laugardagur, apríl 17, 2004

Það er einhver undarleg árátta hér í Svíþjóð að skammstafa allt. Það er svosem líka skammstafað að vissu leyti á Íslandi, það er t.d. alltaf talað um MR og FB en í blöðunum er yfirleitt notaður allur titillinn fyrst og svo skammstafað það sem eftir er greinarinnar. Hér er t.a.m. alltaf talað um LO í blöðunum og fréttunum og ég hef aldrei heyrt hvað það stendur fyrir. Ég veit að þetta er starfsgreinasambandið eða e-ð svoleiðis. Þegar ég spyr fólk Í skólanum hvað það sé að gera segjast sumir vera í ML. Og þegar ég spyr hvað það sé þá er svarið: Það er gamla GG, svona ca. KK og IE. Það segir mér bara ekki neitt. Nú veit ég reyndar að ML þýðir Musiklärare.

Í dag hringdi Oskar kunningi minn og spurði hvort ég vildi koma með sér á OD í Konserthuset. Hvað á maður að trúa að það sé? Ég hélt kannski að það væri eitthvað íþróttalið. En þetta reyndist vera karlakórinn Orphei Drängar sem er einn af bestu karlakórum heims. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðna fordóma gagnvart karlakórum. Það er mjög erfitt að fá þá til að syngja hreint og þar sem raddlegan liggur svo hátt og fyrir 1. tenór og lágt fyrir 2. bassa verður þetta oft ansi mikil öskur í toppnum og skruðningar í botninum. En OD syngja fallega, mjúkt og eins og einn maður þrátt fyrir að þeir séu 80 kallar á öllum aldri (frá 20 til rúmlega 60). Svo var efniskráin mjög metnaðarfull og oft ansi flott. Frekar óvenjuleg fyrir karlakór en þeir geta leyft sér þetta þar sem þeir troðfylltu 1200 manna salinn (það var búið að vera uppselt í marga mánuði). Eftir síðasta lagið undu þeir sér ansi fljótt í aukalögin og tóku fjögur svona týpísk vorlög. það var reyndar ansi týpískt karlakór. Maður var varla byrjaður að klappa þegar þeir tóku næsta aukalag.

Það var skemmtileg tilviljun að Oskar skildi hafa hringt í mig því bara rétt áður hafði ég fengið nótur að nokkrum karlakórslögum sem ég á að æfa með Pro musica á mánudaginn á meðan Jan æfir konurnar í verki eftir Villa Lobos. Það verður spennandi að vita hvort maður nái að láta þá syngja eitthvað í líkingu við OD.

Engin ummæli: