þriðjudagur, júní 22, 2004

Nei þetta er nú einum of mikil tilviljun. 2-2 fyrir Danmörk og Svíþjóð. Akkúrat það sum þurfti til að báðar þjóðir kæmust áfram. Og svo skoruðu Ítalir ekki fyrr en á síðustu mínútunni til að láta Svíana halda að þeir þyrftu ekki að jafna. Svíar spiluðu ekkert sérstaklega vel en gaman að þeir skuli vera komnir áfram.

Í nótt var svo mikið þrumuveður og ég gat ekki sofnað. Í stað þess að telja kindur fór ég að reikna út hvað þruman væri langt í burtu. Ef hljóðið berst 340 metra á sekúndu og ljósið kemur nánast um leið (300 þús km á sek.) þá ætti hljóðið að taka ca. 3 sekúndur að berast einn kílómetra, ekki satt? Þannig að þegar það eru 27 sekúndur á milli eldingarinnar og þrumunnar þá er þruman (27/3=) 9 km í burtu.

Þetta svínvirkaði og ég varð heldur betur syfjaður og alveg að sofna þegar ég mundi hvað Þóra Marteins hafði sagt mér um að sjónvarpið hennar hefði eyðilagst í þrumuveðri þegar hún var nýflutt til Gautaborgar. Þar sem við eigum ansi gott sjónvarp sem Pabbi átti (það er ennþá Pabbalykt af því og fjarstýringunni) þá fór ég inn í stofu og tók það og tölvuna úr sambandi. Við þetta glaðvaknaði ég og hrökk svo í kút (hvað svo sem það nú þýðir) þegar ein eldingin lýsti upp stofuna. Það varð skyndilega svo svakalega bjart og þetta er mjög óhugnanleg birta. Hrafnhildur steinsvaf aldrei þessu vant þannig að það var bara að snúa sér aftur að reikningskúnstinni.

Fyrir rúmri viku var staðan þessi: Við vorum örugg með íbúð, Hrafnhildur nokkuð örugg með vinnu (svo framarlega sem enginn sæki um með mikla reynslu, umsóknarfresturinn rennur út 30. júní) og ég vissi ekkert hvort ég fengi vinnu yfirhöfuð.
Nú hefur þetta gjörsamlega snúist við. Ég er öruggur með vinnu, Hrafnhildur bíður eftir 30. júní og íbúðarmálin mjög óljós.

Sennilega ættum við að geta fengið íbúð í Haninge sem liggur aðeins sunnar en hin íbúðin, þ.e. nær minni vinnu en fjær Hrafnhildar. Það munar samt ekki svo miklu því við tökum sömu lestina eftir sem áður og það munar bara 5 mínútum. Við sem sagt fórum á skrifstofu leigusalans í morgun sem var nýbúinn að fá bréf frá Stokkhólmi um að konan væri hætt við skiptin. Maðurinn þar hefur vorkennt okkur svona mikið þ.a. hann hringdi til kollega sinna í Stokkh. og mælti með okkur. Anna J, vinkona Habbidar ætlar að kíkja á íbúðina á fimmtudaginn. Ef allt gengur upp flytjum við 1. sept.

Engin ummæli: