKOSKU (nota bene ekki geilísku heldur skosku). Maður skildi ekki orð. Svo tók ég eftir að það litu voða margir á mig. Þegar hann var búinn þá sögðu margir að þetta væri nú bara alveg eins og íslenska og spurðu hvort ég skildi þetta. Ég náði einu orði.... held ég... hann sagði einhvern tímann "september" en að öðru leiti.....hmmm. Þegar ég vann á Hótel Sögu áttum við öll erfiðast með að skilja Skotana af öllum þjóðernum, þó svo þeir töluðu ensku.
"Swewanfurdanæ"
"Sorry, Could you repeat that sir."
"Sewanfurdínæn"
"Once again sir."
"Sewanfurtínæn."
"????....uhm... Oh... Seven forty nine. Of course sir. Here you are"
"(That's what I've been saying.... you....)"
Hvað er með þetta fólk. Nennir það ekki að hreyfa munninn. Ég skil ekki hvernig þú ferð að því að búa þarna Torfi.
En fólki fannst þetta svona líkt íslensku. Það var eitthvað sem minnti á ð og þ hljóðin og svoleiðis. Ég kenndi nebblega kórnum íslensku síðustu jól þegar ég stjórnaði verki eftir Báru Grímsdóttur á jólatónleikunum.
Svo átti ég að sjá um karlana aftur í heilar 40 mínútur og átti bara að æfa eitt stykki. Ég sá ekki fram á að það myndi endast í svo langan tíma en svo var alveg nóg að gera og þeir sungu þetta svo undurfallega í lokin. Svo vildu þeir syngja "skógarvatnslagið" aftur því þeir sögðust ekki hafa hlegið svona vel og innilega í mörg ár. En það gafst því miður ekki tími til þess.

föstudagur, apríl 23, 2004

Ég er fórnarlamb betlara, skoðanakannanafólks og góðgerðarstofnanasafnara. Ég er alltaf stoppaður niðri í bæ. Fólk eltir mig út um allt. Hvað skoðanakannanir varðar þá passa ég oftast ekki inn í markhópinn. Ég er annað hvort of ungur, of gamall, án vinnu eða þá að ég drekk ekki kaffi. Í dag kom kona hlaupandi á eftir mér þegar ég var niðri í bæ (það var nota bene nokkur hundruð manns þarna) og þessi kona var alveg eins og óframfærna, mjóróma vinkona hennar Dörmu í þáttunum um Dörmu og Greg. Hún spurði hvaða morgunblöð ég les og við sögðum upp Göteborgsposten í haust og lesum helst netið og þá passaði ég ekki inn í könnunina. Svo er ég alltaf spurður til vegar. Líka í útlöndum þó svo ég sé nýkominn til borgarinnar. Það finnst mér reyndar allt í lagi. Gaman að maður lýtur ekki út fyrir að vera túristi.

Áðan var Júróvsjónþáttur í sjónvarpinu. Það voru sýnd 11 lög sem munu keppa í Istanbúl og það voru dómarar frá öllum Norðurlöndunum sem spáðu um gengi lagsins í keppninni. Frá Íslandi var Eiríkur Hauksson. Okkur Hrafnhildi fannst eins og þetta væri Laddi að herma eftir Eiríki Haukssyni. En hann var ansi góður. Talar svona fína norsku. Svo var Hrafnhildur svo ánægð að hann skyldi hafa losað sig við permanentið.

Nú er ég að fást við hljómsveitarverk eftir Brahms: Variasjónir yfir stef eftir Haydn. Eftir að hafa fengist við Bartok og fyrst og fremst Stravinski þá virkar þetta frekar einfalt. Stravinski er með svo flókinn rytma og mikið að gerast. En fyrir vikið þá gat kennarinn minn leyft sér að vera mjög smámunasamur. Það er svipað með hann og suma aðra kennara sem ég hef haft að hann verður á stundum dáldið þreyttur á mér vegna þess að ég hef svo ákveðnar skoðanir hvað varðar túlkun og það kemur æ oftar fyrir að ég er ósammála honum. Það er sama sagan með þá orgelkennara sem ég hef haft. Ég fæ stundum þennan svip: Æ, geturðu ekki bara spilað eins og ég!

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Þetta var einn af þessum dögum!
Ég þurfti að hafa mikið fyrir þvi að koma mér á fætur og drösla mér í skólann því ég þurfti að vera mættur þar klukkan hálf tíu (nei, ég er ekki að grínast... hálf tíu!). Ég ætlaði að fylgjast með tveimur orgelkennslustundum en þegar ég mætti var enginn þar. Það mætti enginn fyrr en eftir klukkutíma. Ég fór bara að æfa mig á orgelið í staðinn. Ég ætla að spila á það á útskriftartónleikunum og það er mjög ásetið. En einu sinni sem oftar var eitthvað að. Núna var það að tvístrikaða c á aðalmanúalnum lá niðri og hljómaði ekki neitt. Það var rosalega truflandi. Til að þið skiljið hvað ég þurfti að ganga i gegnum ætla ég að skrifa það sem eftir er af greininni án þess að nota ð.
Svo hófst næsta kennslustund og þeim nemanda fannst óge slega óþægilegt a hafa ekkert C. Hún var líka a spila stykki í C-dúr. Svo hringdi Jan (stjórnandakennari minn) og þegar ég var búinn a tala vi hann í tæpa mínútu dó batteríi í símanum mínum. Þetta er í þri ja skipti sem síminn deyr hjá mér í mi ju samtali vi hann. Tvisvar dó rafhla an og einu sinni var inneignin búin. Og alltaf skal samtali rofna þegar hann er í mi ri ræ u og hann fattar ekkert fyrr en eftir langa mæ u a hann hefur ekkert heyrt frá mér. Vi þyrftum a koma okkur upp einhvers konar systemi þannig a ma ur gefi frá sér hljó á fimm sekúndna fresti.
Svo þurfti ég a gera munnlega og skriflega gagnrýni um þýska kennslubók í orgelimpróvisasjón (bókin var nóta bene á þýsku). En í þeim í tíma þá var tíminn útrunninn á ur en kom a mér því a ein bekkjarsystir mín þurfti a tala svo miki um suzukiorgel kennslufræ ina. Hún er tæplega fimmtug og er ein af þessum konum í háskólalífinu sem þarf svo miki a tala og láta ljós sitt skína. En tíminn var sem betur fer framlengdur um hálftíma og ég gat komi þessari gagnrýni frá mér.
Svo var ég alltaf a rekast á orgelnemann minn. Vi hittumst ca 5 sinnum á göngum skólans. Fyrst var þetta: "Hej, hej." Næst: "Hej igen." Svo: "Hej, he, he. Þú veist. Alltaf að hittast." Og svo framvegis.
Svo mætti ekki söngnemandinn minn. Hann sem er alltaf svo stundvís og samviskusamur. Og þegar ég kom heim og setti símann í hle slu heyr i ég tvenn skilabo frá honum þar sem hann sag ist ekki geta komist. Var me kvef. Týpískt hann. Haf i hringt tvisvar til a vera viss um a ég hef i fengi skilabo in.

(Nú skal ég hætta að ekki skrifa ð. Þið eruð búin að þjást nógu mikið. Munið bara að ég gat ekkert gert að þessu vandamáli með c-ið). Það voru nú nokkrir skemmtilegir punktar við daginn. Karin (orgelkennarinn minn) bað mig um að leysa sig af á orgeltónleikum í Hagakirkjunni 19. maí þegar hún er í Austuríki að vígja orgel mannsins síns. Svo vildi Hrafnhildur hafa Pizzukvöld (yfirleitt er það ég sem sting upp á því). Það gæti legið í því að ég átti að sjá um matinn og var búinn að lýsa því yfir að það yrðu afgangar og svoleiðis.
Karlakórsæfingin á mánudaginn gekk vel. Við höfðum fimm lög og áttum að velja nokkur til að flytja á vortónleikunum. Þrjú af þeim voru týpísk karlakórslög sem okkur tókst að gera mjög vel, eitt var tangó lag sem mönnum þótti ekki henta og svo var eitt lag sem var dáldið flókin tónsmíð. En það gekk ekki því þegar við komum að síðasta taktinum voru allir flyssandi. Við reyndum aftur og þá voru allir með tárin rennandi niður kinnarnar. Við sáum ekki fram á að geta flutt lagið án þess að hlæja. Þetta var rosalega hátíðleg og alvarleg tónlist en textinn var víst: Vaknaðu litla skógarvatn... litla skógarvatn. Já vakna, vakna, vatn, þú skóóógarvatn. Svo voru menn raulandi þetta það sem eftir lifði af kvöldinu.

laugardagur, apríl 17, 2004

Það er einhver undarleg árátta hér í Svíþjóð að skammstafa allt. Það er svosem líka skammstafað að vissu leyti á Íslandi, það er t.d. alltaf talað um MR og FB en í blöðunum er yfirleitt notaður allur titillinn fyrst og svo skammstafað það sem eftir er greinarinnar. Hér er t.a.m. alltaf talað um LO í blöðunum og fréttunum og ég hef aldrei heyrt hvað það stendur fyrir. Ég veit að þetta er starfsgreinasambandið eða e-ð svoleiðis. Þegar ég spyr fólk Í skólanum hvað það sé að gera segjast sumir vera í ML. Og þegar ég spyr hvað það sé þá er svarið: Það er gamla GG, svona ca. KK og IE. Það segir mér bara ekki neitt. Nú veit ég reyndar að ML þýðir Musiklärare.

Í dag hringdi Oskar kunningi minn og spurði hvort ég vildi koma með sér á OD í Konserthuset. Hvað á maður að trúa að það sé? Ég hélt kannski að það væri eitthvað íþróttalið. En þetta reyndist vera karlakórinn Orphei Drängar sem er einn af bestu karlakórum heims. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðna fordóma gagnvart karlakórum. Það er mjög erfitt að fá þá til að syngja hreint og þar sem raddlegan liggur svo hátt og fyrir 1. tenór og lágt fyrir 2. bassa verður þetta oft ansi mikil öskur í toppnum og skruðningar í botninum. En OD syngja fallega, mjúkt og eins og einn maður þrátt fyrir að þeir séu 80 kallar á öllum aldri (frá 20 til rúmlega 60). Svo var efniskráin mjög metnaðarfull og oft ansi flott. Frekar óvenjuleg fyrir karlakór en þeir geta leyft sér þetta þar sem þeir troðfylltu 1200 manna salinn (það var búið að vera uppselt í marga mánuði). Eftir síðasta lagið undu þeir sér ansi fljótt í aukalögin og tóku fjögur svona týpísk vorlög. það var reyndar ansi týpískt karlakór. Maður var varla byrjaður að klappa þegar þeir tóku næsta aukalag.

Það var skemmtileg tilviljun að Oskar skildi hafa hringt í mig því bara rétt áður hafði ég fengið nótur að nokkrum karlakórslögum sem ég á að æfa með Pro musica á mánudaginn á meðan Jan æfir konurnar í verki eftir Villa Lobos. Það verður spennandi að vita hvort maður nái að láta þá syngja eitthvað í líkingu við OD.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Ég byrjaði daginn á því að horfa á myndband af talfærunum. Það var læknir sem stakk þræði með myndavél á endanum upp í nefið á sér þannig að maður gat séð raddböndin í aksjón. Mjög áhugavert. Ég hét því að ræskja mig aldrei framar eftir að hafa séð hvernig þetta afmyndast allt saman við þá athöfn.
Ég fór líka á hádegistónleika með orgelkennaranum mínum. Hún spilaði í tónleikaröð sem er búin að vera í allan vetur með tónlist Bachs í nýju ljósi. Hún improviseraði í kringum fjóra orgelkórala úr Orgelbuchlein ásamt slagverksleikara. Ég verð nú bara að viðurkenna það að þetta voru óvenjulegastu orgeltónleikar sem ég hef sótt. Stundum var þetta voða spennandi og flott og stundum ekki og stundum alls ekki. Í fjórða og síðasta verkinu þá stóð einn gamall maður upp, greip skjalatöskuna sína og strunsaði út um leið og hann hristi hausinn. Mér þótti það bara tilheyra sérstaklega af því að í gær sagði kennarinn mér að hún hefði spilað verk eftir Ligeti sem byggir á því að organistinn spilar stóra hljóma eftir nótunum og registrantinn impróviserar á tökkunum, t.d. hálfútdregnir takkar, engir takka o.s.frv. (ég hef einu sinni registrerað fyrir hana í þessu sama verki). En á þessum tónleikum kom gamall maður til hennar eftir á og sagði hvað honum þætti þetta frábært og samtímis var annar gamall maður sem hundskammaði prestinn fyrir að leyfa að þetta væri spilað í kirkjunni.

mánudagur, apríl 12, 2004

Úff. Hvernig er hægt að borða svona mikið. Ég er ennþá ekki búinn að jafna mig eftir allt súkkulaðið, svínabóginn og ég veit ekki hvað. Eyjó kom til okkar og kenndi mér að hanna vefsíðu. Hann vildi meina að þetta væri ekkert mál en það þarf að gera ansi mikið bara til að birta eina setningu. Þetta venst ábyggilega. Ég byrjaði aðeins að kynna mér þetta í gær og þetta er voða spennandi. Málið er bara að fikta nógu mikið og þannig lærir maður best. Það er ágætt að kunna þetta upp á framtíðina að gera.

Ég þurfti að fara í skólann í dag. Var í söngtíma. Söngkennarinn minn lifir fyrir kennsluna nú þegar hann er hættur að syngja opinberlega og fannst alveg ómögulegt að sleppa úr kennslu þessa vikuna (því ég á að vera í söngtímum á mánudögum). Svo þegar Lars (organistinn í Oscar Fredriks kirkjunni) hringdi í mig og bað mig um að leysa sig af í messu í dag fannst honum það frekar léleg afsökun að ég þyrfti að vera í söngtíma. Ég ætti kannski að útvega vottvorð frá söngkennaranum og sýna Lars.

Mér tókst líka að æfa mig alveg heilmikið á orgelið í dag. Ég hafði samband við Hallgrímskirkju um daginn og fæ að spila á tónleikaröðinni þar í lok júlí og Erla Elín sem sér um þetta vildi helst að maður spilaði eitthvað íslenskt. Þannig að ég fór í gegnum þær íslensku orgelnótur sem ég er með en verð nú bara að segja það að þar var ósköp lítið sem höfðaði til mín. Gunnar Reynir Sveinsson er nú reyndar fínn. Ég hef spilað eitt verk eftir hann (Tilbrigði við Jesú mín morgunstjarna) og svo fann ég í dag Tilbrigði við Nú vil ég enn í nafni þínu og það var bara fínt. En hin verkin voru annað hvort frekar ómerkileg, augljósar kópíeringar af einhverju öðru eða framúrstefnu tilraunastíll (sami tónn spilaður 32 sinnum og svoleiðis). Ég hugsaði með mér að ég gæti sennilega gert betur sjálfur og þá hugsaði ég aftur: "Já, ég get ábyggilega gert betur sjálfur." Þannig að ég ætla að reyna það. Semja sjálfur fyrir þessa tónleika. Það flokkast náttúrlega undir íslenska tónlist. Ég var að hugsa um að nota hollenska sálminn "Þú mikli Guð" að einhverju leyti sem ég hef alltaf haldið upp á.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega páska eða "Påskemorgen slut i sorgen" eins og sagt er í fjölskyldunni minni.
Það er ekki gert eins mikið úr páskahátíðinni og aðdraganda hennar eins og á Íslandi. Skírdagur er til að mynda ekki frí dagur hér og svo skjóta menn bara upp flugeldum strax á laugardeginum. Svo var ég að tékka á sjónvarpsdagskránni og það er eiginlega ekkert trúarlegt þar. Það er bara sjónvarpsmessa (sem er hvort eð er á hverjum sunnudegi). Það bara sýnt "búningamyndir", annars vegar mynd um frumflutning 3. sinfóníu Beethovens og hins vegar Amistad. Mér finnst svona "búningamyndir" alveg ferlega leiðinlegar. Það er allir svo uppteknir af því að vera í gömlum 18. aldar fötum og tala öðruvísi, m.ö.o. ofboðslega tilgerðarlegt!

Það er nú annað en við Hrafnhildur sem höldum upp á páskana með því að borða svínasteik með puru og súkkulaðipáskaegg sem er náttúrlega í beinum tengslum við upprisu Frelsarans út af því að ..... ehhhh..... hérna....... jáááá...... hann bauð lærisveinunum upp á ommilettu þegar þeir voru búnir að fatta að hann var upprisinn? Eða eitthvað þannig.
Nei þetta hefur auðvitað ekkert með kristindóminn að gera. Þetta eru leifar af frjósemishátíðinni. Ég var mjög hissa þegar ég byrjaði í kirkjutónlistarnáminu að heyra hvað það eru mikið af málamiðlunum í kristindómnum. Þetta er allt meira eða minna slegið saman í eitt við hinar hefðirnar (úr Gyðingdómnum og heiðninni).

föstudagur, apríl 09, 2004

Já þetta var nú góður Simpsons þáttur. Reyndar voru þeir tveir.
Var að koma heim eftir að hafa spilað á tónleikum í Oscar Fredriks kirkjunni. Það gekk svaka vel, alla vega af minni hálfu. Kórinn átti það til að vera dáldið undir tóni við og við. Svo spilaði ég stykki eftir Liszt sem ég hef ekki spilað síðan á vorprófinu í fyrra. Hrafnhildur var á tökkunum og stóð sig mjög vel. Það var síður en svo auðvelt. Hún stóð sig meira að segja betur en organisti kirkjunnar sem var á hægri hliðinni. Hann gleymdi nebblega að setja inn einn takka sem ég tók sem betur fer eftir og gat leiðrétt. Merkilegt hvað reyndir og færir organistar veigra sér við að vera svona registrant. Þessi saup kveljur þegar ég bað hann, orgelkennarinn minn vill helst ekki registrera og Hans Davidsson orgelprófessor sem hefur verið með Masterclass í skólanum sagðist vera alveg afleitur í þessu.

laugardagur, apríl 03, 2004

Jamm og já.
Í dag tókst mér að fara út með Skrám. Honum finnst voða gaman að vera úti en ekki að fara út. Það er mikil barátta maður þarf því miður að reyna að gabba hann en hann er farinn að þekkja brögðin og felur sig undir sófa eða rúmi. Það er svo fínn skógur bara 30 metrum frá útidyrunum sem honum finnst voða gaman að skoða.
Nú verð ég að gera smá hlé til að horfa á nýjan Simpsonsþátt.

miðvikudagur, mars 31, 2004

Í dag kom vorið. Ansi hlýtt, alla vega eftir hádegi. Allir á peysunni og mig langaði svo að hafa nemendur mína úti í dag en það var dálítið erfitt, sérstaklega með orgelnemann. Hún var voða dugleg í dag. Hún er voða músíkölsk og skilur svo vel þegar ég útskýri fyrir henni en það er ekki alltaf sem hún er búin að æfa sig mikið. Söngnemandinn var líka voða duglegur. Það er alveg týpiskt með hann að ég var búinn að undirbúa nokkur söngleikjalög og gospel fyrir hann til að hann halda áhuga hans en honum finnst skemmtilegast að syngja þessi gömlu klassísku lög.
Það gekk alveg ágætlega með Pro Musica á mánudaginn, alveg eins og mig grunaði að nóturnar sátu rétt mjög fljótt og þá fór maður strax í að móta og þannig. Svo voru kórtónleikar með kirkjumúsíkerkórnum í gær og það gekk voða vel og var ágætlega sótt. Ég söng nokkrar sólóstrófur, ein var ansi strembin nótnalega séð, frekar atónal en það tókst ágætlega.
Var að koma af sinfóníutónleikum. Sem tónlistarnemi fær maður miða á 20 kr. sem er alveg æðilegt en sætin eru á fyrstu bekkjunum þar sem hljómburðurinn er ekkert svo góður en maður reynir að finna laus sæti annars staðar. Í kvöld var það Mozart og Haydn, mjög vandað og fágað og stjórnandinn (Christian Zacharias) stjórnaði frá píanóinu og er mjög fær, en Haydn sinfónían var ekkert sérstök.
Á morgun er fyrirlestur í orgelsmíði og þá ætla ég að reyna að finna fína stellingu til að sitja.
Donka

mánudagur, mars 29, 2004

Já Markús minn. "...og um ennið hélt." Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Ég varð mjög ánægður í fyrra þegar ég komst loksins að því hvað Ellen Kristjánsd. syngur í Einhvers staðar einhvern tíman aftur (sem er eitt besta íslenska dægurlagið):
"Það er alveg nóg af sorg og sút,
svo ég ætla eitthvað út,
finna einhvern félagsskap
því hik þú veist er sama' og tap."

Og hvað segir eiginlega Aretha Franklin í Respect: R-e-s-p-e-c-t find out what it means to me. R-e-s-p-e-c-t ... (og hvað svo). Ég hef alltaf sungið "Take care t-c-t" án þess að mér hafi fundist það meika einhvern sens. Hún Ellen Degeneres var að benda á þetta í einu af uppistandinu sínu, hún er alveg frábær. Ég horfði nú eiginlega aldrei á þættina hennar en hún er mjög fyndin á sviði.

Fyndnasta misskilninginn á bróðir minn sem söng á árum áður: Baby, now that I've drowned you I can let you go! Sem á reyndar að vera: Baby, now that I've found you I can't let you go! Og systir mín söng: Lítill fugl á ljúfum teini. Eins og það væri verið að grilla greyið fuglinn en það á víst að vera: Lítill fugl á laufgum teigi.

Þetta minnir mig líka á allar jarðarfarirnar sem maður var að syngja við. Stundum vorum við að skiptast á sögum og hlógum og hlógum og þurftum svo að fara inn mjög alvarleg og syngja. Eitt það fyndnasta var þegar við vorum að tala um Faðir vor (sem mér finnst alltaf svo asnalegt þegar bænin er kölluð Faðir vorið)
Það er vor
þúsund metra' á himnum.
Helgi! (stytt nafn)
til komi þitt ríki.
Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum (hér þurfti mamman að gera hlé á bæninni og hlaupa í símann og þegar hún kom aftur og spurði son sinn hvert þau voru komin þá sagði hann: Við vorum komin að nautunum.)
Eigi legg þú ost í frysti (Hann Guð kann að gefa góð heimilisráð)
Heldur frelsa oss frá illu.
Því þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Amen.

maggiragg@hotmail.com

sunnudagur, mars 28, 2004

Nú var ég að koma frá að spila í orgel continium í Stabat mater eftir Pergolesi í Oscar Fredriks kirkjunni. Það gekk nú bara vel. Allir voða ánægðir. Það var reyndar dáldið óþægilegt fyrir mig því kórorgelið er til hliðar og strengirnir og stjórnandinn nokkrum metrum frá mér og ég þurfti að horfa á hann í speglinum og konsertmeistarinn sneri baki í mig. En þetta blessaðist allt saman. Við náðum að renna einu sinni í gegnum stykkið með öllum og svo var konsert þannig að það gilti að vera vel vakandi fyrir öllu. Við hljóðfæraleikararnir æfðum reyndar sér í tæpan klukkutíma í safnaðarheimilinu og þá spilaði ég á píanó. Það er nú alveg merkilegt að þótt þetta sé alveg eðal barokkstykki þá varð þetta svo djassað þegar maður spilar á píanó með kontrabassa. Um jólin spilaði ég undir hjá barnakór á píanó og með mér spilaði kontrabassaleikari og það var alveg sama sagan þar. Allt varð svo djassað. Mér finnst þetta voða flott samsettning.

Það er búið að vera projekt vika í skólanum; fyrirlestrar, masterclass og kóræfingar, þ.e. sitja voða mikið. Furðulegt hvað maður verður fljótt þreyttur á að sitja þegar maður er á svona fyrirlestrum. Maður veltir sér um á stólnum, krossleggur fætur í allar áttir og teygir úr sér á allan hátt. Svo getur maður setið marga klukkutíma á kóræfingum og verður ekki vitund þreyttur á því að sitja. Þetta er svipað og þegar ég fer á búðarráp með Hrafnhildi. Ég verð alveg uppgefinn í löppunum eftir 10 mín. (stundum 5 mín.). Ég tók eftir því um daginn að ég dreg lappirnar á mjög sérstakan hátt. Síðast þegar við fórum á svona búðarráp þá tókst mér að haga fótunum betur og nú er þetta vandamál sennilega úr sögunni. Nú er bara að einbeita sér að fyrirlestrarstellingunni.

Það skemmtilegasta við vikuna var að ég var beðinn um að sitja í dómnefnd fyrir inntökupróf í stjórnun (ensambleledning) í skólanum. Við vorum bara tveir í dómnefndinni, gáfum einkunnir og bárum okkur svo saman í lokin. Umsækjendurnir áttu að stjórna serenöðu fyrir strengi, einu kórstykki og svo etýðu fyrir tvö hljóðfæri. Þau máttu velja hvaða verk og hvaða hljóðfæri áttu að spila (völdu sem sagt úr umsækjendahópnum). Serenaðan var yfirleitt flutt af málmblásturshljóðfærum og það hljómaði yfirleitt alveg hræðilega.
Á morgun er það svo Pro Musica og svo hefst kennsla samkvæmt stundarskrá á ný. Bæ ðe vei... nú erum við búin að skipta yfir í sumartíma þannig að nú erum við tveimur tímum á undan Íslandi.
maggiragg@hotmail.com

þriðjudagur, mars 23, 2004

Jibbí!
Kórstjórinn fyrir Pro Musica (Jan Yngwe) var að hringja í mig til að biðja mig um að sjá um kóræfinguna nú á mánudaginn. Hann kemst sennilega ekki sjálfur. Þetta verður fyrsta æfingin fyrir vortónleikana í maí og þess vegna mun ég þurfa að kenna þeim ca. þrjú ný lög. Það verður alla vega "Dieu! qu'il la fait bon regarder!" úr Trois chansons eftir Debussy sem ég söng með Hljómeyki fyrir nokkrum árum. Alveg æðisleg tónlist. Mjög tilfinningarík og hljómarnir eru afar spennandi. Þetta var í fyrsta skipti sem ég söng á frönsku og ég man hvað mér þótti það erfitt. Svo er það verk eftir Skotann James McMillan og annað eftir sænska konu fyrir kór og sex slagverksleikara. Ég hef ekki séð þau verk en bæði hljóma mjög spennandi. Svo verður sennilega tekin upp gömul verk og dæmigerð vorlög.
Það sem er svo gott með kórinn er að meðlimirnir eru svo flínkir í nótnalestri enda allir tónlistarmenntaðir. Nóturnar sitja rétt nánast frá byrjun. En þetta er jafnframt erfitt fyrir mig því þá þarf maður að fara beint í að móta og túlka strax á fyrstu æfingu. Hefði þetta verið "venjulegur" kór þá hefði maður rennt nokkrum sinnum í gegnum verkin til að leiðrétta nóturnar og um leið fengið tækifæri til að heyra stykkið og þá gefst manni tími til að mynda sér skoðun um túlkun, hvaða hljóm maður vill og farið í smáatriði. En þetta þarf maður yfirleitt að gera beint með Pro Musica.
Ég hef áður séð um æfingu og það var fyrsta æfingin fyrir jólatónleikana í haust þar sem ég kenndi þeim "Eg vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur og æfði eitt verk (Änglanatt) eftir kórstjórann. Bára sló náttúrlega í gegn hjá kórnum og svo ég monti mig aðeins þá gekk mér betur að stjórna verki kórstjórans heldur en honum þegar hann mætti í vikunni á eftir (enda sögðu nokkrir við mig að ég hefði stjórnað betur). Alla vegna. Þetta verður spennandi.

Skrámur er eitthvað lasinn. Hann pissar blóði. Ég fór með hann á dýraspítalann í gær og hann fékk nokkur lyf og svo lagast þetta líklega eftir viku. Við vitum það hér á þessu heimili að ef það er búið að draga fram sófann og rúmið frá veggnum og allt á rúi og stúi þá hefur annað hvort okkar verið að reyna að fá Skrám í búrið sitt. Það eru mikil átök enda er ég með klóruför á bringunni og uppáhaldspeysan mín er orðin dáldið slitin.

Ég var að komast að einu mér til mikillar furðu. Þið vitið lagið með Bó: "Ég sá Hana' á skólaballinu' í gær" þá er settning seinna í laginu sem ég hef ALLTAF sungið: "... og upp að ljósastaurnum hallaði ofurmennið ég" og fannst það bara fínt, eitt það besta í textanum, fín kaldhæðni þetta, en svona er það bara ekki samkvæmt einhverri vefsíðu sem Hrafnhildur var að sína mér. Textinn er víst: "... og upp að ljósastórnum hallaði og um ennið hélt." Huhh! Ég gef nú ekki mikið fyrir það.

sunnudagur, mars 21, 2004

Þá virðist húsnæðismálin vera að leysast.
Það er nebblega hún Daniella í Stokkhólmi sem vill skipta við okkur. Hún er með íbúð rétt hjá Fridu fyrrverandi sambýliskonu Hrafnhildar og íbúðin er algjörlega endurnýjuð. Nú er það bara leigusalinn sem þarf að samþykkja okkur. Það tekur u.þ.b. tvær vikur. Við höfum smá áhyggjur af því að þeir hafni okkur þar sem við erum ekki búin að fá vinnu (hvorugt okkar búið að sækja um). Hrafnhildur var að ganga frá umsókninni sinni fyrir talmeinafræðistöðu í Stokkhólmi og það var voða flott hjá henni. Ég hef merkilegt nokk aldrei gert svona umsókn. Þó hef ég unnið á þó nokkrum stöðum. Yfirleitt hefur mér bara verið boðin vinna og þá hefur þetta bara verið ákveðið í gegnum símann. Einu sinni var ég beðinn um að skila inn formlegri umsókn þar sem ég var þegar byrjaður að vinna.
Áðan voru tónleikar með Pro Musica sem gengu mjög vel og voru vel sóttir. Núnar eru bara ca. 5 æfingar eftir og einir tónleikar og svo ekkert meira. Mér hefur reyndað verið boðið að koma með til Brasilíu í nóvember en ég veit ekki hvort ég kemst með þar sem ég veit ekki hvað ég verð að gera í haust. Ég á eftir að sakna kórsins mjög mikið. Bæði fólksins sem er mjög skemmtilegt og yndislegt og kórstjórans sem er mjög góður. Ég hef verið í ansi mörgum kórum og komist að því að það er mjög auðvelt að finna eitthvað að kórstjóranum en þessi vinnur mjög vel, alltaf vel undirbúinn og nánast alltaf í góðu skapi. Það er lítið hægt að setja út á hann. Svo er stemningin svo góð. þótt að þetta sé einn af bestu kórum Svíþjóðar er ekki til neinn hroki né öfundsýki. Mér hefur stundum ofboðið hrokinn og baktalið í íslensku kórunum og að það sé ekki hægt að sætta sig við að einhver annar geri hlutina öðruvísi.
maggiragg@hotmail.com

föstudagur, mars 19, 2004

Þá er vorið komið hingað til Gautaborgar, hiti 10 stig, skyggni ágætt... borgarstarfsmenn farnir að hreinsa sandinn af götunum og ég farinn að hjóla á ný. Mikið er það nú gaman. Þetta er svipuð tilfinning og þegar maður var krakki og fór að nota strigaskóna á ný eftir að hafa verið í kuldaskónum allan veturinn. Það eru reyndar ýmsir hér í borg sem hjóla allan veturinn þrátt fyrir snjó og hálku. Það er nú ekkert fyrir mig.
Ég á reyndar eftir að sakna tímans í sporvagninum því maður getur nýtt hann ágætlega með því að lesa. Stundum hef ég verið að skoða nótur og raulað mjög lágt. Það getur verið dáldið gaman því oftast fer sá sem situr fyrir framan mig að velta fyrir sér hvaðan hljóðið kemur, lítur í kringum sig, horfir upp í loftið, hann heldur ábyggilega að hann sé farinn að heyra raddir.
Svo hef ég stundum stúderað hljómsveitar- eða kórverk og æft mig í að stjórna. Ég vil taka það fram að ég nota mjög litlar hreyfingar en samt fer allur sporvagninn að glápa á mig, unglingsstelpur flissa og benda og þegar ég lít upp þykjast þær vera að tala um eitthvað allt annað og passa sig að horfa ekki á mig. Það er ekki eins og ég sé með einhverjar Bernstein hreyfingar þegar ég er innan um annað fólk. Það er nú önnur saga þegar ég er heima að æfa mig, þá er maður ekkert að spara sig og Skrámi finnst mjög gaman þegar ég sveifla tónsprotanum sem mest. Hann er eiginlega alltaf hjá mér þegar ég æfi hljómsveitarstjórn. Hann er þessi týpa "Handsome and he knows it" með svo sæt augu að maður getur ekki vísað honum frá þegar hann skríður upp í fangið á manni.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Nú ganga þessi íbúðarmál aðeins betur.
Það eru góðar líkur á að við getum skipt við eina konu sem ætlar að flytja til Gautaborgar sem er með íbúð sem verið er að endurnýja algjörlega og hún á eftir að kosta svipað og það sem við erum að borga í leigu núna, ca. 5200 sek. Hrafnhildur gat ekki sofið um daginn af áhyggjum, það er svo margt óvisst, bæði íbúð, vinna fyrir okkur bæði og svo brúðkaupið í sumar. Hún er rólegri núna. Ég er hins vegar frekar rólegri og held að þetta reddist allt saman (týpískur karlmaður). Enda er ég búinn að vera með Ríó Tríó á heilanum: "Þeeeetta reddast..... já það reddast...... það reddast sjálfsagt eina ferð á ný! Jáááááá það reddast, þetta reddast.... það reddast (eitthvað eitthvað) ......... borg og bý." Man einhver eftir þessu lagi, ca. 10 ára gamalt. Ef svo þá geturðu ímyndað þér hvað það er gaman að hafa þetta á heilanum!
Þessi og næsta vika er projekt vika í skólanum sem þýðir að ekki er kennt skv. stundaskrá, heldur bara fullt af sérverkefnum: aðallega kóræfingar, fyrirlestrar og masterclass. Sem sagt óvenju mikil viðvera þannig að maður nær ekki að æfa sig eins mikið auk þess sem það eru inntökupróf í skólanum þannig að maður má ekki bóka æfingaherbergi. Á mánudaginn var masterclass í jass fyrir orgel og saxófón. Það var voða gaman, sérstaklega að djamma með saxófónistanum Håkan Lewin. Það er samt eitthvað við skandinavískan jass sem ég fíla ekki alveg. Ég held það sé ofnotkunin á stórri sjöund.
Framundan eru nokkrir tónleikar. Nú á sunnudaginn ætlar kórinn minn (Pro Musica) að flytja tónleikaprógrammið Ramaskri (öskur í Rama) sem er voða flott. Meðal annars tvær passíu mótettur eftir Poulenc sem ég alveg elska, bæn eftir Rachmaninov og Bölvun járnsins eftir eistlendinginn Tormis. Við höfum sungið það nokkrum sinnum áður og það er alveg magnað. Eitt af þessum verkum sem er neiðinlegt að æfa en magnað á tónleikum og vekur mikla lukku. Kórinn er líka alveg rosalega góður þótt ég segi sjálfur frá.
Næsta sunnudag er það svo Stabat mater eftir Pergolesi þar sem ég mun spila continio orgel. Þetta verður gert á enska háttinn. Þ.e. tónleikarnir eru hálf átta og fyrsta æfingin er kl. fimm sama dag. Svo á föstudaginn langa mun ég spila á stóra orgelið í Oscar Fredriks kirkjunni í messu fyrir kór og tvö orgel eftir Vierne. Það verður dáldið erfitt þar sem það verður svo langt á milli mín og kórsins og hins orgelsins og tekur langan tíma fyrir hljóðið að berast fram og til baka. Maður þarf því að stara í spegilinn til að sjá stjórnandann og liggja aðeins og undan slaginu.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Jæja, þá hefst bloggið.
Undanfarnar vikur (eiginlega síðan ég kom aftur út til Gautaborgar í janúar) hef ég varla gert neitt annað en að undirbúa mig fyrir inntökuprófin í stjórnendadeildina í Stokkhólmi. Þess vegna hef ég ekkert verið voða duglegur að skrifa vinum mínum og láta vita hvað ég er að gera. Svo tekur það svo langan tíma fyrir mig að skrifa tölvupóst því ég þarf alltaf að segja frá svo mörgu þegar ég loksins læt verða af því að skrifa. Þetta blog-dæmi lýst mér ansi vel á og vona að það virki.
Alla vegna. Eins og ég var búinn að undirbúa mig mikið fyrir inntökuprófin þá komst ég samt ekki inn og varð heldur betur fyrir vonbrigðum. Nú er ég þó búinn að jafna mig á þessu. Þetta er barasta mjög erfitt. Það voru 30 sem sóttu um og ca 3 sem komust inn. Svo voru allir að spurja mig hvort ég væri þarna í fyrsta skipti. Það var nebblega þannig að þeir sem sögðust vera þarna í fyrsta skiptið voru bara að prófa til að gera þetta almennilega á næsta ári og þeir sem komust inn höfðu reynt árið áður.
Mér gekk samt alveg ágætlega í prófunum. Ég stjórnaði strengjakvintett, eitt stykki eftir Mozart og eitt eftir Puccini. Það gekk mjög vel og dómnefndin virkaði mjög ánægð. Áður en ég fór inn í prófið hafði ég heyrt að Jorma Panula (hljómsveitarstjóri) væri mjög gagnrýninn og komið með fullt af kommentum fyrir þá sem voru að stjórna en hann sagði ekkert við mig og virkaði mjög ánægður. Kórstjórnarprófið gekk líka vel en það sem ég klikkaði á var prima vista prófið þar sem ég átti að spila hluta af einhverju Haydn píanóstykki og nokkra takta úr hljómsveitarverki eftir Stravinski og það gekk ekki eins vel. Það var mjög erfitt ritmískt, alltaf að skipta um takttegund og fullt af punkteringum og þríólum.
Nú er bara að undirbúa sig fyrir inntökuprófin á næsta ári og til öryggis ætla ég að sækja um í Kaupmannahöfn líka. Þá gæti Hrafnhildur starfað í Malmö og annað hvort okkar pendlað á milli með lestinni. En ef ég kemst inn í Stokkhólmi þá tek ég það.