þriðjudagur, mars 23, 2004

Jibbí!
Kórstjórinn fyrir Pro Musica (Jan Yngwe) var að hringja í mig til að biðja mig um að sjá um kóræfinguna nú á mánudaginn. Hann kemst sennilega ekki sjálfur. Þetta verður fyrsta æfingin fyrir vortónleikana í maí og þess vegna mun ég þurfa að kenna þeim ca. þrjú ný lög. Það verður alla vega "Dieu! qu'il la fait bon regarder!" úr Trois chansons eftir Debussy sem ég söng með Hljómeyki fyrir nokkrum árum. Alveg æðisleg tónlist. Mjög tilfinningarík og hljómarnir eru afar spennandi. Þetta var í fyrsta skipti sem ég söng á frönsku og ég man hvað mér þótti það erfitt. Svo er það verk eftir Skotann James McMillan og annað eftir sænska konu fyrir kór og sex slagverksleikara. Ég hef ekki séð þau verk en bæði hljóma mjög spennandi. Svo verður sennilega tekin upp gömul verk og dæmigerð vorlög.
Það sem er svo gott með kórinn er að meðlimirnir eru svo flínkir í nótnalestri enda allir tónlistarmenntaðir. Nóturnar sitja rétt nánast frá byrjun. En þetta er jafnframt erfitt fyrir mig því þá þarf maður að fara beint í að móta og túlka strax á fyrstu æfingu. Hefði þetta verið "venjulegur" kór þá hefði maður rennt nokkrum sinnum í gegnum verkin til að leiðrétta nóturnar og um leið fengið tækifæri til að heyra stykkið og þá gefst manni tími til að mynda sér skoðun um túlkun, hvaða hljóm maður vill og farið í smáatriði. En þetta þarf maður yfirleitt að gera beint með Pro Musica.
Ég hef áður séð um æfingu og það var fyrsta æfingin fyrir jólatónleikana í haust þar sem ég kenndi þeim "Eg vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur og æfði eitt verk (Änglanatt) eftir kórstjórann. Bára sló náttúrlega í gegn hjá kórnum og svo ég monti mig aðeins þá gekk mér betur að stjórna verki kórstjórans heldur en honum þegar hann mætti í vikunni á eftir (enda sögðu nokkrir við mig að ég hefði stjórnað betur). Alla vegna. Þetta verður spennandi.

Skrámur er eitthvað lasinn. Hann pissar blóði. Ég fór með hann á dýraspítalann í gær og hann fékk nokkur lyf og svo lagast þetta líklega eftir viku. Við vitum það hér á þessu heimili að ef það er búið að draga fram sófann og rúmið frá veggnum og allt á rúi og stúi þá hefur annað hvort okkar verið að reyna að fá Skrám í búrið sitt. Það eru mikil átök enda er ég með klóruför á bringunni og uppáhaldspeysan mín er orðin dáldið slitin.

Ég var að komast að einu mér til mikillar furðu. Þið vitið lagið með Bó: "Ég sá Hana' á skólaballinu' í gær" þá er settning seinna í laginu sem ég hef ALLTAF sungið: "... og upp að ljósastaurnum hallaði ofurmennið ég" og fannst það bara fínt, eitt það besta í textanum, fín kaldhæðni þetta, en svona er það bara ekki samkvæmt einhverri vefsíðu sem Hrafnhildur var að sína mér. Textinn er víst: "... og upp að ljósastórnum hallaði og um ennið hélt." Huhh! Ég gef nú ekki mikið fyrir það.

Engin ummæli: